Agötuaðlaganir jólanna 2022
Ég datt í þann lukkpott um jólin að Ríkisútvarpið sýndi nýjan sjónvarpsþátt eftir sögunni „Því spurði enginn Evans?“ eftir Agöthu Christie og á sama tíma sendi Danmarks Radio þrjár bestu myndir eftir sögum Agöthu, gerðar frá 1974 til 1982 þar sem Albert Finney og Peter Ustinov léku Hercule Poirot. Agatha sjálf sá þá fyrstu og var aldrei þessu vant ánægð – og heppin var hún að lifa svo lengi eftir allar hroðalegu aðlaganirnar af verkum hennar áður sem hún raunar skrifar um óbeint í sumum skáldsögum sínum. Svo ég byrji á nostalgíunni var eldri þáttur um Evans frumsýndur jólin 1982 og við fjölskyldan sátum límd við hann fram í febrúar 1983. Nýlega sá ég þann gamla þátt aftur ásamt ellefu ára frænda mínum sem elskar Agöthu Christie og honum finnst hann betri en sá nýi og mér líka en raunar er ákveðið tempó-vandamál í gamla þættinum sem ég var búinn að gleyma, þ.e. eftirleikurinn í 6. þætti er of langur. Hér eru þættirnir bara þrír og hraðinn betri en aftur á móti aðeins meira um þarflausar breytingar, einkum sú að bæta við alveg óþörfum óþokka með hatt beint upp úr James Bond.
Nýi þátturinn er þó ótvírætt með betri Christie-aðlögunum 21. aldar (nefnið ekki Kenneth Branagh við mig!). Ýmsu skemmtilegu úr bókinni er sleppt en vel farið með annað, handritshöfundur hefur réttilega áttað sig á að styrkur bókarinnar er í fyrri helmingnum sem er teygður í tvo þætti af þremur og aðalleikararnir hafa heilmikinn sjarma og samband þeirra er þokkafullt. Eins og sjá má á myndinni að ofan teygja framleiðendur sig eins langt og hægt er í átt til erótíkurinnar — það er fátt um kynlífssenur í aðlögunum á verkum Christie — með því að hafa leikarann Will Poulter á nærbolnum tvisvar. Aukapersónur eru meira og minna vel nýttar og eini barnaleikarinn er betri en barnið í 40 ára gamla þættinum. Þetta er mun betra en hinir hræðilegu Tommy og Tuppence þættir frá seinustu árum, svo að ekki sé minnst á lokaþætti Poirot-syrpunnar eða hina kaotísku Marple-þætti þar sem kerlingargreyinu var troðið inn í allar bækur Christie sem ekki voru beinlínis með Poirot og hún látin flækjast þar um öllum til ama og ekki síst sjónvarpsáhorfendum.
Ekki myndi ég kalla Morðið í Austurlandahraðlestinni, Dauðann á Níl og Sólin var vitni frá 1974 til 1982 tryggar aðlaganir og þær njóta þess eflaust hjá mér að ég sá þær á undan bókunum — sem eru í öllum tilvikum betri enda meðal toppverka Agöthu. Albert Finney leikur Poirot af miklum krafti í Austurlandahraðlestunni en svolítið tröllslega. Það besta við þá mynd eru Martin Balsam og George Coulouris sem leika aðstoðarmenn hans við lausn málsins. Peter Ustinov gerir enga tilraun til að leika Poirot heldur er bara Peter Ustinov með nett yfirskegg en þar sem hann er dásamlegur gerir það ekkert til. Kosturinn við myndirnar allar er mikil orka, fallegir búningar (sem er líka hjá Branagh en dugar ekki til) og frábærir leikarar. Maggie Smith er í tveimur myndum af þremur ásamt Ustinov og stelur senunni í báðum — á þar fleiri eftirminnileg augnablik en í öllum myndunum um galdrastrákinn samanlagt. Angela Lansbury og Bette Davis brillera í Dauðanum á Níl en er veitt hörð samkeppni af Jack Warden og indverska leikaranum I.S. Johar sem fer með bestu setningu myndarinnar: „Never have I seen such a reptile in a first class clabin“ (en í myndinni er kóbraslanga sem að sjálfsögðu var ekki í bókinni). Helsta trix þeirrar myndar er annars að allir leikarar fá að leika sjálfa sig fremja morðið og Maggie Smith að hlaupa laumulega er jafn skemmtilegt í hvert sinn. Gaman er að sjá þá David Niven og Peter Ustinov saman en þessir úrvalsleikarar hittust fyrst í seinni heimsstyrjöldinni þegar þeir voru báðir í bresku leyniþjónustunni og máttu ekki ræðast við utan vinnutíma.
Þegar kom að þriðju stórmyndinni hafði lokist upp fyrir mönnum að ekkert væri nostalgískara en tónlist Cole Porter sem leikur aðalhlutverk í myndinni sem víkur talsvert frá bókinni en á skemmtilegan hátt með því að Maggie, Diana Rigg, James Mason, Roddy McDowall og Sylvia Miles fá að eipa að vild í aukahlutverkum (besta setning þeirrar myndar er „Is coarseness a substitute for wit, I ask myself“). Morðingjarnir eru þeir sömu og í bókinni, og í myndinni er afar skemmtilegt atriði þar sem pokalega eiginkonan kemur niður stigann íklædd eins og díva og allir viðstaddir taka því greinilega þannig að hún hafi verið í gervi allan tímann og játar því óbeint á sig glæpinn með klæðaburðinum — en eins og alltaf í bókum kemur hroki glæpamannsins honum í koll.