Mömmusýki Marcels
Innblásinn af bók Anne Carson um Albertine pantaði ég mér alla Leitina að glötuðum tíma í vor og hef verið að lesa hana í allt sumar mér til upplyftingar en reikna með að þetta verði nokkurra ára verk því að það er ekki til neins að æða gegnum meistaraverk Marcel Proust eins og ýgur snjóplógur. Það tók líka sinn tíma að ná í réttu útgáfuna með öllum textanum; á netinu leynast margir kettir í sínum sekkjum og líka útgáfur með risatexta til að blekkja lesendur með blaðsíðutölum; að ég tali ekki um þær sem eru beinlínis merktar 1-7 en reynast samt aðeins vera fyrstu tvær bækurnar. Það var líka kominn tími til að breyta vinnuherberginu heima eftir langa hríð, fá þangað inn tvö minni borð í stað skrifborðsins sem var farið að detta í sundur og mér flaug í hug að búa til sérstakt Proustlestrarhorn (sjá að neðan) fyrir glímuna við blaðsíðurnar 3200. Þær yrðu allar lesnar í sérstökum grænum stól í þessu herbergi sem hefði þann einn tilgang að sitja þar og lesa Proust næstu 5-7 árin eða hve langan tíma það tekur. Það stendur sem sé ekki til að afgreiða þennan byltingarmann hins skáldlega með einni grein á þessari síðu heldur mun ég gefa reglulegar skýrslur um þessa fjallgöngu.
Svo fór að lokum að ég gat byrjað að lesa og lá lengi í bælinu með Marcel (sat öllu heldur í Prouststólnum græna en hann sjálfur dvelur vissulega alllengi í rúminu í upphafi verksins). Þetta er ef til vill ein líkamlegasta bók sem ég hef lesið, bókmenntirnar stefna ekki lengur á „transcendenz“ því að Marcel — sem raunar er enn ónefndur í textanum — er kyrfilega fastur í eigin líkama þegar hann glímir við svefn, vöku og minni. Það eru augu, kinnar, bak, öxl, herðablöð og í öllu þessu má finna til. Í hvaða rúmi er hann annars og í hvaða húsi er rúmið? Proust hugsar og skrifar um hugsunina; hvernig eitt rúm minnir á annað og hvernig hann finnur til og hvernig hann man. Hann veltir fyrir sér svefninum af svipuðum brennandi áhuga og Zola hafði áður reynt að greina franskt samfélag. Um þetta fjalla fyrstu allmörgu síðurnar í bókinni og það er eiginlega enginn í textanum lengi vel nema Marcel uns mamma hans birtist og hann fer að ræða þrá sína eftir fleiri kossum hennar fyrir svefninn; hann er sannarlega mömmusjúkur á við sjálfan Ödipus. Marcel ræðir ekki eigin fullorðinsástarlíf beinlínis í þessu verki en ræðir samt mikið um ástina og er á sinn hátt einlægur og að minnsta kosti rækilegur.
Fljótlega víkur sögu að fjölskylduvininum herra Swann sem færir frænku sögumannsins Marcel alltaf „marrons glaces“ á nýársdag og þá hefjast um leið tvær ítarlegar ritgerðir sem eiga eftir að setja svip sinn á allt verkið, önnur um hið flókna kerfi stétta og stöðu og „habitus“ í Frakklandi þriðja lýðveldisins en hin um það hvort herra Swann í sögum fjölskyldunnar í bernsku sögumanns sé að einhverju leyti margbrotinn tilbúningur vina sinna og um leið er sögumaður kominn á fulla ferð að ræða eðli minnisins, sögunnar og veruleikans á hámódernískan eða jafnvel póstmódernískan hátt sem hefði verið óhugsandi fyrir daga Kants og allra hinna sem breyttu vestrænni hugsun. Það er ekki síst Proust sjálfur sem færir nýja hugsun inn í evrópsku fagurbókmenntirnar og tilgerðarlaust miðað við alla hermilistina sem maður hefur séð síðar. Í verki hans er veruleikinn að verulegu leyti huglægur og skapast m.a. í orðum manna og hugsunum.
Í upphafi Leitarinnar að liðnum tíma situr stórfjölskyldan öll með mörgum aldurhnignum töntum við járnborð á veröndinni þegar Swann kemur í heimsókn og Marcel er þá sendur upp til sín áður en maturinn er búinn og fær ekki að kyssa mömmu sína jafn oft og hann langar til. Hann reynir samt að fá mömmuna upp til sín í barnaherbergið og tekur þá áhættu að vera refsað fyrir mömmusýkina en fær að lokum þá miklu gjöf að móðirin sefur í herbergi hans um nóttina þegar Swann er farinn og foreldrarnir hafa rætt saman um vininn ríka og fína. Öllu þessu er lýst með orðalagi hins ástfangna manns sem ólíkt okkur hinum er hvergi banginn við að greina náin bönd sín við móðurina í ljósi hins mikla trega og eftirsjár sem er meginefni verksins alls: sú staðreynd að heimurinn er ekki kyrr heldur hverfur allt og glatast og tíminn sjálfur lifir aðeins sem minning eða sem orð.
Stórkostleg er lýsing Marcels á föðurnum sem stendur soninn að verki þrábiðjandi móðurina um athygli. Hann minnir á sjálfan Abraham risavaxinn í hvítri náttskyrtu með fjólubláan og bleikan trefil bundinn um höfuðið vegna taugaveiki sinnar og viðureign foreldranna um soninn fær Proust til að hugleiða eftirmyndina af málverki endurreisnarmeistarans Benozzo Gozzoli hér fyrir neðan þar sem Sara, Abraham og Ísak koma við sögu þegar hann rifjar atvikið upp löngu síðar. Enginn annar en Proust hefur náð að gera hið hversdagslega jafn almennt. Smáatvik í bernsku hans verða viðureign manndýrsins við hverfulan tímann. Barnsþrá hans til móðurinnar fær goðsagnalegt og biblíulegt vægi. Ég bíð spenntur eftir næstu 50 síðum.