Ólíver Twist bjargaðist raunar alls ekki

Ég vissi ekki alveg við hverju væri að búast þegar ég fór að lesa verðlaunabókina Smávegis líf (2015) eftir hina bandarísku Hanae Yanagihara (f. 1974) sem er raunar engin smávegis bók, alls 814 blaðsíðar með smáu letri. Yanagihara mun aðeins hafa sett saman þrjár skáldsögur en þær hafa allar verið rómaðar, sérstaklega þessi. Hún þykir óhrædd við erfið efni, s.s. kynferði, kynhegðun og samskipti kynþátta. Fyrsta bókin hennar fjallar þannig um eina Nóbelsverðlaunahafann sem hefur hlotið dóm sem barnaníðingur (en fleiri hafa verið kærðir) og flúði að lokum land. Hún segist sjálf undir áhrifum frá annars vegar Anitu Brookner og hinni dásamlegu Barböru Pym en hins vegar Kazuo Ishiguro og Hilary Mantel. Þetta eru allt rithöfundar sem ég þekki prýðilega og ber mikla virðingu fyrir en á góðum degi er Yanagihara fremri en jafnvel sumir þessir höfundar. Þó að vitaskuld hafi japönskættuð kona sem skrifar bók um fjóra karlkyns vini í New York og víðar af austurströndinni af ýmsum kynþáttum og kynhegðun ekki hlotið einróma lof vil ég ekki taka undir neitt svo smáskitlegt. Yanagihara nær sannarlega að lifa í persónum sínum og eina efasemdin mín í fyrstu var hvort bókin þyrfti að vera svona löng, einkum vegna þess að hún minnir um margt á meistarastykki Mary McCarthy.

Smávegis líf er epískt verk þrátt fyrir sinn hógværa titil og ekki hægt að gera henni viðunandi skil í stuttri hugleiðingu á svona síðu en ég vil þó reyna. Í hana vantar hvorki snjallar setningar né áhugaverðar ályktanir. Ísland er nefnt einu sinni í framhjáhlaupi, Reykjavík einu sinni og jafnvel Íslendingasögurnar einu sinni enda bókin um menntað fólk sem hlær að Tjekov-tilvísunum og kann mörg tungumál. Textinn er aðgengilegur án þess að vera einfaldur og það er mikill húmor í bókinni þó að hún sé líka afar sorgleg og tilfinningahlaðin. Meginefnið er saga fjögurra vina í hartnær 40 ár; þeir kynnast í „college“ og deila þar herbergi og úr verður áratuga brokkgengt samband. Miðja hópsins er Jude sem lenti í alvarlegu slysi sem enn hefur áhrif á gönguhæfi hans. Hann á sér afar leynilega fortíð og þögn hans um hana dregur á öfugsnúinn hátt athyglina að henni þó að hann telji hana sjálfur nauðsynlegur. Besti vinur hans áratugum saman er Willem sem er af íslenskum ættum (þó að það skipti engu máli fyrir söguna) og sá er afar góður gaur en samt bæði fallegur og fjöllyndur. JB er listamaðurinn í hópnum og Mal er arkitekt, þeir teljast svartir samkvæmt bandaríska kynþáttakerfinu. Óvíst er hvar Jude stendur í því vegna hins óvissa uppruna hans en hann gæti verið kominn af frumbyggjum Ameríku. Hann er alinn upp hjá munkum sem segjast hafa fundið hann í ruslinu. Síðan lemja þeir hann og berja uns honum er bjargað af einum þeirra sem fljótlega fer að misnota drenginn og selur hann til perverta sem helstu afkomuleið þeirra tveggja en lofar Jude samt að giftast honum þegar hann verður 16 ára. Jude er barnungur ættleiddur af hjónum sem skila honum strax og að lokum lendir greyi'ð í sadistalækni sem lemur hann og ber eftir að hafa hjúkrað honum og keyrir að lokum yfir hann.

Þetta er allt saman hræðilegt og er lýst í miklum smáatriðum eftir að margt hefur verið gefið í skyn lengi vel og áhrifin á Jude eru þau að hann á erfitt með að taka við gjöfum eða hrósi eða ást annarra og vill ekki ræða þessa ógæfu sína sem hefur frekar leiðinleg áhrif á öll hans sambönd og stækkar vandamálið fremur en hitt hvort sem það er ætlun hans eður ei. Willem stendur með honum í gegnum þykkt og þunnt og verður að lokum kærasti hans — kynhegðun er almennt mjög fljótandi í sögunni — og meðal annarra velgjörðarmanna Jude eru prófessorahjónin Harold og Julia sem ættleiða hann að lokum og síðan læknirinn Andy sem sinnir Jude í gegnum þykkt og þunnt þó að hann sé fremur erfiður sjúklingur. Í raun er næstum útópískt hve góðir allir eru við Jude sem bjargar honum þó ekki frá alls konar ógæfu. Þetta er líka heimur þar sem flestar persónurnar virðast kunna að gera við allt heima hjá sér (sem mér fannst einna erfiðast að trúa á), eru frábærir kokkar og bakarar, listamenn sem slá að lokum í gegn eða stærðfræðisnillingar. Mörgum gagnrýnendum hefur þótt nóg um alla þessa hæfileika persónanna en kannski er þetta allt hluti af því sem Hanae Yanagihara vill segja okkur um hamingjuna.

Af persónunum kann ég best við hinn gallaða JB sem er líka sá af þessum fjórum vinum sem lifir lengst. JB hegðar sér stundum afar illa en er þó líkastur fólki sem maður raunverulega þekkir. Mal er frekar litlaus persóna þó að ýmsar hliðar hans séu ræddar í bókinni; kannski vegna þess að hann orkar ekki jafn sterkt á hina. Willem er eiginlega eins og Kjartan Ólafsson í Laxdælu, svo fullkominn að það er næstum pirrandi en þó tekst væntumþykju höfundar að stýra tilfinningum manns í rétta átt. Sjálfur Jude er auðvitað bæði aðdáunarverðasta og hrjáðasta persónan og kannski er nafn hans sótt til Hardy sem skrifaði einmitt um afar hrjáðar persónur. Iðulega fannst mér Jude stjórna öllu í kringum sig á frekar fágaðan hátt með sínu langvinna áfallstreituröskunarkasti. Pervertunum er haganlega lýst og eins illmenninu Caleb sem um tíma er í nánu sambandi við Jude. Erfiðara fannst mér að átta mig á hjálparhellunum Andy og Harold eða að skilja tilfinningar Jude til þeirra; Harold fannst mér fremur vanmetinn af öðrum persónum. Mér kom Dickens iðulega í hug við lesturinn og velti fyrir mér hvort Yanagihara liti á sig sem eins konar and-Dickens með þann boðskap helstan að það sé alls ekki hægt að hjálpa munaðarleysingjanum, hversu mikið sem reynt er.

Next
Next

Hadesarheimar