Kerfið og stúlkan

Mér þótti ástæða til að horfa aftur á Netflix-þáttinn Unbelievable um daginn og ef þið sáuð hann ekki fyrir fimm árum, þá er hann vel þess virði (jafnvel tvisvar). Þátturinn fjallar annars vegar um stúlku sem var nauðgað en vegna þess að veilur fundust í framburði hennar en aðallega þó vegna þess að hún var vandræðaunglingur og ekki fórnarlamb að smekk laganna varða ákvað lögreglan (tveir karlkyns rannsóknarlögreglumenn) að trúa henni ekki. Hún var göbbuð til að draga framburð sinn til baka og í kjölfarið ákærð fyrir rangar sakargiftir og ofsótt af kerfinu. Saga hennar er hörmuleg og minnir stundum á breska ruddaraunsæið eða dapurlega þáttinn Maid, hvert einasta skref leiðir til frekari glötunar og ömurðar og öll von jafnan kæfð í fæðingu. Þessi veslings stúlka heitir Marie og saga hennar er því miður nokkurn veginn sönn; hún er ein þeirra fjölmörgu sem varð fyrir grimmilegri árás og fann ekki fyrir neinum stuðningi kerfisins í kjölfarið.

Víkur þá sögu að tveimur löggum sem eru hvor í sínu lagi að glíma við mikilvirkan nauðgara og ákveða að sameina rannsókn sína þar sem mannfýla sú ber greinilega ábyrgð á miklum fjölda árása. Önnur löggan er dæmigerð sunnudagaskólastúlka sem vill gera allt rétt og láta öllum líka við sig og sem vinnur alltaf heldur meira en þarf og allt samkvæmt reglum; við þekkjum öll þessa kennaratýpu. Hin er eldri og kæruleysislegri týpa sem er stórfenglega leikin af sjálfri Toni Collette (komin langt frá Muriel). Þessar tvær konur eru fjarri því að vera fullkomnar en ekki heldur óþægilega vanhæfar og þess vegna eru þær hetjur sem hægt er að halda með, enda byggðar á tveimur raunverulegum kvenkyns löggum sem leystu sams konar flókið nauðgunarmál og réttu þar með m.a. við heiður stúlku sem lögreglan hafði brugðist svívirðilega.

Saga með þremur safaríkum kvenhlutverkum er ekki á hverju strái jafnvel í nútímanum en Unbelievable er slík saga og þetta er allt fjarska óþvingað þar sem hún er grundvölluð á raunverulegum atvikum. Skúrkur sögunnar er auðvitað nauðgarinn en raunar ekki síður löggurnar sem stimpluðu stelpuna sem lygalaup, Parker og Pruitt. Parker er raunar tvívíð persóna, að lokum þjakaður af sektarkennd og fús til að biðjast afsökunar. Hann gerði skelfileg mistök vegna fordóma sinna og kerfisins en a.m.k. er hann ekki samviskulaust fúlmenni. Auk þess koma margar góðar löggur við sögu við hlið aðalkvennanna tveggja, bæði karlar og konur, eins og þrenningin sem við sjáum að neðan, venjulegt fólk á ýmsum aldri og af ýmsum kynþáttum. Allt þetta gerir þáttinn mennskari og hjálpar okkur að finna til með öllu þessu fólki, jafnvel bróður nauðgarans sem áttaði sig ekki á glæpum hans.

Hversu algengt er að átta þátta Netflix-syrpur haldi dampi alla leið? Því miður ekki og Unbelievable ögrar forminu jafnvel með því að leysa málið í sjöunda þætti þannig að lokaþátturinn snýst alfarið um líðan kvennanna þriggja eftir þetta allt. En jafnvel slíkur „eftirmáli“ virkar algerlega vegna þess að áhorfendur langar sannarlega til að heyra meira um þessar konur, jafnvel í annað sinn. Mikilvægast er að stúlkan Marie fær leiðréttingu sína mála með aðstoð sniðugs lögfræðings og að lokum jafnvel afsökunarbeiðni sem hún þarf þó beinlínis að sækja. Lokaorð hennar við löggurnar eru „Do better“ og þau eru sannarlega mikilvæg ábending fyrir kerfið sem raunar stendur sig þó eflaust talsvert betur núna en fyrir nokkrum áratugum.

Unbelievable stóðst annað áhorf með glæsibrag og þar sem ég sá þáttinn upphaflega allnokkru áður en ég hóf að skrifa á þessa síðu fannst mér ég skulda honum örlitla greinargerð. Horfið á þær stöllur og jafnvel aftur ef þið sáuð hann líkt og ég fyrir fimm árum.

Next
Next

Gamanvísnaþáttur