Móðir er best barni
Garðyrkjumaðurinn er glæný (frumsýnd í maí) spænsk (galísísk) þáttaröð á Netflix um fullorðinn mann með græna fingur sem býr enn með mömmu sinni (Proust ársins 2025?) og er ófær um að finna til, sennilega vegna höfuðáverka í bílslysi á barnsaldri. Móðir og sonur horfa saman á Titanic á kvöldin (sjá að neðan) en svo reka þau líka leigumorðingjafyrirtæki og láta fólk hverfa fyrir peninga. Sonurinn Elmer, leikinn af sjálfum Polo úr Elite, notar síðan fólkið í áburð í garðinum sínum sem vinnur til margra verðlauna vegna þess hve góð fyrir gróðurinn líkin eru. Allt er í himnalagi fyrir utan auðvitað fólkið sem týnir tölunni og hin þokkafulla mamma hefur sterk tök á syni sínum í sögubyrjun.
En þá verður Elmer skyndilega ástfanginn sem átti að vera ómögulegt vegna heilaskaðans og það af stúlku sem var búið að leigja þau mæðgin til að myrða fyrir stórfé og átti að vera lokaverkefnið sem tryggði móður og syni áhyggjulaust ævikvöld í Mexíkó. Stúlkan sú reynist vera hættuleg kona og er enda rauðhærð eins og slík kvendi voru gjarnan í bókmenntum forðum. En þessi truflun á afar vel heppnuðu bisnessmódeli mæðginanna leiðir til endalausra vandræða og rekur fleyg milli móður og sonar sem auk heldur hefur fengið heilaæxli og er því farinn að finna til aftur sem skýrir líklega ástina á rauðhærða kvendinu en hefur hins vegar misst alla skynsemi og vill ekki taka lyf við meininu fyrr en mamman grípur til sinna ráða.
Það vakti reyndar athygli mína að enginn í þessum þáttum (jafnvel ekki fólkið sem leigir morðmæðginin) gerir minnstu tilraun til að koma sér upp fjarvistarsönnun og konan sem vill láta drepa stelpuna er þannig stöðugt að hringja í hana til að draga að sér alla athygli. Ég breytist alltaf í mína eigin mömmu þegar fólk hegðar sér svona hrikalega órökrétt í sakamálaþáttum og hélt fyrst að þetta væri hefðbundinn skortur á lógík í rómantískum trylli en í lokin skilur maður að þetta er sennilega annar „genre“.
Persónurnar í þættinum reynast allar frekar skemmtilega samsettar, jafnvel þessi rauðhærða, og ekki síst morðverkbeiðandinn og lögguparið sem rannsakar málið og grunar að þessi morð Elmers séu tengd. Þess vegna er auðvelt að halda með þeim öllum. Þó að þátturinn virðist í fyrstu vera ofurdramatískur reynist hann í lokin vera eins konar svört kómedía með miklum fjölda óvæntra snúninga og það er ekki síst hin frábæra Cecilia Suárez (úr La Casa de las Flores sem ég á enn eftir að horfa á) sem heldur uppi fjörinu í hlutverki mömmunnar sem er orðin vön því að sonurinn sé þægur og tilfinningalaus og sem hefur fengið þá snjöllu hugmynd að láta hann fjarlægja fólk fyrir peninga. Ég hélt eiginlega alltaf með henni frekar en þeirri rauðhærðu sem þó er ekki fisjað saman og fagnaði þegar hún lék endanlega á laganna verði.