Hvor er Björn og hvor Benný?

Það eru ekki mörg popplög sem ég beinlínis man eftir að hafa hlustað á 6-9 ára (fyrir hálfri öld sem sagt) en þar á meðal eru söngvakeppnismellurinn „Save Your Kisses for Me“, „Sunny“ með Boney M og síðast en ekki síst „Dancing Queen“ með ABBA. Ég man líka eftir einhverju efni (kannski Bókinni um ABBA sem kom út árið 1977) í skólastofunni okkar í Langholtsskóla þegar ég var sjö eða átta ára. En í tíu eða 20 ár ruglaði ég saman Björn og Benny, þ.e. hélt að sá sem er til vinstri á myndinni að neðan væri Benny en hinn (með skeggið) Björn; eins hélt ég þá að Benny væri eiginmaður Agnethu og Björn maður Fridu þannig að greinilega var ég með það betur á hreinu hver átti hvern. Núna snemmsumars ákvað ég að finna allar heimildarmyndirnar um ABBA á Youtube og horfa á þær — ég gafst upp eftir tíu eða ellefu því að þær voru farnar að endurnýta efni hver frá annarri. Í einni fann ég hugsanlega skýringu á misskilningi mínum því að Björn var kallaður Benný og öfugt í einni sjónvarpsklippu. Kannski sagði einhver mér einfaldlega rangt til eða ég misskildi þetta sjálfur af því að mér fannst að maður sem héti Björn gæti ekki verið sá skegglausi. Hvað sem því líður varð þetta langlífur misskilningur og líklega hjálpaði ekki til að ABBA var ekki mikið í umræðunni milli 1983 og 1992 enda er popp gærdagsins það dauðasta af öllu.

Síðan hófst hin mikla endurreisn ABBA sem ég man vel eftir á 10. áratugnum þegar ég var byrjaður að fara til útlanda og á ráðstefnur og sá Muriel’s Wedding og síðar Priscilla, Queen of the Desert. Síðan þá finnst mér viðeigandi að tala um ABBA með áströlskum hreim við erlenda vini því að mér finnst út af þessum kvikmyndum eins og það hafi aðallega verið Ástralir sem enduruppgötvuðu ABBA upp út 1990 — kannski var eins gott að Björn og Benný leyfðu P.J. Hogan á lokamínútunni að nota tónlist sína en þeir voru svo seinir til að Hogan var farinn að undirbúa breytingu á söguþræðinum þar sem The Village People voru eftirlætishljómsveit Muriel (þetta kom fram í einni heimildarmyndinni). Annað sem ég komst að var að Björn og Benny lesa ekki nótur og skrifuðu tónlistina sína aldrei niður og þess vegna þarf að kalla þá til að hlusta ef hún er notuð. Það þriðja að ABBA sjálf höfðu ekki hugmynd um hvaða lög þeirra ættu eftir að slá í gegn, fyrir utan „Dancing Queen“ auðvitað sem allir vissu að væri smellur. Eins hafði ég ekki áttað mig á að Stickan Andersson framkvæmdastjóri þeirra samdi flesta textana og dansdrottningin var upphaflega 14 eða 15 ára en ekki 17. Það þarf auðvitað ekki að koma á óvart því að þau voru sænsk og á dögum ABBA voru 12-14 ára krakkar iðulega full á Hallærisplaninu eða á útihátíðum hérlendis og reyktu eins og strompar og væntanlega einnig í Svíþjóð.

Eitt af því sem þótti framúrstefnulegt við ABBA voru myndböndin. Þetta var áður en myndbandagerð varð háþróuð og flest myndbönd voru aðeins hljómsveitin að spila, oftast á sviði en stöku sinnum á öðrum og myndrænni stað (eins og t.d. hér). Þótt ekki væri nema með myndskotunum þar sem Annifrid og Agnetha snúa hvor í sína átt (sjá að neðan) var ABBA í fremstu röð og þóttu nýjungagjörn á þessum tíma, svo að ekki sé minnst á myndbönd þar sem skjárinn var fjórskiptur og þau öll sýnileg í einu. Ég man að þegar ég var barn þóttu Björn og Benný ekki nándar nærri jafn merkilegir og Agnetha og Annifrid, þeir voru bakraddir og alls engin kyntákn. Almennt var það Agnetha sem var tignuð eins og gyðja af börnum enda við flest á þessum tíma yfir okkur hrifin af ljóshærðum konum (ég ekki undanskilinn en tvær ljóshærðar konur voru aðalkennarar mínir í Langholtsskóla frá 6-13 ára). Þeir sem voru svolítið „edgy“ sögðust vera meira fyrir Fridu. Löngu seinna kann ég afar vel við söng þeirra beggja, maður ber ekki saman sópran og mezzó en þær eru báðar frábærar í sínu hlutverki.

Eitt af því sem ég gróf upp á ferð minni um ABBA-lendurnar er þátturinn þar sem ABBA komu fram í seinasta skipti fyrir endurkomuna eftir covid. Hann var með hinum alræmda Hemma þeirra Breta, Noel Edmonds, og upp á svið var dreginn peysuklæddur ABBA-aðdáandi, Kevin að nafni (sjá neðstu myndina). Eins og allar heimildamyndirnar benda á var loft lævi blandið og andrúmsloftið rafmagnað, pörin bæði rækilega skilin og lítið að gerast í tónlistinni. Í orði kveðnu var þetta þó ekki síðasta eitt eða neitt en þrátt fyrir súra stemmingu fluttu ABBA „Thank You for the Music“ af miklum bravúr, eins og þau vissu að þetta væri þeirra seinasta vers og af sama trukki og venjulega. Þetta er einmitt eitt af eftirlætislögunum mínum með ABBA, frá miðjum ferli þeirra en alls ekki lokunum, en aftur á móti næstum samið til að vera lokalag á tónleikum (þau höfðu líka vit á því að semja áramótalag sem þau hafa eflaust malað gull á).

Í mörgum þáttum kom líka fram að ABBA voru almennt fyrirlitin af framúrstefnutónlistarfólki í Svíþjóð (Björn Afzelius og þeim öllum), m.a. fyrir að vera ekki með neina samfélagsgagnrýni í tónlistinni, minnast aldrei á Víetnam og svo urðu þau seinna að vonum illa liðin fyrir að vera rík, eiginlega sænskir sægreifar. Snemma varð ABBA að fyrirtæki sem sinnti ekki síst fjárfestingum og þau vaða öll í peningum síðan þó að Stickan væru mislagðar hendur í fjárfestingum.

Munurinn á strákunum og stelpunum varð mjög skýr þegar þau hættu. Björn og Benny voru vinirnir í hópnum en stelpurnar kærustur og síðar eiginkonur þeirra. Þeir héldu því áfram að vinna saman og gera söngleiki og að lokum forvalta ABBA-tónlistina þegar hún sló aftur í gegn. Annifrid og Agnetha héldu áfram að syngja en ekki saman og ekki lengi og fóru að lokum hvor sína leið, Annifrid giftist þýskum prins en Agnetha fór á eyjuna þar sem hún dvelur enn og varð mannafæla. Persónulega tengi ég langmest við hana þar sem ég er lítið fyrir utanlandsferðir en undir miklum þrýstingi að fara í þær. Eitt af því áhugaverðasta við allar heimildarmyndirnar eru viðburðirnir þar sem allir vona að Agnetha mæti en svo kemur Agnetha ekki. Ég geri fastlega ráð fyrir að henni þyki jafn leitt og mér að valda fólki vonbrigðum þó að ég voni að hún skilji betur en ég hvers vegna fólk vill hitta hana. Þegar ég var í stjórn Borgarleikhússins settum við upp Mamma Mia og vissum öll að það slægi í gegn en það vissu ABBA-liðar alls ekki í fyrstu. ABBA mun að lokum hafa grætt meira á söngleikjunum og bíómyndunum en á þessum áratug þar sem þau voru vinsælustu popparar í heimi. Sú velgengni á eflaust þátt í því að þau stigu fram á ný með nýja plötu eftir 40 ár og eru enn á sviðinu sem ABBA-tarar í Lundúnum.

Saga Agnethu er auðvitað skýrt dæmi um að öll velgengni og vinsældir í heiminum kemur ekki í veg fyrir að fólk fái agórafóbíu eða klausturfóbíu. Saga prinsessunnar Annifrid er á sama hátt merkileg sigursaga um útskúfað ástandsbarn sem varð prinsessa en varð fyrir ýmsum sorgum; Frida þó sterk í hverri raun. Enginn sem man eftir ABBA frá 8. áratugnum gæti haldið að Björn og Benny séu aðalatriðið en ekki þær því að ABBA væri ekkert án kvennanna. Samt eru þeir félagar aðdáunarverðir popplagahöfundar sem bæði nýttu tæknina alla tíð (löngu fyrir daga ABBA-taranna) og kunnu list hins einfalda. Textar eins og „Money money money / must be funny“ fóru eðlilega í taugarnar á róttæklingum 8. áratugarins en þeir og lögin öll náðu til sex ára barna eins og mín án þess endilega að fæla fullorðna frá. Þegar hjónalífið fór að súrna upp úr 1978 urðu textarnir sorglegri og dramatískari („The Winner Takes It All“ gott dæmi) en höfðu samt engu minni tilhöfðun og hafa lifað áratugum saman. Sannarlega snýst líf mitt í listinni mest um það sérstæða en ég kann samt vel að meta það sem höfðar til allra og nær stundum að tengja mann við fólk sem er bæði 40 árum eldra og yngra.

Previous
Previous

Fagurfræði orðanna

Next
Next

Vel heppnað veðmál Spielbergs