Vel heppnað veðmál Spielbergs
Ekki þarf að deila um að tónlist Leonard Bernstein fyrir Vesturbæjarsögu (West Side Story) er snilldarleg en í ljósi þess að kvikmyndin frá 1961 er ein sú best heppnaða og margverðlaunaðasta í sögunni hljóta fleiri en ég að hafa orðið hissa og hlessa þegar hinn óneitanlega snjalli Steven Spielberg ákvað að hann vildi gera nýja mynd (sem ég sá í annað sinn um jólin seinustu). Er þetta kannski sígilt dæmi um hubris hins mikilsmetna listamanns? En það óvænta gerðist að nýju myndinni var vel tekið af gagnrýnendum, hún komst víða á verðlaunapall og þó að hún hafi vissulega ekki náð til áhorfenda í fyrstu og tapaði stórfé á fyrsta ári (2021) þá er aldrei að vita nema hún gæti náð til almennings með tíð og tíma, a.m.k. eru norrænu sjónvarpsstöðvarnar teknar að sýna hana reglulega. Sum atriðin eru reyndar betri en í gömlu myndinni, t.d. þegar óknyttadrengirnir (ég man aldrei nöfnin) syngja saman til Krupke lögreglumanns. Kannski hefur dansstrákum farið fram í leik síðan 1961.
Erfiðara uppdráttar á nýja gerðin af „America“ þar sem sú eldri var afar eftirminnileg og með sjálfri Ritu Moreno en Spielberg fer þó þá skynsömu leið að herma alls ekki eftir myndinni frá 1961 og nýta sér möguleika kvikmyndarinnar með því að dreifa atriðinu yfir mun stærra svið. Árið 1961 var dansað á húsþaki en núna eru það götur New York borgar. Hin nýja Anita (Ariana DeBose) nýtur almennrar hylli þó að hún verði seint jafn fræg og Rita Moreno hjá minni kynslóð. Eitt það indælasta við nýju myndina er aftur á móti að Rita sjálf ævaforn að aldri hefur verið skrifuð inn í hana og það gerir barasta ekkert til þó að persónan sé ekki í gömlu myndinni eða upphaflega söngleiknum, myndin er samt sterkari með Ritu á sínum stað (nánari umfjöllun um þetta allt er hér).
Önnur djörf ákvörðun Spielbergs er að notast ekkert við Hollywoodstjörnur í sinni gerð. Fyrir utan Ritu er Ansel Elgort úr Baby Driver þekktasti leikarinn í myndinni og samt engin stórstjarna þó að hann hafi nýtt covid-hléð vel til að kynna sig rækilega (já, ég er að tala um myndina) en árið 1961 var það Natalie Wood sem var sú fræga (þó að ekki fengi hún að syngja neitt þegar á hvíta tjaldið kom heldur söng Marni Nixon eins og svo oft fyrir leikkonur). Ansel Elgort stendur sig vel og syngur sjálfur en hlutverk Tonys er talsvert veikara en Mariu þó að hann sé þannig séð þungamiðja fléttunnar og fyrir vikið verður alltaf meiri áhersla á frammistöðu kvennanna. Þannig má sjá þær Ariönu og Rachel Ziegler (sem mér þykir þó ekki eftirminnileg á við Natalie) víða á tilnefningarlistum en Ansel hvergi þó að hann standi sig samt ekkert verr. Karlleikarar eru sjaldan verðlaunaðir fyrir að syngja.
Sviðsleikaranum Mike Faist sem leikur Riff tókst aftur á móti að gera úr honum talsvert meiri persónu en Russ Tamblyn gat á sínum tíma og hann fékk m.a. óvænta BAFTA-tilnefningu og hefur farið að leika í London síðan (í Fjallabaki sem rataði síðan á sviðið hér). Faist verður ekki sakaður um hefðbundinn fríðleik en þykir þó greinilega afar heitur og þegar hann leikur Riff hefur hann farið aftur til upprunans (gengi í Brooklyn á 6. áratugnum) frekar en í gömlu myndina sem er góð ákvörðun. Ég er enn að bíða eftir að sjá hann í hinni umdeildu tenniskvikmynd Challengers sem hérlendar streymisveitur hafa ekki sýnt áhuga þó að hún sé afar umtöluð erlendis.
Mesti munurinn á gömlu og nýju myndinni eru litirnir. Það varð bylting í kvikmyndalitum eftir að West Side Story sló í gegn og þó að Spielberg-myndin sé vissulega litrík markar það ekki sömu tíðindi og árið 1961. Það hafa líka orðið fleiri byltingar og t.d. er mikill fjöldi leikara af öðrum uppruna en evrópskum í nýju myndinni; sú tíð er liðin að hin rússneska Natalie Wood (upphaflega Zakarenko) mátti leika stelpu frá Puerto Rico og vissulega er ágætt að fleiri fái séns þó að mér finnist sú breyting samt tiltölulega léleg fjarvistarsönnun fyrir bleiknefjuð nýlenduveldi heimsins til að halda áfram að deila og drottna yfir heiminum.