Abrahams dýrðardæmi
Það er ekki aðeins skáldið Jónas Hallgrímsson sem hreifst af biblíusögunni (áður nefndu) um Abraham og hlýðni hans við Guð sem náði hámarki þegar sá gamli afréð að fórna almættinu einkasyni sínum langþráðum. Sem kunnugt er skarst engill í leikinn og litla me-me var fórnað í staðinn. Frá þessu er þannig sagt í Stjórn, norrænum biblíusögum frá 13. öld: „Eptir þat batt Abraham son sinn ok lagdi hann upp á uidarbulung. þann sem hann hafdi yfir alltarinu gört. greip sidan suerdit ok ætladi at höggua hann. Þa kalladi guds engill af himni til hans sua segiandi. Legg eigi þina hönd aa sueininn Abraham. sua at þu gorir honum nöckut grand. Ek sa þat nu ok prouaða at þu ottaz gud. þar sem þu þyrmdir eigi þinum eingetnum syni fyrir hans skylld. þiat eigi þyrsti gud eðr fysti upp aa sueinsins blod. utan helldr at þat prouadiz ok uæri uitat. huersu mikilligha er Abraham ottadiz gud. Abraham sa þa einn hornottan uedr at baki ser mill! þorna ok klungra. sua sem hann litadiz um. tok hann ok fornfærdi i stað sunar sins.“ Guðfræðilegt mikilvægi þessarar sögu um föður sem hyggst fórna einkasyni sínum fyrir ósk Guðs þarf varla að skýra fyrir kristnum mönnum; hún boðar meðal annars atburði Nýja testamentisins. Þessi magnaða saga varð svo listamönnum innblástur og mig langaði til að deila nokkrum myndum af þessari fórn með lesendum mínum núna síðsumars. Málverk Caravaggio (1571-1610) er sennilega einna frægast enda er það skemmtilega svalt eins og svo margt sem sá skálkur gerði. Abraham er gamall og hrumur þótt hann sé einbeittur á svip, sauðurinn er vinalegur, hrokkinhærður engillinn áminnandi á fullt í fangi með að stoppa öldunginn en er vonandi handsterkur. Ísak er æpandi ólátabelgur, einn sá minnst stóíski fórnardrengur í myndlistarsögunni og menn hafa borið kennsl á hann sem Cecco Boneri sem var lærisveinn málarans og mun 2-3 árum fyrr hafa verið fyrirsætan í Amor vincit omnia. Þessi Ísak sem er ekki par hrifinn og streitist á móti er kannski það áhrifamesta við myndina og gerir fórnina sláandi nálæga.
Þessar fjórar persónur eru í aðalhlutverkum á flestum myndum af atvikinu allt til nútímans en myndskreytingin að neðan mun vera úr þýskri bók frá 1892 og er augljóslega tilbrigði við þekkt endurreisnarmálverk (sjá lengra að neðan). Bæði Abraham og engillinn eru talsvert unglegri en hjá Caravaggio, sauðurinn til vinstri með aðeins minni persónuleika og svo er af einhverjum ástæðum álútur nakinn maður með asna í bakgrunni (kannski þjónn Abrahams sem minnst er á í Genesis 22). Ísak er á óræðum aldri þótt hann sé ólíkt nettari en tröllið Abraham. Hann er líka ólíkt stóískari en þessi æpandi hjá Caravaggio en samt þungbúinn og ósáttur fremur en beinlínis hræddur. Abraham hefur fundið handhægan marmarastall þarna í náttúrunni en er ekki alveg búinn að koma Ísak upp á hann þó að hann hafi vissulega bundið drenginn og dregið fram kutann.
Hinn spænski Ramón Tusquets Maignon (1837-1904) hefur Abraham líka aldraðan og hruman síðskegg en kannski ekki alveg jafn einbeittan og á fyrri myndum, kannski er hann frekar íhugull eða jafnvel hissa sem von er því að engillinn í þessu verki er augljóslega á öðru plani, baðaður himneskri birtu og skrautlega klæddur í hvítt og bleikt á meðan fyrri englar voru alls ekkert klæddir. Sauðurinn til vinstri er skemmtilega kíminn en Ísak bundinn og kyrr, við sjáum ekki svip hans en hann virðist aðeins eldri og þreknari en hjá Caravaggio og kynþroska og allir eru listamennirnir sammála um að Ísak hafi verið afklæddur fyrst, ekki vegna hitans samt því að Abraham sjálfur er nær alltaf kappklæddur heldur virðist það hluti af helgiathöfninni þó að það sé ekki nefnt í Biblíunni. Altarið er talsvert hrárra og kannski trúverðugra en í fyrri mynd.
Giambattista Mengardi (1738-1796) býður fram vinalegan skilningsríkan engil og rjóðan í vöngum sem ef til vill holdgerir upplýsinguna og andspænis honum er sköllóttur Abraham í skugga en til hægri sjáum við þöglan mæddan Ísak sem virðist talsvert hlýðnari en Cecco litli. Þetta er einna rólegasta túlkunin, engillinn er að rökræða við föðurinn nánast biðjandi að sjá og Abraham gamli er þegar farinn að láta hnífinn síga. Ekki virðist hrúturinn hafa minnstu áhyggjur af sínu hlutverki. Vængir engilsins vekja sérstaka athygli því að öðru leyti er hann bara eins og venjulegt ungmenni, ekki einu sinni neitt sérstaklega fagur (a.m.k. ekki miðað við þennan ítalska Ísak í skugganum). Þegar kemur að skugganotkun er sjón annars sögu ríkari, persónurnar eru í myrkrinu en himneskt ljós skín á þær að ofan. Mengardi gerir viðburðinn (kraftaverkið) fallegri en flestir.
Pedro Orrente (1580-1645) er sá fyrsti sem lætur Abraham fá klút til að binda fyrir augu sonarins og halda höfði hans kyrru á fórnarstallinum. Oft þrifu böðlar í hár sakamanna á þessum tíma til að ná betra miði. Þessum Ísak líður sýnilega ekki vel en virðist þó ekki vera að brjótast mikið um. Engillinn hefur ekki birst af himnum heldur er kyrfilega á jörðinni, á hnjánum jafnvel þannig að Abraham getur litið niður á hann í þetta sinn. Hann er fremur skemmtilega að benda gamla manninum á sauðinn. Engillinn er biðjandi á svip og heldur fast um úlnlið hnífahandar Abrahams eins og engill Caravaggios. Abraham er ekki nándar nærri jafn hörkulegur og stundum og maður trúir varla öðru en að hann láti brátt undan ákafa ungmenninu sem mænir á hann.
Domenichino (1581-1641) lætur sinn engil gera hið sama en hann er fljúgandi kinnamikill unglingur sem er beinlínis að reka holdugar lappirnar í Abraham gamla sem virðist bæði hissa og jafnvel hneykslaður á trufluninni. Ísak er hér frekar mæddur og fjarlægur, virðist varla vita af átökum gamla mannsins og engilsins og lendaklæðið er reyndar að renna niður um hann. Nekt Ísaks í flestum málverkunum ljær hugmyndinni um súblímeraða erótík í gervi trúarbragða byr undir báða vængi. Þetta er kannski uppáhaldssauðurinn minn af þeim öllum vegna þess að hann virðist vera að benda á eitthvað líka — að bjóða sig fram sem fórnardýr?
Talandi um súblímeraða erótík þá er Pieter de Grebber (1600-1652) ekkert að flækja sína túlkun með englum og sauðum og honum leist ekki heldur á þennan afalega Abraham hinna málaranna. Vissulega virðist óvenju léttklæddi maðurinn með exemið og hnífinn á myndinni vera að fá einhver skilaboð að ofan og hann hefur bundið allsbera strákinn augljóslega með illt í hyggju en það veitir ekki af titli verksins til að við áttum okkur á því að hér er á ferð háheilagt biblíuatriði en ekki eitthvað mun vafasamara.
Philippe de Champaigne (1602–1674) hefur fundist 12-13 ára Ísak of ungur því að hans einkasonur er a.m.k. 15-16 ára og bíður örlaga sinna með grátbólgin augu. Abraham er enn að ota hnífnum að honum og hefur gripið í hárið en þetta er vinalegur mæddur afi sem virðist meira en tilbúinn að hlusta á bláklædda kynlausan engilinn sem í þetta sinn kemur beint af himnum og bendir gamla manninum jafnvel á það. Sauðnum leiðist.
Málverk Andrea del Sarto (1486-1530) er kunnuglegt sem fyrirmynd þýsku myndskreytingarinnar að ofan en ég birti þær báðar vegna afgerandi munarins. Abraham verður hörkulegri á teikningunni en er eiginlega hryggur hjá del Sarto og engillinn stækkar á 400 árum; er kannski óþægilega bernskur í 15. aldar verkinu. Ísak aftur á móti virðist yngri og hræddari á upphaflega málverkinu og nakti þjónninn álúti er á sínum stað í bakgrunninum og hefur lítinn áhuga á havaríinu á hólnum. Del Sarto gerði þrjár myndir sem eru þó ekki alveg eins, og þær eru mikið ræddar, t.d. fíkjublað sem hefur bæði verið bætt við fremst á Ísak og skafið síðan burt eftir því sem tískan í kynfæraritskoðun þróaðist en enn hef ég enga skýringu fundið á þessum bakgrunnsdúdda sem flestir málarar sleppa.
Gregorio Lazzarini (1657-1730) reyndi að færa klæðaburð Abrahams nær syninum og koma því á hreint að Abraham hefði vissulega mætt í gymið. Hann er þó fremur góðlátlegur en sveðjan aftur á móti stór og því kannski ágætt að engillinn er sannarlega ekki aðeins að rökræða við gamla manninn en heldur honum beinlínis frá fremur kraftalegum og velsældarlegum Ísak sem manni virðist næstum fullorðinn og er nær því en flestir aðrir Ísakar að taka eftir því sem er að gerast og hugsanlega farinn að hugsa eitthvað hebreskt sem væri hliðstætt wtf. Sjá má glytta í sauðinn til hægri.
Jean-Hippolyte Flandrin (1809–1864) faldi sauðinn hugvitssamlega í trjánum. Hans Ísak fær enga lendaskýlu og er ekkert óþekkur eða einu sinni hræddur, bara að horfa til himins eins og mörgum hættir til skömmu fyrir eigin aftöku. Hann minnir mig örlítið á drenginn margfalda úr Strákunum frá Brasilíu, þeirri hörkukvikmynd. Abraham er frekar reiður og grimmur á svip og engillinn í þessari mynd hefur sannarlega áttað sig á að hér þurfi hraðar hendur og skýr skilaboð, eins og sjá má á útréttum lófum hans, ekkert Californian-kæruleysi í þessum engli. Þó að ég noti málfræðilegt karlkyn virðast sumir englarnir vera kvenkyns þó að aðrir séu augljóslega karlkyns. Óljóst kynferði engla kemur víða fram í málverkum nýaldar. Ég sá grein frá túlkanda sem hreifst mjög af svip Ísaks á þessari mynd (sem er reyndar skemmtilega nútímaleg) og las úr honum sakleysi og traust á föðurnum. Ég sé það ekki beinlínis sjálfur.