Rómansan er sígilt form
Í lok sumars horfði ég á nokkrar ástarmyndir sem Netflix og VOD-ið héldu að mér og þar á meðal tvær sem mér fannst ég þurfa að skrifa um sérstaka grein; ég held að þessar veitur átti sig sennilega á að ég ræð ekki við neitt erfitt þessa dagana en ekki má þessi síða þó vera yfirtekin af misgóðum kvikmyndum þannig að ég læt eina greina nægja um fimm erótískar myndir — ekki kannski eiginlegar ástarsögur því að ég er ekki beint romcom-gæi. Hin glænýja Nosferatu Robert Eggers er þó ótvírætt full af heitum tilfinningum og ástríðum. Hún er einnig marglofuð og ekki annað hægt en að bera virðingu fyrir vandvirkni leikstjórans á ýmsum sviðum en ég fíla samt ekki þennan kalda og myrka stíl (bláa filterinn) þannig að hin þögla stolna aðlögun Draculasögunnar frá 1922 sem ég sá í fyrra er enn best að mínu mati þótt sú nýja vissulega góður fulltrúi hinnar erótísku vampíruhefðar. Myndin er á sinn hátt eins og ópera, stundum næstum paródísk ýkt þannig að stundum fannst mér læknirinn Sievers (leikinn af Ralph Ineson) einna áhrifamestur í sínum hófstillta leik. Aðrar persónur voru svolítið þrúgaðar ef fagurfræði Eggers sem er líkur sjálfum sér frá mynd til myndar, svolítið eins og svarthvítur Wes Anderson.
Ég las fyrstu Bridget Jones bókina glænýja sennilega í Danmörku á sínum tíma (árið 1998) og var jafn hneykslaður og aðrir þegar Hollywoodleikkonan ameríska tók að sér þetta ofurenska hlutverk en sú mynd reyndist áhorfanleg og einnig framhaldsmyndin og svo uppgötvaði ég í sumar að það væri enn verið að teygja þennan lopa. Bridget er orðin vel miðaldra þó að hún hafi samt ekki náð neinni sérstakri stjórn á lífi sínu og allir vinir hennar hrukkóttir og á mínum aldri, Darcy dauður og fátt áhugavert virðist framundan þegar henni er bjargað úr tré af ungum manni sem er leikinn af Jack úr The White Lotus sem er mikið krútt og fer síðan að reyna við hana endalaust; ekki get ég sagt að ég verði mikið var við allt þetta tvítuga og þrítuga fólk sem er æst í okkur gamla fólkið og grunar að þetta sé gamalmennafantasía. Engin nútímaleg bíómynd ætluð fjöldanum getur þó beinlínis mælt með slíkum fantasíum þannig að auðvitað slitnar upp úr hinu óviðeigandi sambandi og sem betur fer er búið að kynna til sögunnar annan mann á viðeigandi aldri snemma í myndinni svo að við þurfum alls ekki að vera neitt spennt. Renee Zellweger túlkar Bridget alveg eins og áður, urmull af vel þekktum leikurum er í aukahlutverkum [Hugh Grant og Emma Thompson eiginlega orðin að undarlegum náttúruöflum), og litlir notalegir brandarar um furður nútímans og annarlegar kringumstæður tengdar búknum á 20 sekúndna fresti. Maður veit þegar Bridget fer að kaupa smokka að auðvitað verður kennari barna hennar næstur í röðinni. Vísanir í „skyrtuatriðið“ fræga láta ekki á sér standa (sjá að neðan) og talsvert er grínast með áhyggjur Bridget af stærð bakhlutans. Eftir því sem sögunni vindur fram verður myndin æ hjartnæmari og henni lýkur á ljósmyndum úr gömlu myndinni til að fullkomna nostalgíuna.
On Swift Horses er ein af betri myndum ársins 2024 en ég rambaði eiginlega á hana fyrir tilviljun á vod-inu. Hún sækir í skáldsögu Shannon Pufahl (f. 1979) sem vakti mikla athygli sumra fyrir snjalla endurritun vesturferðaminnisins yfir Ameríku þvera án þess þó að gera höfund sinn almennt frægan. On Swift Horses er sannarlega ástarsaga en meginparið í myndinni eru eiginkona og mágur hennar á árunum rétt upp úr stríði; þau eru hvort á sínu ferðalagi vestur á bóginn þar sem saman fara veðmál, svik og óhefðbundin ást. Hinn fjallmyndarlegi Jacob Elordi úr Saltburn leikur máginn Julius sem sést fyrst ber að ofan á bílhúddi þó að föl sé á jörðu og er síðan í aðalhlutverki í ýmsum sveittum ástarsenum (sjá að neðan) ásamt félaga sínum í svindlinu sem er leikinn af Diego Calva úr Leyndarmáli árinnar. Samband þeirra er fallegasti og sterkasti hluti myndarinnar. Sumum finnst Elordi aldrei hafa leikið betur og hlutverkið reynir sannarlega á hann. Mágkonan Muriel er svo á eigin ferðalagi með eiginmanninum sem skilur hana ekki (hinn ágæti enski leikari Will Poulter sem er samt mjög bandarískur að sjá og heyra hér) en hún hittir síðan Söndru sem selur henni egg og hrífur hana svo að hún fer á lesbíuslóðir í nágreinninu til að leita Söndru milli þess sem hún gerist handgengin hrossaveðmálum. Myndin minnir talsvert á hinar flottu raunsæismyndir 8. áratugarins sem ég skrifaði um fyrir nokkru og gaman að vita að enn séu slíkar gerðar. Einnig hugsaði ég um Little Children og Revolutionary Road því að fyrir 20 árum var ekki hægt að gera svona myndir án Kate Winslet.
Oxfordárið mitt sem Netflix hélt að mér í sumar reyndist vera froðukennd mynd sem á varla heima í sömu grein og sú á undan, fjallar um ameríska stúlku með Oxfordblæti sem líkamnast í aðstoðarkennara einum sem er sjálfsöruggur kauði af aðalsættum. Hann reynist síðan óvænt vera með krabbamein og er dauður í lok myndarinnar. Frekar óskemmtileg flétta fyrir okkur þessi hálfsextugu en mér skilst að ungu fólki finnist fátt betri skemmtun en að lesa um ástir fólks með banvæna sjúkdóma. Fyrir utan hin augljósu áhrif frá Brontë-systrunum er þetta hálfgert léttmeti en Corey Mylchrest í hlutverki Oxfordfolans er mjög áhorfanlegur og á eflaust glæsilegan feril fyrir höndum.
Heiðarlegt líf er ný sænsk kvikmynd á Netflix með hinum unga Simon Lööf sem leikur ungan lagastúdent í Lundi sem líka heitir Simon (auðvitað mun hreinlegra) og leigir með tveimur yfirstéttardrengjum en dregst svo inn í annan og ólíkt róttækari félagskap (sænska Baader-Meinhof hreyfingu fátæka mannsins?), auðvitað vegna stúlku sem hann heillast af og er staðráðin að koma honum út úr þægindarammanum, gengur jafnvel svo langt að hella í hann víni á Thorvaldsensafninu í Kaupmannahöfn. Síðan reynist hin félagslega uppreisn í anda Hróa Hattar kannski heldur innantóm (enda reynist sjálfur Bjurman falinn bak við skegg vera andlegur leiðtogi hennar) og ofbeldið sem óhjákvæmilega fylgir á a.m.k. ekki við Simon. Mér finnst ég hafi séð þessa eða svipaða sögu ansi oft áður en spurningin um heilindi er áhugaverð nú á dögum sýndarmennskunnar þar sem listrænir gjörningar vekja stundum meiri hrifningu en raunverulegar tilraunir til að leysa málin og þetta er vönduð mynd sem mikið er lagt í. Leikarinn sem leikur herbergisfélagann Victor stelur eiginlega senunni en parinu sjálfu tekst aldrei að fá mann til að taka þátt í rómönsu sinni eða róttækni og þar hjálpar sögumannsröddin ekki.