Krákumál síðari

Auðvitað þekkti ég Ted Hughes (1930–1998) sem var lengi lárviðarskáld bresku krúnunnar og alræmdur fyrir að vera eiginmaður Sylviu Plath en skáldskap hans hafði ég þó aldrei beinlínis kynnt mér fyrr en í sumar þegar ég las Krákuna (Crow) sem mörgum og þar á meðal Hughes sjálfum fannst vera meistaraverk hans. Sjálfur á ég ekki erfitt með að skilja hrifningu á þessum kraftmiklu ljóðum. Kannski er þetta persónulegasta ljóðabók Hughes sem var mjög handgenginn þessum svarta fugli, ekki ósvipað frægu íslensku skáldi sem allir lesendur mínir þekkja. Kannski er Ted sjálfur krákan, þessi ólánlegi dökki fugl með sitt ráma hvæs. Hann var sannarlega „skúrkurinn“ í sögu eiginkonunnar dánu áratugum saman og það reyndi hugsanlega á hann þó að ég vilji helst forðast ævisögulegar túlkanir ljóða.

Forsíðumyndin er skemmtilega ögrandi (sjá að ofan) og bókin öll er svolítið eins og kinnhestur. Greinileg eru áhrifin frá hversdagsmálstrendi ljóðskálda upp úr 1960 en Hughes er orðhagur maður og getur ekki stillt sig um að búa til nokkur gullfaleg orð og magnaðar myndlíkingar þótt hann (eða ljóðmælandinn) segist vera á móti þeim. Fyrst fannst mér aðeins 10 ljóðin í bókinni verulega góð en þeim fjölgaði og ekki síst eftir að ég heyrði Ted sjálfan lesa þau á fagurri BBC-ensku, tilgerðarlítið. Eitt magnaðasta ljóð bókarinnar er eins konar upprunagoðsögn um þátt krákunnar í sköpunarverkinu sem var alltaf fremur til ills. Tilraunir Guðs til að kenna krákunni að skapa misheppnast og leiða til hákarla og annarra meindýra og að lokum skapar hann karl og konu sem strax eru flækt í ástarleik eða átök eftir því hvernig maður túlkar það. Fremur myrk sýn á samskipti kynjanna (þau eru víða í bókinni og eins snákar og mömmukomplexar) en hlutverk krákunnar virðist vera að vera blóraböggull (hlutverk sem Ted þekkti ef til vill vel) sem spillir hinu hreina sköpunarverki Guðs sem aldrei hefði átt að reyna að kenna krákunni að tala. Þessi myrka sýn á tungumálið og kannski skáldið er óneitanlega sláandi.

Annað áleitið ljóð fjallar um veikindi krákunnar sem virðast einkennilegur hluti af henni, líkt og sjúkdómurinn beri manninn fremur en öfugt, frekar áleitið að lesa þegar maður hefur nýlega verið greindur með tvísýn einkenni. Krákan berst við dauðann og berst um á margvíslegan hátt en þessi ósýnilegi óvinur sér við honum og krákan níðist á sér sjálfri þegar hún reynir að koma höggi á dauðann — í öðru ljóði er dauðinn síendurtekið svar við öllum spurningum. Þó að ljóðið sé ekki flókið ná þversagnir þess að vekja mann til umhugsunar um þversagnir veikindanna þar sem manneskjan er í raun föst með óvin sinn innra. Önnur ljóð eru kannski betri en þessi tvö en mér fannst þau sýna aðferð skáldsins vel og þar með verðskulda mynd.

Ted Hughes hefur aldrei hætt að vera umdeildur og verður sjálfsagt alltaf. Ég þekki ekki alla sögu um samband þeirra Sylviu og efast um að nokkur geri það (ritheimildir geta skekkt allar slíkar myndir) en átta mig á að saga þeirra er ekki aðeins stórsaga um samskipti kynjanna og feðraveldið heldur líka skipti Englands og Bandaríkjanna, fallna og nýja heimsveldisins. Í krákumálum sínum sviðsetur Ted sig sannarlega ekki sem skannabjartan saklausan engil og hefur þar með ef til vill ekki hjálpað mjög orðspori sínu sem eiginmaður þó að þau hefðu jákvæð áhrif á hans bókmenntaorðspor.

Next
Next

Rómansan er sígilt form