Veröld vatnsins
Ég var svo heppinn í sumar að kynnast lítillega Alice Oswald (f. 1966) en hún hét víst upphaflega Keen og er systir sviðsleikarans Will Keen sem ég hef einhver kynni af. Þau systkinin eru tiginborin og rekja ættir sínar til höfðingja sem nefnast Curzon og Howe. Alice hefur verið prófessor í ljóðlist við Oxford, fyrst kvenna til að gegna því starfi. Hún er líka margverðlaunuð. Líkt og vinkona mín ágæt er hún mjög hrifin af Hómer og hinum fornu Grikkjum og sendi frá sér ljóðabækur um báðar kviðurnar, Memorial (2011) og Nobody (2019). Hún segist heilluð af því hvernig Grikkirnir hugsuðu með lifrinni en ekki aðeins höfðinu sem takmarkar okkur seinni tíma menn. Ég kynnti mér hins vegar ljóðabókina Dart (2002) sem er aðeins eitt langt ljóð, titillinn sóttur í ána Dart sem Dartmoor og Dartmouth eru kennd við. Satt að segja vissi ég ekki einu sinni að sú á væri til en skil vel dálæti Alice Oswald á streymi árinnar því að fátt veitir mér meiri ró, frið og lífsfyllingu en að sitja rólegur í sveitinni og horfa á á streyma. Áin er í senn svo margt og svo fátt, einföld og flókin, friðsæl og fjölbreytt. Líkt og draugur tvöfaldar hún hina mannlegu tilvist. Ljóðið „Dart“ er líka ansi merkilegt, líkt og Emily Dickinson hafi sameinast T.S. Eliot en Alice sækir augljóslega innblástur til fjölmargra ljóðskálda, fyrir utan náttúruna sjálfa. Aðallega er hún samt einkum handgengin vatninu, auðlegð þess og fjölbreytni.
Eitt það merkasta við Dart er að skáldið mælir fyrir munn fjölmargra en þó eigin röddu. Þar má nefna goðsagnaveruna Jan Coo en einnig sjómenn, skógarhöggsmenn, vatnaverur, stráka í þorpunum á leið árinnar, sundmenn, verkamenn og veiðiþjófa. Úr verður sérstök margradda frásögn með miklum orðaforða. Svetlana Alexeievich vakti á sínum tíma mikla athygli (og fékk að lokum Nóbelinn sjálfan) fyrir bók sína um Tsjernobyl þar sem ýmsar raddir voru látnar tala, iðulega án skýringa. Alice Oswald notar svipaða aðferð en hennar persónur eru þó ekki algerlega sjálfstæðar hvorki frá skáldinu né ánni. Athygli Íslendingsins vekur vitaskuld allt fólkið sem kynnast má á enskum árbökkum því að Ísland er svo villt og mannautt en England sannarlega ekki og ensk náttúra er full af alls konar fólki. Á því sambýli hefur Alice Oswald áhuga. Ljóðið er líka fullt af bæði staðarnöfnum og manna sem eru fæst skýrð nánar en leggja hljómræna fegurð og dulúð til þess.
Ég þekkti Alice Oswald alls ekki fyrir en Dart er góð kynning á henni, ekki síst vegna þess að ár og vötn eru henni hugleikin. Að hennar eigin sögn er hún meira fyrir viðlíkingar en myndhvörf, finnst þær stækka veruleikann meira. Hún er magnað skáld en þó iðulega glettilega óhátíðleg og lítið „fancy“, til dæmis í kaflanum að neðan þar sem hún mælir fyrir munn hreingerningarkonu en orðræða hennar fer að snúast um gömul hjón í göngutúr að fossi. Þetta er ekki beinlínis neitt sem maður skilur í fljótu bragði en ótvírætt texti sem vekur forvitni og kallar nánast á nýja tegund af lestri.
Eitt er víst sem er að Alice Oswald langar til að skilja vatnið og allt þess ríkidæmi. Hún sér það sem eins konar spegil og hugsanlega eitthvað sem tvöfaldar og auðgar líf okkar. Án þess að mig langi til að falla í þá freistni sem skáldið forðast að vilja „skilja“ ljóðið eða setja fram kenningar um það fór ég að hugsa hvernig snjallt ljóðskáld getur með því að beita óhefðbundnum aðferðum losað reynslu sína undan hefðinni og orðalagi hennar og þar með fangað jafnvel … raunveruleikann? … í orðum. Í Dart sér Oswald það sem hún sér, orðar á eigin hátt, og ef til vill er það ein leið til að láta ljóðið fjalla um þessa á en ekki einungis um ljóðhefðina og orðin sem skáldið lærði í skóla.