Fornsögurnar og bókmenntagreinar
Mér finnst við hæfi að geta hér bóka sem ég fæ gefins, jafnvel þó að ég hafi unnið til þess, og ein slík er How Genre Governs Creation in the Medieval Icelandic Sagas í ritröðinni The New Middle Ages sem ég man að mig langaði alltaf til að taka þátt í þegar ég sótti miðaldaþingin í Leeds í upphafi aldarinnar; þá var ég næstum eins og annar og mun metnaðarfyllri maður og ekki jafn fullviss um tilgangsleysi alls metnaðar og ég varð síðar. En það gleður mig að sjá þessa bók í þessari merku ritröð, hafandi fylgst með Yoav Tirosh um langa hríð (minnir að ég hafi fyrst hitt hann árið 2010) og kynnst vel miklum metnaði hans, lifandi áhuga á bókmenntum og síkvikum greinandi hug. Yoav er mikill miðjarðarhafsbúi þó að hann hafi búið lengi á Norðurslóðum og enn afar ólíkur Agnethu Fältskog og slíku fólki. Mikill áhugi hans á fólki og mannlegum samskiptum nýtur sín vel í þessari bók, sem og sá kjarkur sem þarf til að nýta sér þekkingu á kvikmyndum og myndrænni afþreyingu á fornsögurnar. Þó að ýmsir fræðimenn hafi tekið eftir líkindum milli kvikmyndafrásagna og fornsagna hafa fáir gert mikið með það.
Fyrir utan það mikla vald sem Tirosh hefur á bókmenntalegri umræðu finnst mér gaman að því hvernig hann hefur beitt sinnri skarpskyggni á ýmsar sögur sem áður nutu lítillar hylli, t.d. Ljósvetninga sögu þar sem hann er eiginlega hinn nýi Barði. Raunar nær áhugi hans á Guðmund ríka svo langt að hann hefur gert hann að persónu í annars margþættri myndasögulist sinni. Í þessari fræðibók beinir hann hins vegar athygli sinni að tegundaflokkun fornsagna sem hefur lengi verið vandræðabarn og þeir óþolimóðu myndu margir vilja hætta að ræða þetta margtuggna umræðuefni en Tirosh sýnir í bókinni að hægt er að nálgast það á nýjan og ferskan hátt og opna það að nýju. Hún er því bitastæð fyrir alla áhugamenn um bókmenntagreinar.