Forn ferðaþáttahöfundur

Sem betur fer hef ég haldið sæmilega vel utan um eigin opinberu birtingar seinustu 33 árin; þær eru að nálgast 1600 þessa dagana en það fer eftir því hvernig er talið. Strax þegar ég var á þrítugsaldri ákvað ég að það væri vanþroskað að skammast mín síðar fyrir æskuverkin og leyfði mér því að skrifa nokkurn veginn hvað sem er og geri stundum enn. Fyndist mér eitthvað betra að vera sammála öllu sem ég hef sagt um ævina og telja það allt frábærlega skrifað? Nei, líklega þætti mér það nánast sjúklegt gagnrýnisleysi og þroskabrestur að vilja engu breyta á þriggja áratugna ferli. Það er frekar að ég verði stundum fyrir vonbrigðum með hve mikið ég gat strax á unga aldri og hefði stundum viljað fara meira fram síðan. Það á raunar sérstaklega við um frjálslegustu skrifin; ég var allgóður utan bókmenntagreina en hef þurft að æfa mig talsvert í sumum þeirra. Líklega hef ég skrifað fullmikið á erlendum tungumálum um norræn fræði og er þess vegna að skrifa bók núna á íslensku til að reyna að sýna (þó ekki væri nema mér sjálfum) að mér sé enn að fara fram í því. Árið 1995 birti ég ferðaþætti í Stúdentablaðinu sem eru komnir á Tímaritsvef Landsbókasafnsins núna og ég er satt að segja furðu ánægður með þau skrif. Það er hægt að stækka myndina að neðan talsvert en ella fara hingað.

Þökk sé ferðaþáttunum man ég allvel eftir ferðinni til Leeds sumarið 1995 en greinin snýst alls ekki um allt það sérstaka sem þar gerðist heldur þvert á móti það almenna og kannski er ég sérstaklega ánægður með að henni var hælt af prófessor í heimspeki (og síðar rektor) sem ég bar og ber mikla virðingu fyrir. Hún fjallar þess vegna talsvert um viðhorf landsmanna, aðbúnað og þær einkennilegu samkomur sem stórar ráðstefnur eru. Núna 30 árum síðar þætti mér alls ekki verra að hafa skrifað slíkar greinar um allar utanlandsferðir mínar og það sem ég var að hugsa (einstaka slíkar urðu til á Múrnum löngu síðar, t.d. þessi frá 22. júlí 2005 um ferð mína til Lundúna eftir hryðjuverkin fyrr í sama mánuði). Öll persónuleg skrif verða flókin með aldrinum (einfaldlega vegna reynslunnar) en ég bið ekki um meira en að líka enn sæmilega við manninn sem hélt um pennann á sínum tíma.

Next
Next

Sunnudagar með Eulalie