Sendar til Coventry

Árin 1966–1970 gaf forlagið Leiftur út fjórar bækur um Dóru sem fór í skóla, fluttist upp í miðdeild og varð að lokum umsjónarmaður. Þýðanda er ekki getið Þrjár af þessum bókum enduðu á okkar heimili, mig minnir að þær hafi verið keyptar á bókamarkaði handa yngri systur minni en við bræður lásum bækurnar líka því að við létum engar bækur óáreittar og ég held að okkur hafi fallið vel við embættablæti þessa bókaflokks sem gerist allur í Jane Willard stofnuninni, stúlknaskóla fyrir 10-16 ára þar sem stúlkurnar verða að lokum umsjónarmenn og bókaflokkurinn gerir greinilega ráð fyrir að lesendur hafi mikinn áhuga á því hlutverki. Óhemju margar stúlkur koma við sögu og iðulega eru nöfnin þeirra þýdd (stundum erfitt að átta sig á upphaflega enska nafninu) en ekki eftirnöfnin; gott dæmi er hin málgefna Malla Hunter sem mun vera Mabs (Mabel?) samkvæmt netinu eða leiðtoginn Eiríka Útnes (upphaflega Erica Innes). Á frummálinu hét Dóra Dimsie en DIM var stytting á nafni hennar Daphne Isabel Maitland (á íslensku Dóra Ísabella Mailland). Alls urðu bækurnar þar níu og komu út 1920-1942 en sjö snúast um líf Dóru í skólanum frá ári til árs. Munu þær hafa verið vinsælasti bókaflokkur höfundarins sem var frumkvöðull í ritun slíkra skólasagna.

Hún hét Dorita Fairlie Bruce (1885–1970) og Dórubækurnar eru sjálfsævisögulegar, sjálf var hún í heimavistarskóla en leit á Skotland sem heimaland sitt eins og Dóra (Dimsie) í bókunum. Dorita var höfundarnafn en í raun hét hún Dorothy og var af skoskum ættum; skólinn sem leikur aðalhlutverkið á að vera í Kent en var í raun í Roehampton sem nú er bara blokkahverfi í London en var upphaflega þorp. Bruce sjálf bjó þá nálægt Heathrow-flugvelli í Lundúnum. Í fyrstu bókinni fær skólinn nýjan skólastjóra, ungfrú Jórmann (Miss Yorke á frummálinu) sem kemur öllu í uppnám en reynist að lokum ein af hetjum bókanna. Deilurnar í bókinni snúast um íþróttina „hokkei“ sem fær skyndilega minna vægi í skólalífinu, hokkei-stúlkum til mikils ama. Í kjölfarið verður verkfall og að lokum er umsjónarmaðurinn Lára „send til Coventry“, frasi sem ég lærði af þessum bókum og hefur lifað í minninu— þá hætta hinar stúlkurnar sem sagt að tala við hana. Síðar fer sá orðrómur á kreik að móðir einnar stúlkunnar hefur verið gripin við að svindla í bridge og orðið óð í kjölfarið; hefur það eðlilega eyðilagt líf allrar fjölskyldunnar enda enginn verri glæpur til í samfélagi bókanna en spilasvindl.

Bækurnar eru sem sé ágæt heimild um horfið samfélag og hugarfar en þykja væntanlega ekki mjög spennandi á okkar tímum þó að Bruce reyni að skrifa hóflega spennusögu inn í sumar þeirra síðari. Í síðari bókum hefur Dóra stofnað „andvæflufélagið“ (Anti-Soppist League) með vinkonum sínum. Hún er framhleypin og rauðhærð eins og Anna í Grænuhlíð en öfugt við þá merku kvenhetju verður hún ekki fyrir mikilli mótstöðu heldur hrífur alla með sér og nýtur sérstakrar náðar ungfrú Jórmann. Stöðug afskipti hennar af „vængbrotnum fuglum“ verða til að hún tekur að sér hrokafulla prófessorabarnið Fenellu Poster (sem í næstu bók heitir skyndilega Foster; ég myndi skrifa þýðanda ef ég vissi hver hann væri) í Dóra flyzt í miðdeild og lendir þá í því að þurfa að stöðva bíræfna listaverkaþjófa og afhjúpa stúlkur sem hafa stofnað „leikklúbb“ í leyfisleysi sem snýst aðallega um að spritta kerti (þetta er sennilega dulmál fyrir eitthvað mun verra; ég skil ekki orð enda hef ég aldrei verið í stúlknaskóla).

Í seinustu bókinni sem kom út á íslensku er Dóra orðin umsjónarmaður og tekur að sér hina ungu Hildu (Hilary á ensku) sem er erfið ung stúlka, manngerð sem er vel þekkt úr öllum stúlkna- og skólasögum. Mér skilst að okkar manneskja hafi að lokum risið á tindinn sem inspector scholae en íslenskir lesendur fengu aldrei að kynnast henni í því hlutverki.

Next
Next

Sú gamla vaknar af síðdegisblundi