Förutannburstarar
Mamma heitin bjó ein seinustu æviárin sín vegna harðneskju örlaganna og lenti þá í því sama og ég stundum líka að hafa engan að ræða við um það sem hún las eða horfði á en þar sem mamma fór aldrei á netið á ævi sinni gat hún vitaskuld ekki haldið uppi síðu eins og þessari til að tala í tómið (og mamma var raunar öfugt við mig meira fyrir að tala en skrifa). En stundum deildi hún með manni einhverju sem hún hafði rekist á og líkaði vel, t.d. þegar sagt var Paola, eiginkona Brunetti lögregluforingja í Feneyjabókum Donnu Leon (f. 1942), væri „peripatetic toothbrusher“ og hún gat þá séð Paolu Brunetti fyrir sér ferðast milli herbergja og ræða við mann sinn meðan hún sinnti tannburstun. Mamma var mikil orðabókamanneskja og fletti öllu upp á meðan pabbi var meira fyrir djarfar ágiskanir; hvorttveggja aðferð hefur erfst til mín en mamma er farin að dómínera svolítið eftir að netið kom og uppflettingar urðu jafnvel enn léttari en fyrr. Mamma og tannhirða væru síðan efni í sérstaka grein en þessi síða fjallar um bókmenntir. Foreldrar mínir áttu það sameiginlegt að hafa lítinn áhuga á fornbókmenntum en voru hvort með sitt sett af uppáhaldshöfundum 20. aldar og meðal þeirra sem mamma hélt upp á voru Sartre, Camus og Paul Auster en hún var líka stöðugt í leit að nýjum afþreyingarhöfundum og ein slík á seinni árum hennar (eftir 1992) var áðurnefnd Donna Leon.
Á undan Donnu kom raunar Martha Grimes (f. 1931) sem var bandarískur Bretavinur sem kenndi allar bækur sínar (sem fóru að koma út árið 1981) við ensk kráarheiti og var skemmtileg í fyrstu en þegar kom að bók 7 eða 8 þótti mömmu og pabba henni fara svolítið aftur og meðal annars nennti Martha ekki lengur að skýra glæpina og skildi fullmarga lausa enda eftir óhnýtta. Grimes lét þó ekkert stöðva sig og mun hafa samið hartnær 40 bækur en mamma var þá horfin á mið Donnu Leon sem er víst á 33. bók sinni núna og ég held að mamma hafi sennilega lesið nóg af henni á tæpum 20 árum en man þó ekki eftir að henni hafi verið farið að leiðast hún. Líkt og Grimes er Leon Evrópusinnaður Bandaríkjamaður sem bjó einmitt lengi í Feneyjum en mun nú vera flutt til Sviss, paradísar hinna ríku. Þjóðverjar elska Donnu Leon mikið og hafa gert marga sjónvarpsþætti upp úr Brunetti-bókum hennar sem Leon hefur harðbannað að verði þýddar á ítölsku.
Vegna þess að það er þessi dagur verð ég líka að nefna Knud H. Thomsen (1921–1990) sem mamma tók ástfóstri við og átti 15 bækur hans en öfugt við Leon eða Grimes las ég aðeins 1-2 sjálfur og fann kannski ekki sömu tengingu við Knút. Það sem mömmu fannst gaman við Thomsen var að aðalpersónur hans voru gjarnan „slysahetjur“, þ.e. menn sem höfðu enga hetjulega eiginleika en lentu í hlutverki hetjunnar vegna keðju tilviljana. Eins snerust margar bækur hans um baráttu kúgaðra gegn kúgurum sem höfðaði mjög til hennar löngu áður en það komst í tísku. Thomsen var launfyndinn en foreldrar mínir áttu það sameiginlegt að hafa lítinn skilning á ófyndnum höfundum eða húmorslausri framúrstefnulist yfirleitt. Þau höfðu hvort sinn smekk en náðu helst saman í góðri gamanmynd. Mamma hafði öfugt við pabba engan áhuga á fantasíu eða vísindaskáldskap en raunar fór hún samt á Hringadrottinssögumyndirnar 2001–2003 þó að hún hefði aldrei lesið bókina á sínum tíma vegna þess að henni fannst að hún yrði að sjá þetta stórvirki. Jafnvel foreldrar manns geta stundum komið á óvart.