Sunnudagar með Eulalie

Ég er kominn á bls. 75 í Proust, vildi gjarnan vera að lesa hann á frönsku en því miður er færni mín í því máli ekki næg fyrir svo mikilvægan texta. Það sem ég les er þýðing Skotans C.K. Scott Moncrieff (1889–1930) á ensku en raunar andaðist hann frá lokabindinu og tók Sydney Schiff þá að sér verkið undir dulnefninu Stephen Hudson en sá hafði verið vinur Prousts sem líka lést frá hinstu bókinni. Útgáfan mín er a.m.k. hilluvæn og með formála eftir sjálfan Harold Bloom (1930–2019) sem einu sinni var einn frægasti bókmenntafræðingur heims. Sögumaðurinn er farinn að segja frá frænku sinni Léonie en til er safn um hana í Frakklandi sem er einmitt hús frænku Prousts enda hin lokkandi ævisögulega aðferð mjög ráðandi hjá ýmsum Proust-túlkendum. Léonie og Françoise fylgikona hennar eru eftirminnilegar persónur og mjög í stíl Prousts, meðal annars hvernig svefnleysið verður mikilvæg auðlind hennar.

Gagnrýnendur hafa bent á að Léonie sé fulltrúi margra eiginleika borgarastéttarinnar með vanafestu sinni, einangrun, síkvikum hug og forvitni, og skýrum lífsvilja þrátt fyrir elli og vanheilsu. Að lokum verður hún enn fremur fulltrúi iðjuleysisins en það er sannarlega lykilpersóna Leitar að glötuðum tíma líka. Ég nam staðar við vinkonu hennar Eulalie sem hefur fengið sérstakan stað í lífi frænkunnar. Hún er mikilvægur fréttamiðill en kann líka tökin á gömlu konunni með því að hafa hárrétta skoðun á veikindum hennar og gera hvorki of lítið né of mikið úr þeim en samkvæmt Proust virðist það algengara að fólk annað hvort vilji að gamla konan hætti þessu væli eða að það taki veikindunum á full dramatískan hátt. Svona átök í samskiptum fólks þekkja allir sem hafa reynt að ræða eigin veikindi við aðra.

Kannski er það einmitt á þennan hátt sem Proust stækkar bókmenntirnar einna mest. Hjá honum fær alls konar smælki í mannlegu eðli óvænt vægi og hann grefur þar með undan hefðbundnum skilgreiningum á því hvað sé sögulegt með því að fara sínu fram og segja frá ýmsu sem alla jafna þykir ekki eiga heima í sögum. Við getum líklega öll glaðst yfir að hann var ekki uppi á öld ritrýninnar.

Next
Next

Ólíver Twist bjargaðist raunar alls ekki