Minn Churchill-klúbbur

Caryl Churchill (f. 1939) er einhver frumlegasti leikritahöfundur Breta seinustu hálfu öldina og rataði til Íslands strax á 9. áratugnum (Klassapíur) en síðan aftur upp úr 2020 þegar bæði Ein komst undan og Ást og upplýsingar voru sýnd hvort í sínu leikhúsi. Þetta var árið sem ég var enn lamaður eftir covid og fór ekki í leikhús eftir sjö góð ár af tíðum leikhúsferðum sem er útskýring en engin afsökun — mér koma í hug orð broddgaltarins úr Dýrunum í Hálsaskógi: Þetta er blátt áfram skammarlegt! Ég hafði þess vegna enga séð af þessum sýningum en greip færið þegar síðastnefnda leikritið var leiklesið í salon einum góðum hér í bæ og tók þátt í flutningnum ásamt 20 öðrum, einkum listamönnum af ýmsu tagi. Það var sannarlega bæði skemmtileg og góð reynsla.

Caryl Churchill semur ekki endilega persónur heldur raddir, t.d. í Ást og upplýsingum sem við lásum. Þetta eru ríflega 50 spjöll milli 2-3 þar sem hvergi kemur fram hverjir þeir eru. Þar með er þó ekki sagt að engin persónusköpun sé í verkinu því að hún getur sprottið úr orðunum sjálfum í góðum leik. Tilfinningin mín bæði þegar ég las og hlustaði var að hennar tilraun snerist ekki síst um mátt orðanna; hún væri eiginlega ljóðskáld leiksviðsins sem lýsir djúpum skilningi á því hvað leikskáld getur helst haft til málanna að leggja. Ást og upplýsingar eru alls 57 atriði, flest með tveimur sem tala þannig að persónur verksins eru rúmlega 100. Leikritið mun upphaflega hafa tekið tvo tíma í flutningi en við vorum varla hálfnuð eftir næstum tvo; kannski vegna léttúðar leiklesaranna.

Churchill hefur verið kölluð Wittgenstein leikhússins því að hún hættir ekki að gera tilraunir með formið. Eins og fram kemur af heitinu snýst þetta tiltekna leikrit um upplýsingagjöf, stundum svo hraða að úr verður hálfgerð grófgun til missis mennsku eins og kennari minn Davíð Erlingsson hefði kallað það. Fólk talast á frekar en saman, oft með býsna kómískri niðurstöðu en þó aldrei innantómt grín og sem betur fer var fólkið á leiklestrinum hugsandi og ekki hlæjandi tryllingslega allan tímann eins og íslenskir leikhúsgestir gera svo gjarnan þó að okkur væri auðvitað oft skemmt. Leikverkið skiptist í sjö þætti og þeir hafa eins konar þætti líka sem bera titla eins og leyndarmál, svefn, mamma, skilaboð, einfarinn, draumur og píanó. Raddinar eru ágengar og snarpar, tjá sig einarðlega fremur en að hlusta. Mér kom í hug gargið sem höfundurinn Akörn ræddi nýlega í sinni óvenjulegu bók.

Nú veit ég ekki hvort ég er orðinn hluti af menningarelítunni með því að vera boðið í þennan upplestur en ef svo er þá er þetta sá eini Churchill-klúbbur sem ég vil vera með í (sennilega verður mér aldrei boðið í aðra sem gerir ekkert til þar sem ég er hættur að tala í bili). Sennilega eru orðin mín kirkja og þarf kannski ekki að koma neinum á óvart þar sem allt mitt líf og verk hefur snúist um þau.

Previous
Previous

Höfundur er karl

Next
Next

Fagurfræði orðanna