Síldir Harlans
Harlan Coben (f. 1962) heitir bandarískur spennusagnahöfundur sem nýtur þeirrar gæfu á öld hinna bandarísku menningarhegemóníu (þegar jafnvel páfinn er orðinn bandarískur) að vera enn vinsælli utan heimalandsins og hefur Netflix gert einar þrettán þáttaraðir eftir sögum hans þegar ég taldi seinast: breskar (gjarnan með töffaranum Richard Armitage), spænskar, franskar, pólskar og núna eina argentíska sem heitir Atrapados (eða Gripinn á íslensku) sem mér skilst að sé líka spænska nafnið á Ófærð og þetta er vissulega ekki ósvipað efni. Þetta hlýtur að vera gleðiefni fyrir Coben og lýsi ég því hér með yfir að ef Argentínumenn hafa áhuga á að gera sjónvarpsþætti eftir bókum mínum er ég meira en viljugur. Ég hef satt að segja aldrei lesið Harlan Coben og er ekki á meðal þeirra 70 milljón sem munu hafa keypt bækur hans. Afar skiptar skoðanir eru um ágæti hans sem höfundar en flestum mun þykja Gripinn ein af þeim betri en sú eina sem hefur verið þýdd á íslensku svo að ég viti nefnist Saklaus (The Innocent á frummálinu).
Atrapados fjallar um eldri menn sem eru að forfæra unglinga á netinu í dulargervi, hegðun sem er kennd við fiska í nýuggaflokki (steinbít eða hlýra) erlendis. Blaðakonan ódeiga Ema Garay leggur gildru fyrir einn slíkan blekkingarmeistara og í hana gengur kunningi hennar Leo Mercer en Coben er mikið fyrir óvænt endalok og mikla snúninga þannig að Mercer reynist að sjálfsögðu blórabögull hins raunverulega níðings sem er gamall vinur hans sem lítur satt að segja talsvert meira út eins og illmenni (sjá að ofan). Meginfléttan snýst annars um hvarf unglingsstúlku nokkurrar sem hugsanlega var eitt af fórnarlömbum steinbítsins. Sú er fiðlusnillingur sem virðist sérhæfa sig í Vivaldi sem er enda þaulnýttur í þættinum enda ekki í rétti. Fyrir utan steinbítinn fúlmannlega hafa margir leikarar greinilega fengið þau skilaboð að þeir séu e.t.v. morðinginn og hafa sérhæft sig í að standa og stara ískyggilega út í fjarskann, meðal annars tvítugur sonur Emu (sjá að neðan) sem er leikinn af einum leikaranum úr hinni prýðilegu en erfiðu La sociedad de la nieve sem ég sá í fyrra.
Sonur nágrannakonunnar sem heitir því fallega nafni Armando kemur raunar líka við sögu og þurfti ég tvo þætti til að halda þessum tveimur ungu mönnum aðgreindum („hjónasvipur“ með strákavinum er auðvitað vel þekkt fyrirbæri eins og allir vita sem hafa komið í íslenska sundlaug snemma kvölds) og raunar eru mömmurnar þar að auki ansi líkar og ýmsar aðrar leikkonur í þáttunum en sennilega eru þetta allt þekktir leikarar í Argentínu og þar ruglast því enginn. Besta atriði þáttarins er í honum nákvæmlega miðjum og snýst um eftirlitsmyndavél, kannski innblásið af öðru álíka góðu atriði í Karlar sem hata konur forðum. Eins og alltaf hjá Coben þarf að kafa djúpt ofan í fortíðina og Ema eltist við hvern fornan þráð af mikilli elju. Harlan er sem sé ansi liðtækur í rauðu síldunum en eftir allar þessar flækjur og átök og drjúgt leynilögreglustarf og lífshættu Emu reynist helsta morðið í þættinum að lokum vera slys, svipað og í norsku útvarpsleikritunum í gamladaga sem þóttu aldrei beinlínis jafnast á við Agöthu Christie (Sverrir afi las einmitt sögu hennar, „Fram á elleftu stund“ upp í útvarpinu árið 1951 og tæmdust þá götur Reykjavíkur, en það er önnur saga) . Eins reynist Leo sem lá smástund undir grun og var talinn dauður vera sprelllifandi í lokin og leikandi á als oddi á sléttum Patagóníu. Ekki þarf þó að kvarta yfir afþreyingargildinu þrátt fyrir þetta antiklimax allt.