Í steininum

Að sumu leyti er sem allt höfundarverk Andra Snæs Magnasonar sé samankomið í nýju bókinni hans, Jötunsteinn. Hvað form snertir hefur Andri alltaf verið einn póstmódernasti höfundur Íslendinga, hinn íslenski Vonnegut og Philip Dick, ófeiminn að nota myndir og leturgerðir í textaverkum sínum og hönnun bókanna iðulega hluti af verkinu, sannarlega í Jötunsteini sem er bók með kortum og teikningum sem um miðja bók verða einhver áhrifamesti hluti verksins enda er viðfangsefnið arkitektúr, verkfræði og nýbyggingar, kannski íslenskasta umræðuefni sem til er enda hefur Andri sennilega alltaf verið íslenskastur allra höfunda, kannski um of til að geta orðið forseti Íslands því að þriðja einkenni Andra er að vera sannsögull. Hann er höfundur með boðskap sem aldrei felur eigin skoðanir þó að þær fari misvel í fólk. Andri hefur líka alltaf verið næmur samfélagsgreinandi. Í bókum hans má finna ýmsar snjöllustu greiningar fagurbókmennta seinustu þrjátíu ára á íslensku samfélagi og ýmsum öfgum þess en líka hlutskipti kynslóðarinnar sem útlendingar kalla x-kynslóðina og Íslendingar hafa vitanlega hermt það eftir þó að Andri nálgist hana jafnan innan frá og af sálfræðilegu innsæi. Satíra Andra er líka að jafnaði ástúðleg þó að það fari framhjá sumum sem þola illa að verða persónur í tröllasögu.

Það sem er íslenskast af öllu er líka alþjóðlegast enda hafa verk Andra farið víða og Jötunsteinn verður þar engin undantekning. Hvað gæti verið íslenskara en saga um húsnæðismarkaðinn og verktakaiðnaðinn, öll húsnæðisátökin, grænu plönin og boðaða uppbyggingu'? En sagan snýst þó kannski aðallega um hinn skapandi mann í kapítalismanum, manninn sem á sér draum sem verður að martröð og fær á endanum engu ráðið um örlög eigin sköpunarverka. Þó að Jötunsteinn sé aðgengilegt verk og fyndið er stundum erfitt að hlæja vegna þess hversu satt það er; verkið er næstum eins og skýrsla um óhamingju Íslands þar sem frumleiki er vissulega til en undirskipaður hagræðingu og hagvexti og hagnaði og öllum þessum h-orðum sem núna virðast gengin í endurnýjun lífdaga af fullum krafti. Hinn skapandi maður er á endanum ofurseldur gróðahyggjunni og líklega manna ófrjálsastur þegar sköpunarverk hans eru orðin óþekkjanleg skrímsli.

Samband manns og náttúru hefur verið þema hjá Andra Snæ frá upphafi og í þessari bók verður sjálfur jötunsteinninn táknrænn fyrir skammsýna misnotkun á fegurðinni sem býr í steininum. Hin fögru mynstur náttúru og landslags gætu einnig leikið hlutverk í borgarlandslaginu og nærumhverfi mannsins en þau eru aftur á móti afmynduð og afskræmd í vélrænni gróðahyggju sem einkum fær að setja svip sitt á dvalarstaði hinna fátæku. Einnig listamaðurinn er fangi þessa kerfis og leikur þar sitt hlutverk sem í Jötunsteini bugar hann að lokum. Bókin gerist öll á andartaki sem jafnframt er ævisaga; hið stóra og hið smáa renna saman („háa skilur hnetti himingeimur / blað skilur bakka og egg“) í leik skáldsins með tímann sem hefur reyndar líka verið Andra lengi hugstæður líkt og þjóðskáldinu Matthíasi forðum. Úr verður stutt en sérlega formfagurt verk um úrkynjun formsins.

Next
Next

Bernska mín og nasistar hennar (esseia)