Fífillinn fegri

Eins og aðdáendur mínir muna eflaust hljóp í mig kynngikraftur fyrir tveimur árum og ég sá ansi margar fornar óskarsverðlaunamyndir sem ég hafði aldrei séð en leyndust í fullri lengd á Youtube. Ein af þeim sem þá varð raunar útundan var Á krossgötum (en á frummálinu The Turning Point, upphaflegi titillinn er tvíræður en ekki sá íslenski), gerð árið 1977 en sýnd í Nýja bíói sumarið 1979. Þá var ég níu ára polli og hefði seint farið í bíó að sjá svona fullorðinsmyndir og reyndar létu mamma og pabbi þær almennt óáreittar líka enda bæði snobblaus með öllu á meðan ég sjálfur hef ákveðið að gefa verðlaunamyndum séns, einkum fyrri tíma, og hef uppskorið ríkulega. Í þessari ágætu balletkvikmynd (Svarta svan síns tíma) eru þær Anne Bancroft og Shirley MacLaine í aðalhlutverki, báðar vel þekktar í mínum uppvexti, og hún er grundvölluð á lífi Noru Kaye (1920–1987) sem framleiddi myndina en leikstjórinn var eiginmaður hennar Herbert Ross (1927-2001) og handritshöfundurinn er sjálfur Arthur Laurents sem við aðdáendur Farley Grangers könnumst vel við enda var hann svo heppinn að njóta þess ágæta leikara á hátindi lífs hans.

Nora Kaye er semsé fyrirmynd annarrar aðalpersónunnar en hin er byggð á vinkonu hennar Isabel Mirrow (1928–2014) og dóttir þeirrar síðarnefndu leikur í myndinni, eiginlega sjálfa sig (persónan heitir Emelia en leikkonan heitir Leslie Browne og er sjálf dansari). Myndin gerist þannig á hinu spennandi sviði balletheimsins en meginþemað eru kannski æskan og miðaldurinn (það tiltekna þema virðist hundelta mig þessa dagana), flókið efni sem hlýtur að leita á alla sem hafa sérhæft sig í einhverju þar sem fólk er upp á sitt besta fyrir fertugt. Við kynnumst fjandvinkonunum Deede og Emmu sem báðar eru komnar á fimmtugsaldurinn og eitt sinn voru þær báðar í ballet en önnur þeirra hefur farið alla leið og orðið fræg prima ballerina á meðan hin er orðin húsmóðir og danskennari í Oklahoma, eftir að hafa gifst öðrum dansara, Wayne að nafni (leikinn af Tom Skerritt), og hætt að dansa. En líftími allra dansara er samt takmarkaður og jafnvel þó að Emma (Anne Bancroft) sé enn fræg þarf hún senn að finna sér nýtt hlutverk líka aldursins vegna. Hún er ekki lengur á tindinum þótt hún sé enn á sviðinu.

Börn Deede (Shirley McLaine) eru hins vegar ung og hress og eiga alla framtíðina fyrir sér og fara nú að verða þungamiðja lífs hennar. Dóttirin Emilia tekur nú sömu stefnu og móðirin forðum á meðan sonurinn Ethan er enn ekki búinn að velja milli hafnarbolta og ballets en virðist hafa mikla hæfileika og er óþrúgaður af þeim. Þriðja dóttirin hefur engan áhuga á dansi og skiptir því litlu máli í sögunni. Þegar Emilia fær sitt mikla tækifæri þarf mamma hennar að flytja með henni og Ethan til New York en þar er Emma fyrir, hætt að njóta sömu hylli og áður og lendir upp á kant við ungan danshöfund sem leiðist svona stjörnur. Það kemur því í hlut Emiliu að dansa í nýmóðins balletinum hans um leið og hún kynnist sjálfsörugga folanum Yuri (leikinn af dansaranum Mikhail Baryshnikov sem þá var nýflúinn til Vesturlanda og naut mikillar hylli) sem neglir hana með fallíska augnaráðinu sem Irigaray skrifaði um forðum daga og þarf ekki að spyrja að leikslokum; móðirin hefur áhyggjur en stúlkan veraldarvana segist vera á pillunni. Fuckboinn fer auðvitað illa með hana að lokum og hallar sér að öðrum dansara, Carolyn sem virðist hafa það eitt hlutverk í sögunni að flækjast fyrir öðrum persónum. Þá fer Emilia smástund illa út af sporinu sem veldur úlfúð milli vinkvennanna fornu.

Allir halda við alla í þessari mynd, Emma á giftan elskhuga og Deedee er fljótlega farin að halda við giftan hljómsveitarstjóra sem leikinn er af hinum fúlmannlega Anthony Zerbe (seint gleymast óblíð örlög hans í einni Bond-myndinni). Stelpan auðvitað hallar sér að Yuri áður en Carolyne landar honum þannig að allir fá tiltölulega mikið að ríða í þessari mynd nema unglingurinn og gömlu kellurnar; Martha Scott er reyndar stórskemmtileg í hlutverki pragmatíska balletstjórans (sem auðvitað er líka falleruð ballerína) sem nú þarf að fjármagna alla þessa list með betli og basli (ég skil hana mjög vel enda í svipuðu hlutverki hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi). Tiltölulega fljótlega kemur í ljós að Deedee og Emma eru enn ósáttar eftir fortíðina þó að þær reyni að vera kurteisar á yfirborðinu lengi vel og núna snúast átökin um forræði yfir hinni efnilegu en brothættu Emiliu (sem er guðdóttir Emmu sem þjálfar hana líka) og auðvitað allt hið óuppgerða og lýkur bókstaflega með slagsmálum í besta Dynasty-stíl sem eflaust hafa tryggt þeim báðum óskarstilnefningu.

Það er mikið um stöðuæfingar við stöngina, dansæfingar og enn meiri balletdans í þessari danshlöðnu mynd sem er vitaskuld með ráðum gert því að Ross og Kaye vildu eðlilega hafa mikinn dans í mynd sem snerist um ævi hennar. George Balanchine var víst einn helsti danshöfundurinn ásamt Alvin Ailey, þetta eru nöfn sem jafnvel fólk sem ekkert vit hefur á ballet eins og ég kannast við. Margir aðrir atvinnudansarar leika í myndinni og flest helstu hlutverk nema aðalhlutverkin eru skipuð dönsurum eins og Baryshnikov og Browne fremur en leikurum. Daniel Levins er eftirminnilegur í hlutverki hins hrokafulla danshöfundar Arnolds sem finnst að dansarar eiga bara að vera líkamar á hreyfingu við tónlist en ekki túlkendur. Hjónin Kaye og Ross gerðu í kjölfarið kvikmynd um Nijinsky (1980) þar sem Leslie Browne lék aftur aðalhlutverk (Romulu, konu dansarans) en hún hélt sig annars við myndir þeirra Ross og Kaye. Ross hélt áfram að leikstýra eftir andlát Kaye og giftist yngri systur Jackie Kennedy, Lee Radziwill.

Next
Next

Krákumál síðari