Fagurfræði orðanna
Indíafarinn í fjölskyldunni færði mér bókina A Wonderland of Words í tilefni af gangi himintunglanna í júlí og voru þetta fyrstu kynni mín af Shashi Tharoor sem er fæddur árið 1956 og átti að baki langan feril hjá Sameinuðu þjóðunum þegar hann hóf stjórnmálaþátttöku í heimalandinu og hefur verið meðlimur Lok Sabha síðan árið 2009. Tharoor hefur samið ein fjögur skáldverk en þeim mun fleiri bækur af öðru tagi, meðal annars hina umdeildu Inglorious Empire (2017) sem var raunar upphaflega ræða flutt við Oxfordháskóla í Englandi. Tharoor er ættaður frá Kerala en raunar fæddur í Lundúnum. Það hefur ekki endilega gert hann jákvæðari gagnvart enska heimsveldinu sem hann hefur engan áhuga á að sýna í rósrauðum bjarma. A Wonderland of Words er öðruvísi bók, eins konar ástaróður til ensku (sem líka hefur skipt talsverðu máli í mínu lífi vegna náinna samskipta sem hafa eingöngu farið fram á því máli), en hann hefur lengi verið þekktur í Indlandi sem maður hins mikla orðaforða og hófst það þegar hann notaði einu sinni orðið „farrago“ á forritinu Twitter (eða tístinu eins og ég kallaði það þegar ég var heimamaður þar) og það sló rækilega í gegn. Skilgreining Merriam og Webster á því er „a jumble or medley of disorganized, haphazard, or even nonsensical ideas or elements“ sem var einmitt það sem Tharoor vildi koma á framfæri.
Tharoor hefur því talsvert auctoritas sem þekktur áhugamaður um orð og embættismaður hjá Sameinuðu þjóðunum til áratuga. Enska er líka móðurmál hans og raunar hafa bandarískar stafsetningarkeppnir (eða „spelling bee“} leitt í ljós að indverskir krakkar ná mun lengra í stafsetningu á ensku en aðrir Bandaríkjamenn. Drjúgur hluti Undralands orðanna fjallar um orðsifjafræði, ferðalög orða milli tungumála og ýmsar kynjar tungumálsins, svipað og í dæminu að neðan sem fjallar um neikvæð orð sem vantar jákvæða andstæðu sína, líkt og við þekkjum með óféti og óbermi (engin féti og bermi til). Dæmið frá Wodehouse þekkja auðvitað allir lesendur þess ómissandi höfundar. Eins og sést að neðan kallar Tharoor þetta „ópöruð orð“ en skýringarnar eru ekki alltaf þekktar. Stundum er engu líkara en forliðurinn sé galdraður fram af neikvæðri merkingu orðsins, þ.e. að það sem orðið táknar sé svo hræðilegt að þörf sé á neitandi forskeyti.
Ekki er þó Tharoor eingöngu að fiska á orðsifjamiðum í þessari fjölbreyttu bók heldur er hann í grundvallaratriðum málfélagsfræðilega þenkjandi. Hann hefur ekki aðeins áhuga á uppruna orða heldur líka hvers vegna sum slógu í gegn en önnur hurfu og hann leggur sitt af mörkum í umræðunni um málstýringartilburði háskóia og opinberra aðila sem einkum er ætlað að vernda minnihlutahópa eða kúgað fólk yfirleitt. Tharoor er sannarlega ekki andvígur því yfirleitt en finnst þessir aðilar stundum fara offari og getur þar trútt um talað sem íbúi þriðja heimsins. Stundum fela þessar tilraunir til kurteisi í sér útþurrkun allrar vitundar um aðra menningu, alveg eins og ritskoðun í kurteisisskyni fækkar stundum persónum af öðrum uppruna en evrópskum. Þannig gerir hann stólpagrín að óþoli Stanfordháskóla gegn orðasamböndum á við „bury the hatchet“ eða „be on the warpath“ og dregur of víðfeðma notkun hugtaksins „menningarnám“ mjög í efa. Enginn getur sakað Tharoor um að vera dulbúinn heimsvaldasinni eftir að hafa lesið Inglorious Empire en hann er andstæðingur þess að fletja út málið jafnvel þótt það sé í góðum tilgangi. Stundum veltir maður fyrir sér hvort æsingur yfir orðum sé eins konar fjarvistarsönnun frá því að raunverulega gera eitthvað í vestrænni yfirburðahyggju.
Undraland orðanna er þannig ekki innantóm skemmtibók þó að hún sé skemmtileg heldur alvarleg úttekt á sambandi tungumáls, samfélags og einstaklinga. Tharoor er hugsjónamaður eins og svo margir hjá Sameinuðu þjóðunum, stofnun sem margir eru andvígir, aðallega vegna eigin rasisma, þjóðrembu og heimsvaldastefnu. Eitt helsta áhyggjuefni hans er að fólk hætti að lesa bækur og hann bendir réttilega á að allur lesturinn sem fram fer í staðinn (t.d. á samfélagsmiðlum) sé í raun alls ekki sambærilegur vegna þess að hann sé miklu grynnri. Nú er margt fleira á netinu en það en þó að ég hefði sannarlega elskað netið sem fróðleiksnámu þegar ég var á barnsaldri er ég samt feginn að ég fékk að alast upp við lestur og jafnvel þó að stundum fari lítið fyrir lestri hjá manni koma líka vikur (tvær eða þrjár á ári) þar sem ég næ hartnær 2000 blaðsíðum af gæðaefni. Ein slík var einmitt vikan sem ég kynntist Shashi Tharoor.