Sól ég sá

Nýlega horfði ég aftur á kvikmyndina Sunshine (2007) til að leita innblásturs við ritun bókar um Íslendingasögur. Ég ætla ekki að ræða tengsl myndarinnar við fornsögurnar hér en mér finnst þau eiginlega blasa við. Sunshine líður fyrir það að seinasti þriðjungur kvikmyndarinnar er vanhugsaður en að öðru leyti er kvikmyndin misskilið meistaraverk, sennilega besta mynd Danny Boyle af mörgum góðum (sannarlega betri en verðlaunamyndin hans), og ég er raunar ekki einn um að finnast það. Flestir leikararnir (Rose Byrne, Chris Evans, Michelle Yeoh, minna þekktu leikararnir og jafnvel Cillian Murphy sjálfur) hafa aldrei verið betri en í þessari mynd. Bent hefur verið á að í myndinni felist mikilvæg allegóría um trúarbrögð og heimspeki fyrir utan að hún er afar spennandi og sannarlega myndræn veisla.

Aðalsögusvið Sunshine er geimfar eitt með átta manneskjum og milli þeirra verða ýmsir árekstrar og samskipti í þessu afar innilokaða umhverfi, eins konar himnafangelsi þar sem fólkið nýtur þess samt að verkefni þeirra getur ekki verið mikilvægara og þau þurfa því ekki að glíma við eigið tilgangsleysi eins og við hin þurfum stundum. Þær hafa líka tölvuheila geimfarsins til að ræða við og geta nýtt sér ýmsa framúrstefnulega möguleika þess (Siri hefur ekki sömu hæfileika). Persónurnar í Sunshine eru meðal annars verkfræðingar, eðlisfræðingar, líffræðingar, sálfræðingar og stundum minna samskiptin á smávaxna háskóladeild. Nokkrar eru austur-asískar og virðast gjarnan stóískari en hinar menningarinnar vegna. Aðrar eru skýrt dæmi um hina skýru verkfræðilegu hugsun. Sumar eru heillaðar af plöntum, aðrar af ljósinu og myrkrinu. Þær eru fjarska misjafnlega agaðar. Þegar í upphafi nær eðlisfræðingurinn Capa sem er leikinn af Cillian Murphy með hárgreiðslu sem minnir á enska eðlisfræðinginn Brian Cox að mala svo mikið í senditækið að aðrir komast ekki að til að senda hinstu skilaboðin til sinna nánustu. Þessi persóna er vel þekkt öllum sem þekkja sjálfseinblínda vísindamenn og háskólakennara.

Samræðunar í myndinni eru líka hnitmiðaðar og fátt ofsagt. Einn karlinn kemur til annars og segist vera að biðjast afsökunar. Eftir langa þögn spyr hinn: „Var þetta afsökunarbeiðnin? Ég tek hana til greina“. Þetta gæti allt saman verið í Íslendingasögu og eins er upplýsingum skammtað tiltölulega rólega til okkar. Verkefni geimfarsins er að ná til sólarinnar — þess vegna heitir það Íkarus — og skjóta á hana sprengju til að koma henni í gang og færa mannkyninu framhaldslíf. Þetta feiknarmikilvæga verkefni hefur finnst og fremst þann frásagnartilgang að það er fjarska mikið undir og jafnvel smæstu mistök manna geta haft grafalvarlegar afleiðingar og eyðilagt allt. Verkefnið er í sjálfu sér ekki trúverðugt en það skiptir ekki máli því að það sem okkur er sýnt er hugrekki persónanna, glíman við innilokunina og auðvitað erfið innbyrðis samskipti þeirra. Sams konar hugrekki, glíma og flókin samskipti setja einmitt svip sinn á Íslendingasögunum og þó að framtíð mannkyns sé ekki í húfi er samt enginn vafi á að það er mikið í húfi í sögunum. Kannski er aðalatriðið hvað er í húfi í huga hins einstaka manns.

Bent hefur verið á að allar persónur myndarinnar trúa á eitthvað sem er ólíkt stærra en þær sjálfur. Það er þeim nauðsynlegt í þessu afar erfiða umhverfi en líkt og gerist með mannkynið okkar núna hefur hvert og eitt þeirra valið á mismunandi hátt og þau eru því æði sundurleitur hópur. Þó að persónurnar verði allar geðveikar að lokum (það er næstum óhjákvæmilegt í þessum þrúgandi aðstæðum) einkennist myndin líka af trú á hið meingallaða mannkyn og hún er því á sinn hátt bjartsýn og kannski óður til þess sem við getum þó og þess erfiða hlutskiptis okkar að vera smáar örverur í stórum geimi.

Next
Next

Fornsögurnar og bókmenntagreinar