Gervi og garg
Bókin Páfagaukagarðurinn eftir hinn dularfulla Akörn vakti mikla athygli snemmsumars og um hana var gerður heill útvarpsþáttur þar sem dulnefni höfundar var meginatriðið og minnti mig á erindi Guðna Elíssonar um Byron og dulnefni sem ég sótti hjá Félagi íslenskra fræða fyrir rúmlega 30 árum en þar kom m.a. fram að enskir höfundar á tíma Byrons áttu stundum til að nota dulnefni í von um að menn héldu að þeir væru Byron. Þegar fram líða stundir hætta gervin væntanlega að skipta máli þótt þau séu áhugaverð bókmenntafélagsfræðilega og augljóslega var það gjörningur hjá Akarni að selja aðeins eitt eintak og það dýrt en senda fremsta bókmenntafólki Íslands — já, ég fékk eintak — ritið að gjöf. Ég fann vissulega við fyrsta lestur bókarinnar fyrir fremur plebbalegri forvitni um hver höfundurinn kynni að vera en vissi strax að þetta væri fagmaður; það sést á stílnum, vísununum og hugvitinu. Aðeins lærður höfundur væri þannig með persónu sem heitir Bogi Melsteð (þó er ég ekki höfundurinn) og skemmti það mér.
En það er margt áhugaverðara og reyndar talsvert merkilegra við verkið en hver höfundur þess kunni að vera. Páfagaukagarðurinn er fjölskrúðug en líka kjarnmikil ádeila á orðræðu 21. aldar og kannski ekki síst yfirborðskenndan fjölmiðla- og samfélagsmiðlasannleik en líka alls konar flókin grundvallaratriði samtímans eins og peningavald og náttúruvernd og kannski aðallega vanmátt venjulegs fólks (og jafnvel óvenjulegs fólks líka) andspænis yfirþyrmandi katastrófum morgundagsins. Ekki ætla ég mér þá dul að greina verkið í einum bloggpistli en gríp niður í það á tveimur stöðum þó ekki nema til þess eins að árétta að það væri fleira hægt að segja um verkið en að það skorti þekktan höfund. Páfagaukagargið sem titillinn vísar til er þannig haganleg lýsing á nútímalegu bergmáli sem við könnumst öll við úr „samfélagsumræðunni“ þar sem hver hermir eftir öðrum og smám saman verður bergmálið og gargið óþolandi. Hér má sjá síðu sem ég staldraði við:
Eins og sjá má er bókin vel skrifuð og fjarri því að vera lágkúrulegur texti eins og móðgaðir og sennilega ólesnir beturvitar á netinu héldu þó fram á netinu þegar höfundarleitin stóð hvað hæst. En í bókinni eru einnig býsna kómískar en þó sérkennilega sannar og gætu orðið sígildar mannlýsingar eins og til dæmis á Ægi lögreglumanni sem er tveir menn — eins og við kannski flest eða öll — innri maðurinn og sá ytri sem eru svo ólíkir að enginn skilur manninn. Það hafa sjálfsagt fleiri en sá er þetta ritar lent í því að alls konar fólk sem þekkir hann ekki neitt hefur undarlegar skoðanir á honum þannig að þetta hittir í mark og eins er raunar um ýmsa sem maður hefur kynnst. Þetta finnst mér Akörn kjarna býsna vel á síðunni sem hér sést:
Ég held að höfundarlausar bækur yrðu seint lýstar bestu bækurnar hér á landi. Til þess erum við of mikið fámennissamfélag þar sem bókmenntaumræðunni er jafnan stýrt af snobbi fyrir einstaklingum fremur en textum og þar sem mikils metnir höfundar njóta iðulega álits fremur vegna olnboga en ritfærni. Mann grunar að tilraunir með nafnleysi séu oftast gerðar í andófi við þetta steingelda snobbhænsnakerfi og í uppreisn gegn því og meðal annars þess vegna fellur mér vel við þær. Ég hef orðið Barthesisti með árunum og áhugamaður um fæðingu lesandans og fagna því höfundum eins og Akarni sem vilja ekki vera höfuðatriðið í eigin skáldskap.