Hadesarheimar
Snemmsumars horfði ég á tvo sjónvarpsþætti sem fjölluðu um unglingafangelsi. Íslendingar eru frekar lítið fyrir að geyma unglinga í slíkum stofnunum og ekki reynist heldur alltaf vel að safna þeim saman í von um betrun. Ísraelski þátturinn Yald ra’a (Bad Boy á ensku) gerist í slíku fangelsi og hefur verið vinsæll í heimalandi sínu. Mér fannst hann góður en þó ekki endilega við mitt skap; kannski aðeins of sjálfsævisögulegur til þess. Aðalpersónan er miðaldra uppistandari að rifja upp ár sín í unglingasteininum sem voru sannarlega harður heimur en þar lærði hann að bjarga sér með gríni og eftirhermum. Í þættinum er mikið flakkað milli tímasviða, sagðar sögur og leiknar til skiptis og þetta er allt háþróað og sniðugt en truflaði mig frekar í að ná tengslum við persónurnar, einkum þar sem margar þeirra hverfa snögglega eftir að hafa náð athygli manns. Í fyrsta þætti myrða unglingafangarnir einn þann geðþekkasta úr hópnum og ég næstum hætti að horfa.
Sársaukafullt var að fylgjast með persónunum ítrekað lenda í vandræðum vegna þess að þær eru ófærar um að tala saman eða segja frá, hróp og köll og ofbeldi koma í staðinn og stundum var ég ekki viss um að mig langaði til að fylgjast með smáglæpamönnum, fíklum og dómgreindarlausu fólki eyðileggja líf sitt þó að það sé sannarlega raunveruleiki og þannig séð áhugavert. Hinn ísraelski húmor er líka undirfurðulegur og ég hafði sterklega á tilfinningunni að ég væri að missa af ýmsu. Uppistandsatriðin úr nútímanum eru greinilega ágæt í réttu samhengi sviðsins en þó fremur til truflunar þegar þungamiðja þáttarins er annarstaðar. Þó er margt vel gert í þessum metnaðarfulla sjónvarpsþætti, einkum þegar ungu leikararnir fá að spreyta sig, t.d. yngri leikarinn sem fer með aðalhlutverkið, Guy Menaster, en líka Havtamo Farda og Ben Sultan. Ég veit ekki hvort ég á að dæma augljóslega metnaðarfullan þátt út frá mínum smekk en hefði þegið meiri tryggð við einingarnar þrjár.
Ef marka má þáttinn er ísraelska stemmingin greindarleg og launfyndin en sú ítalska er aftur á móti dramatísk og tilfinningahlaðin. Það er því ekki alveg sami listræni framúrstefnumetnaður í hinum ítalska Mare fuori sem fjallar þó um svipað þema en er eiginlega hálfgerð sápuópera og kannski ekki síst það síðara þótt ekki sé sungið nema stöku sinnum. Fyrst eru búnar til sæmilega áhugaverðar persónur og síðan þróast þær sennilega nokkuð eftir því hvað áhorfendur vilja (a.m.k. munu einhverjar aukapersónur hafa hækkað í tign vegna viðbragða áhorfenda) en samt finnst mér þátturinn minna ýktur og aðeins nær raunveruleikanum (án þess að ég þekki þennan tiltekna veruleika). Stundum er vel heppnuð afþreying betri en alvarlegri tilraunir sem ekki ganga fullkomlega upp. Hér er lýst svipaðri eineltismenningu og í ísraelsku unglingafangelsunum þar sem nýir fangar (busarnir) eru lagðir í linnulaust einelti fyrir það eitt að vera nýir og þurfa að taka sig á eða farast. Sjónarhornið er í fyrstu hjá tveimur þeirra, Carmine og Filippo. Carmine er af glæpafjölskyldu í Napólí en hafði ætlað sér að halda sig frá glæpum þó að það sé vonlaust mál vegna áreitnimenningar hans heims. Hann gjörþekkir þessa árásargjörnu og eitruðu menningu en á óvini í steininum ættingja sinna vegna þó að aðstoðarfangelsisstjórinn taki ástfóstri við hann og ekki veitir Carmine af liðveislu hans, miðað við allt sem á honum dynur.
Filippo aftur á móti er píanóleikari frá Mílanó (og kallaður „chiattillo“ sem Netflix þýðir alltaf sem „dude“ á ensku en ég trúði aldrei á þá þýðingu og hún virðist stórvarasöm) sem kann engan veginn að hegða sér innan um glæpaunglinga — enda kann hann ekki einu sinni að búa um rúmið þegar hann kemur í steininn —, gerir allt skakkt og mistekst að afla sér virðingar. Hinir vanræðaunglingarnir eru afar leiðinlegir við hann og verðirnir koma aldrei fyrr en of seint þegar verið er að leggjast á greyið (sem endar uppi aleinn grátandi í sturtunni eins og sést á myndinni fyrir ofan). Eineltið er viðstöðulaust en samt þannig að erfitt er að taka á því, svipað og í raunveruleikanum þar sem dólgarnir gæta þess iðulega að halda sig réttumegin við það strik sem kallar á aðgerðir þannig að Filippo og hinn samúðarfulli áhorfandi eru iðulega á barmi örvæntingar. Síðan eignast businn þó bæði falska en að lokum raunverulega vini þarna inni fyrir utan Carmine, fyrst hinn söngelska Cardiopart sem hefur áður hangið með krimmunum án þess að vera í raun einn af þeim og eftir að tónlistargyðjan hefur sameinað þá Filippo færir hann sig yfir í hans friðsælla vinagengi ásamt hinum barnslega Sasa. Næstur í hópinn er hinn tryllingslegi Pino sem var upphaflega hvað verstur við Mílanóstrákinn en snýr við blaðinu í syrpu 2 þegar lausung kemst á valdahlutföllin innan fangelsisins. Þar að auki verður hin þjófótta en tónelska Naditza ástkona Filippos þó að hún hafi miklar áhyggjur af því að hún muni aldrei þykja nógu fín fyrir hann utan hinnar lokuðu veraldar unglingafangelsisins fyrir utan auðvitað að Filippo er svo hændur að Carmine að það er ekki létt að keppa við þá vináttu.
Af því að Filippo er persóna sem fólk sem aldrei hefur þótt kúl sjálft og hefur lítið dvalið í fangelsum (s.s. ég) á auðvelt með að tengja sig við er þátturinn áhugaverður furðu lengi. Carmine er kannski ívið meiri týpa eins og gaurinn sem Ben McKenzie lék í The OC forðum nema að leikarinn er ekki alveg jafn augljóslega eldri en 25. Milli þeirra skapast smám saman sterkt og einlægt samband sem heldur þættinum uppi meðan það varir. Erkibandíttinn Ciro er líka eftirminnileg persóna sem að vísu hverfur úr þáttunum eftir fyrstu syrpuna á mjög dramatískan hátt og undir ofurepískri tónlist. Þessi mikli andstæðingur verður svolítið eins og Roy Batty undir lokin. Þar fyrir utan er mikill fjöldi aukapersóna í bæði stráka- og stelpuálmu fangelsisins, kannski jafnvel full margar miðað við tímann sem er fyrir hendi þó að vissulega sé reynt að gera þær allar þrívíðar, jafnvel að lokum óþolandi strákinn sem fyrsta þriðjunginn af syrpunni hefur engin önnur persónueinkenni en að æpa allt sem hann segir eins og kjáni. Þar sem persónurnar þurfa allar sitt pláss fer stundum æði mörgum sögum saman í senn og margar aukafléttur eru kynntar sem ná kannski ekki að verða mjög áleitnar hver fyrir sig þó að færa megi rök að því að þær eigi sinn stað í stærri mósaíkmynd um samfélag sem leiðir unglinga á glapstigu.
Hvað einkennir þá þetta samfélag? Ja, eiginlega líkist Mare fuori ekki síst okkar eigin Íslendingasögunum fyrir utan að ítalski stíllinn er ívið málugri og kannski ættu ítalskir höfundar sem hafa áhuga á glæpaunglingum að stela öllum helstu plottum sem liggja nánast óhreyfð í þessum miðaldatextum okkar tiltölulega fáum til gagns því að það væri án efa léttara að staðfæra mörg þeirra til Napólí nútímans fremur en okkar ríka velferðarsamfélags og sagnaheimurinn í Mare fuori væri auðtúlkanlegur t.d. með hliðsjón af frægri grein Anderssons um Gísla sögu. Carmine er þá Gísli Súrsson sem er fastur í úreltu siðferði fortíðarinnar eða kannski enn frekar eins og Njálupersóna sem dregst óviljug inn í nokkurn veginn endalausa blóðhefndakeðju þar sem engar bætur nægja og hefndin vokir stöðugt yfir. Allan tímann veltir hann ítrekað fyrir sér hinum mikla fórnarkostnaði hefndarinnar sem er þó í blóði hans og allri félagsmótun.
Sögupersónur þessarar Napólísögu líkjast íslenskum unglingum á 8. og 9. áratugnum kannski ívið meira en krökkum í Reykjavík nútímans, t.d. með því að eignast börn á táningsaldri og verður ekki annað sagt en að fríin úr unglingafangelsinu séu nýtt vel. Ítalir eru líka ólíkt opinskátt dramatískari en norrænir menn en kannski er það kostur þáttarins, a.m.k. fyrir okkur sem eru með Ítalíublæti eftir að hafa álpast þangað einu sinni. Í öllu falli er Mare fuori vel heppnaður þáttur, meðan Filippo og Carmine eru báðir enn á sviðinu.