Æskan og miðaldurinn

Daniel Craig þótti djarfur þegar hann tók að sér að leika í kvikmyndinni Queer sem Luca Gudagnino gerir eftir skáldsögu William S. Burroughs (Luca verður alltaf frægastur fyrir Call Me By Your Name sem hitti talsvert betur í mark en flestar hinar myndir hans). Craig leikur þar vel maríneraða Burroughs-fígúru (mikið absint drukkið í þessari mynd) sem er eins ólíkur James Bond og hægt er. Karlinn sá fær þráhyggju fyrir unga manninum Allerton sem er nánast eins og holdgervingur glataðrar æsku hans, ungur og heilbrigður (umfram gömlu byttuna) og er þar að auki ekki „öfugur“ í hans huga eins og allir hinir mennirnir sem hann hefur sofið hjá. Allerton er myndarlegur á hefðbundinn karlmannlegan hátt, með pena klippingu, vægan suðurríkjahreim og gleraugu en í raun hinn mesti foli (sjá að neðan) og er leikinn af Drew Starkey sem ég hef séð í ýmsum táningahlutverkum. Svona myndir ganga ekki upp nema að hægt sé að skilja þráhyggjuna og þó að Allerton sé frekar passívur og þurr og lítt rómantískur (en í huga eldri mannsins hinn dæmigerði óöfugi ameríski hermaður sem hinn öfugi sídrukkni og ræðni útlagi þráir öllu fremur) þá er samt eitthvað vænt og aðlaðandi við hann og Gudagnino nær að gera þetta allt skiljanlegt þó að það verði kannski aldrei alveg jafn grípandi og svipuð þráhyggja táningsins Elio í góðu myndinni með leiðinlega nafninu. Samt alveg í áttina þökk sé stórleik Starkey og Daniels Craig sem rífur sig allrækilega frá Bond og Queer var enda verðlaunuð í Feneyjum en vitaskuld ekki af hinum siðprúðu Kaliforníubúum. Fyrir utan Craig og Starkey er hin frábæra Lesley Manville í smáhlutverki og brillerar að vanda.

Ég var enn meira hissa þegar ég mundi að Babygirl er líka margverðlaunuð kvikmynd og eins Nicole Kidman fyrir leik sinn í henni þó að það yrði eitt margumtalað bakslagið fyrir óskarsverðlaunin (en kananum hefur líka aldrei fallið við erótískar myndir sem enginn er myrtur í). Ég hef sennilega verið að lesa vitlausu blöðin, of ensk-amerísk, því að Babygirl er dæmigerð evrópsk mynd, af því tagi sem Frakkar og Ítalir sérhæfa sig í (leikstjórinn er hollensk). Hún er sjónrænt falleg á köflum en handritið stundum óþétt sem kannski einkennir greinina. Babygirl fjallar um miðaldra konu, Romy, sem er í yfirmannsstarfi hjá vélrænu stórfyrirtæki en kynferðislega ófullnægð þegar maður á þrítugsaldri kemur siglandi inn í líf hennar og sýnir henni mikinn áhuga. Ekki er það ótrúverðugt að hún falli fyrir slíku því að við fimmtuga fólkið erum mörg farin að missa fyrstu gömlu vinina, farin að mæta í reglulegar speglanir og blóðrannsóknir og sum okkar jafnvel á svipuðum aldri og foreldrar okkar dóu. Þrátt fyrir alla ofsafengnu leikfimina, hlaupin og fjallgöngurnar verðum við aldrei ung og slétt aftur og eðlilega vekur ungt fólk stundum hjá okkur skrítnar kenndir þó að margir vilji ekki viðurkenna það eða einu sinni leyfa sér að hugsa um slíka pörun sem er enda ekki mjög praktísk í raunheiminum. Þannig er það með Romy sem Nicole leikur. Hinn ungi ágengi Samuel heldur áfram að reyna við hana og vill samband þar sem valdahlutföll þeirra í rúminu eru þvert á það sem er í vinnunni. Þetta er allt eins og ein feit miðaldrafantasía og Harris Dickinson er mjög sléttur og stinnur (enda talar Romy ekki um annað en hve Samuel sé ungur) og lítur út eins og fagrir menn gerðu í gamladaga (kannski ekki ósvipaður Allerton í hinni myndinni) þannig að hann passar vel í sitt fantasíufolahlutverk. Mér finnst myndin góð fyrir sitt genre sem er evrópska erótíska myndin (og Antonio Banderas er með í henni sem eins konar vísun). Á endanum fara aldursmunur og valdamunur parsins að eitra sambandið jafnvel enn frekar en í Queer en það var svo sem alltaf sprottið af lönguninni til að snúa öllu við.

Möguleg sögulok voru aldrei nema tvenn, augljóslega kemur aldrei til greina að Romy endi með folanum, ekkert frekar en fulli rithöfundurinn fékk að halda sínum fola, heldur eru valkostir hennar að farast eða lifa af og halda áfram með gamla eiginmanninum. Samt er hún ekki alveg laus við Samuel úr kollinum en líklega er hann best geymdur þar. Babygirl er líklega ekki alveg jafn góð og Queer við frekari umhugsun en báðar myndirnar komu þó skemmtilega á óvart og sannfærðu mig um að ég er nær hinum evrópska en hinum bandaríska smekk.

Previous
Previous

Frostrósir og fatafækkun

Next
Next

Brísingamen útnárans