Höfundur er karl
Fræðimaður einn sem annars hefur aldrei lesið neitt eftir mig svo að vitað sé lagði nýlega lykkju á leið sína til að sparka í mig í doðranti einum um óskylt efni og var tilefnið það að orðið „piparjúnka“ var notað í einni skáldsögu minni. Nú hef ég skrifað ósköpin öll og efast um að orðið komi annarstaðar fyrir en í þessu tilviki var það lagt í munn skáldsagnapersónu og það þarf ekki einu sinni að hafa lokið grundvallaráfanga í bókmenntafræði til að skilja að skáldsagnapersónur eru ekki málpípur höfunda sinna og fátt bendir raunar til að viðkomandi persóna gegni þvílíku hlutverki enda hefur hún sagt margt verra en þetta. Allir hugvísindamenn ættu að vita er ekki hægt að taka orð úr skáldsögum úr samhengi sem eins konar gagn um skoðanir höfundanna þannig að brotaviljinn er hér einbeittur. Doðrantahöfundurinn játar raunar að persóna tali en bætir við „höfundur er karl“ og það innskot á að vinna alla vinnuna við að sannfæra lesendur að hér sé fordómablesi afhjúpaður. Nú er þetta allt svo afkáralegt og hallærislegt að það er varla svara vert og viðkomandi fræðimanni (sem ég vissi fyrst núna að væri uppsigað við mig) væri nær að leita meðferðar við þessari heift sinni. En mig langar samt að staldra við þessa andstyggilegu innskotssetningu sem á að innramma höfundinn (mig) í lítilmótlegt kynferði sitt í eitt skipti fyrir öll.
Með því að fullyrða að höfundur sé karl er verið að gera honum upp að vera fulltrúi kyns síns þegar kemur að viðhorfum og orðanotkun en ég neita því raunar algerlega og hef aldrei fallist á að ég sé karlkynshöfundur eða gefið neinum leyfi til að nota slík orð um mig. Þó að ég sé líffræðilegur karlmaður merkir það ekki að ég sé endilega hugmyndalega, siðferðilega eða á nokkurn annan andlegan hátt karlkyns og hlýt að mega ráða því sjálfur á dögum kynræns sjálfræðis. Það má velta fyrir sér þeim afturkreistingshætti að stimpla höfunda með þessum hætti sem er að mínu mati mun forneskjulegra og fordómafullra en að höfundur leyfi persónu í skáldsögu að nota orðið piparjúnka en notkun þess er fyrst og fremst lýsing á þeirri persónu sem notar orðið um manneskju sem henni er illa við.
Þetta er vitaskuld ekkert skárra en að segja „þessi kvenkyns höfundur“ þegar kynferði höfundar skiptir engu máli og er alltaf skýrt merki um fordóma þess sem talar. Þess vegna kyngreini ég sjálfur ekki fræðimanninn óheiðarlega (og þetta er raunar mitt lýsingarorð sem má herma upp á mig) í þessari athugasemd því að það myndi ekki bæta neinu við. Léleg vinnubrögð eru léleg vinnubrögð, óháð kyni höfundar. En ekki vil ég láta viðkomandi eða aðra sem nota svipuð stílbrögð til að ófrægja aðra halda að enginn taki eftir því og að það missi enga virðingu eða höfundarheiður við retórísk bellibrögð af þessu tagi.