Klemens vegur og metur

Seint myndi ég telja mér sjálfum til tekna að tala vel um alla því að það ber aðeins vott um hræsni eða dómgreindarleysi. Þess vegna kann ég vel að meta sjálfsævisögur fyrri tíðar manna sem ekki voru ætlaðar til útgáfu og sagnaritarinn segir þess vegna ómengað álit sitt á öllum. Einlægni er dyggð hjá góðu fólki og tvær bestu manneskjur sem ég hef kynnst voru það sem Kaninn kallar „filterslausar“ og sögðu jafnan það sem þeim bjó í hug sem ég kunni vel að meta. Ég var að vonum afar forvitinn um nýútkomna Sjálfsævisögu Klemens Jónssonar (1862–1930) í útgáfu Önnu og Áslaugar Agnarsdóttur sem nær til 1919 og þar er því ekki greint frá ráðherratíð hans eða síðari þingmannsárum. Fjölmörgum afkomendum Klemens hef ég kynnst, öllum af góðu einu og sumir orðið alúðarvinir mínir. Auk heldur hef ég lesið sjálfsævisögur systkina hans Finns og Guðrúnar en vantaði Klemens í safnið; gladdist enda mjög að fá bókina í jólagjöf.

Ekki er við öðru að búast af Sögufélaginu en vandaðri útgáfu með rækilegum formála Önnu Agnarsdóttur og neðanmálsgreinum sem skýra samhengi textans. Klemens var ættfróður mjög líkt og Ari fróði sjálfur, mikill aðdáandi móður sinnar eins og Finnur bróðir hans og telur henni meðal annars til tekna að hafa fjarlægt ágengan róna úr húsi með handaflinu einu. Auk heldur telja þeir báðir bræður að hún hafi verið einstök gáfukona en um föðurinn hafa þeir minna að segja. Klemens lýsir æskuárum sínum í Reykjavík fjörlega, meðal annars átökum Vestur- og Austurbæinga, iðni við skautahlaup og síðar almennum drykkjuskap. Hann er lestrarhestur og þráir menntun, kemst að lokum í lærðaskólann en finnst kennararnir almennt lélegir og standast engan samjöfnuð við kennara sína í Kaupmannahöfn. Hann lýsir ýmsum átökum og gerir upp sakir við óvildarmenn. Magnús Stephensen stiftamtmaður fær afar slaka einkunn hjá honum eins og flestum enda Klemens arftaki hans sem landritari 1904–1917 þegar hann missir starfið fyrirhafnarlaust og engin klíka mætt að útvega honum annað starf. Allir sýslumenn landsins í aldarbyrjun fá líka einkunn, fæstir góða.

Klemens Jónsson sér þó ekki heiminn sem svarthvítan. Hann er á sinn hátt aðdáandi Hannesar Hafstein þó að hann sjái líka galla hans. Valtýr má líka eiga sína kosti þó að Klemens hafi augljóslega aldrei hrifist af honum eða pólitík hans. Björn Jónsson í Ísafold fær hræðilega útreið og sama gildir um fleiri. Akureyri fær góða einkunn hjá Klemens enda var hann manna fróðastur um sögu bæjarins sem alkunna er. Fárra ættingja minna er getið í löngu máli og furðu fátt hefur hann um Skúla langafa minn að segja, kannski vegna þess að honum var vel til hans eftir æskuárin í Kaupmannahöfn. Hégómlegir menn fá rækilega útreið og Lárus H. Bjarnason einna versta. Almennt fær lesandinn ekki á tilfinninguna að Ísland hafi verið land afburðamanna fyrir 120 árum eða svo.

Fyrir utan móðurina og eiginkonurnar fá konur ólíkt minna vægi en karlar í söguna en þó sér Klemens þær betur en sumir kynbræður hans á þessum árum. Ég las ritið eins og spennubók enda allvel heima í mönnum og málefnum síðari hluta 19. aldar eftir gömul kynni við aldamótabækur Þorsteins Thorarensen og fleiri úrvalsrit. Hvarflaði að mér um tíma að ég þyrfti sjálfur að skrifa slíkar minningar og alls ekki gefa út meðan ég lifi en gefa þar öllum helstu góðmennum og slordónum Íslands einkunn, framtíðinni til upplýsingar. Er ég enda kominn á svipaðan aldur og Klemens var þegar hann lauk þessari ágætu bók sem er hin besta fyrirmynd fyrir sjálfsævisagnaútgáfur framtíðarinnar og vonandi eru sem flestir góðir sagnfræðingar nú á leið á handritadeildina að grafa upp fleiri slíkar.

Next
Next

Til minningar um Johnny