Bernska mín og nasistar hennar (esseia)

Arnarborgin (Where Eagles Dare) er kvikmynd frá 1968 eftir sögu Alistair MacLean heitins sem ég nenni ekki að kynna hér því að mér finnst að allir eigi að þekkja hann þó að nemendur mínir í Háskólanum hafi sennilega aldrei heyrt þennan forna metsöluhöfund nefndan og þegar ég sá hana í danska sjónvarpinu á Þorláksmessu 2024 því að Danir sýna hana gjarnan á jólunum áttaði ég mig á að þó að ég hefði ekki séð myndina fyrr en á fullorðinsárum setti Alistair heitinn samt slíkan svip á æskuár mín og hvernig spennubækur voru skilgreindar að ég fer í tímaferðalag á Sólheimabókasafnið árið 1980 við það eitt að horfa á hana. Ekki veit ég til að pabbi heitinn hafi verið sérstaklega hrifinn af myndinni en þetta er þó dæmigerð mynd af því tagi sem hann hefði viljað sjá, með nasistum og spennu og undirferli. Richard Burton og Clint Eastwood voru ekki heldur meðal hans eftirlætisleikara (það voru hins vegar Humphrey Bogart, Gene Hackman og Roy Scheider) en ráðandi gen hans í mér fíla þá báða mjög mikið. Burton auðvitað komst ég í snertingu við með því að búa á tveimur af eftirlætishótelum hans nýlega þó að ekki hafi ég nýtt hótelbarinn alveg í sama mæli. Hann reykti líka fimm pakka á dag og foreldrar mínir reyktu líka og allt er þetta í eins konar áttundaáratugarsósu í kollinum á mér. Clint reykti sennilega og drakk minna úr því að hann lifir enn.

Eins og í flestum sögum MacLean er sett upp spennuflétta í Arnarborginni þar sem verkefnið virðist skýrt í fyrstu en síðan reynast allir vera njósnarar og gagnnjósnarar og eru afhjúpaðir margoft þannig að maður verður ruglaður uns allt er komið á hreint í lokin og aðalnjósnarinn og skúrkurinn er afhjúpaður; oftast er hann frekar sympatískur hjá Alistair kallinum. MacLean var góður í þessu á þeim árum er hann var einn helsti metsöluhöfundur Íslands, Arnaldur bernsku minnar. Við bræðurnir lékum sjálfir svikaraleiki af þessu tagi með dúkkunum okkar (við áttum dúkkur, 60 talsins, sem voru bæði legó og úr plasti, þær voru ekki brúður heldur persónur í alls konar flóknum bókmenntaverkum sem voru iðulega endurmynd eftirlætisbóka okkar og kvikmynda). Í þessari mynd er einmitt slíkur svikari og líka ljóshærður nasisti sem er ótrúlega dæmigerður fyrir slíka kóna í kvikmyndum bernsku minnar. Mömmu og pabba líkaði vel að hafa slík ljóshærð varmenni í myndum enda stríðsárakrakkar.

Adolf Hitler hafði verið látinn í 25 ár þegar ég fæddist og var einn fyrsti frægi útlendingurinn sem ég heyrði um; sennilega sá ég hann fyrst í teiknimyndabók um heimsstyrjöldina. Núna eru þau orðin 80 árin frá hruni hans, Hitler er ekki aðeins dauður heldur löngudauður, og eðlilega er seinni heimsstyrjöldin orðin eitthvað sem fyrst og fremst eldra fólk hefur áhuga á og margar skoðanir Hitlers eru jafnvel farnar að vera meginstraums á ný. Mér virðist einhverjir vera farnir að gleyma þessum hildarleik að verulegu leyti, nógu mikið til að umgangast stríð á léttúðugan hátt og fagna vopnavæðingu Þýskalands (hvað gæti klikkað?). En almenningur veit samt alltaf best og vill ekki stríð. Seinni heimsstyrjöldin var að vísu gott efni í spennumyndir en líka hræðilegur ófögnuður sem hefði betur aldrei orðið.

Mig grunar að Arnarborgin sé dönsk jólamynd aðallega vegna þess að hún gerist í snjó, raunar allmiklum snjó. Mörg bestu atriðin í henni tengjast einmitt frosnu vatni. Landslagið er ein helsta stjarna myndarinnar og þar eru líka „kikkass“ konur sem Íslendingar í gamladaga og raunar ýmsir fjölmiðlamenn nútímans sem eru fastir í fortíðinni, 19. aldar menn ef ekki Neanderdalsmenn og helstu karlrembur landsins, myndu sennilega kalla valkyrjur af því að þeim finnst sniðugt að setja slíka merkimiða á konur. Mary Ure leikur helsta kvenhlutverkið á móti Burton; líkt og hann reykti hún sig líka og drakk í hel langt fyrir aldur fram. Hún lék einnig geðlurðuna Alison í Horfðu reiður um öxl sem ég sá einmitt með Burton í enskutíma í gamladaga. Hef aldrei séð hana á sviði en skilst að Gunnar Eyjólfsson hafi verið aðsópsmikill í íslensku sýningunni.

Eins og þið vitið einkennist þessi síða af hinu frjálsa formi og mig langar ekki til að greina Arnarborgina heldur nota hana í lausbeislaða esseiu. Að lokum læt ég þess getið að svikarinn í myndinni er leikinn af Patrick Wymark sem var samtíðarmaður minn í þrjá mánuði og átta daga, hann fékk hjartaáfall í hótelherbergi í Melbourne áður en ég lærði að ganga. Í myndinni er hann mun yngri en ég núna en samt gamall maður. Hann andaðist á hátindi ferils síns en minn tindur er vonandi enn óklifinn.

Next
Next

Klemens vegur og metur