Rjómaískeisarinn

Það er ögn vandræðalegt að segja frá því að ég hef lengi ruglað saman ljóðskáldinu Wallace Stevens (1879–1955) og samtíðarmanni hans, leikaranum Wallace Beery. Þeir eru vitaskuld báðir bandarískir sem sjást á því að þeir heita fornafni sem er í raun eftirnafn enda Bandaríkjamenn búnir að má brott öll skil milli fornafna- og eftirnafnaforðans. Vonandi heimtar ekki einhver íslenski kverulantinn næst að fá fornafnið Sigurðsson á mannanafnaskrá. En Wallace var haldið að mér nýlega (það er fjarska gefandi að eiga ljóðelska vini, segi ég án íróníu) og ég las mér til um hann, sá að hann var frá Pennsylvaníu, menntaður í Harvard og lengst af ævinnar tryggingasali í Connecticut. Alþjóðlega er Stevens engan veginn jafn frægur og þeir Pound og Eliot (Pund og Eljótur í ljóði Dags) en í Bandaríkjunum þykir hann jafn þeim hjá þeim sem bestan hafa smekkinn. Frægasta ljóð hans fjallar um ískeisarann (“The Emperor of Ice-Cream”) en við lásum tylft annarra ljóða. Er skemmst frá því að segja að þó að tryggingasalinn hafi alls ekki verið mjög ljóðrænn að sjá er hann þegar orðinn eitt af mínum eftirlætisljóðskáldum á enska tungu.

Það er kannski ekki auðvelt að skýra hvers vegna en Stevens er fjölbreytt ljóðskáld. Sum ljóða hans eru eins og litlar sögur með engum lýsingarorðum. Önnur eru eins og ritgerð eftir Heidegger. Sum eru fyrst og fremst myndræn. Stevens hefur risavaxinn orðaforða og ekki annað hægt en að hrífast með skáldi sem treystir sér að nota orðið „hullabaloo“ í ljóði en raunar fellur Stevens líka vel við mörg frönsk orð, t.d. „equipage“ og „rendezvous“. Þess á milli getur hann hins vegar skapað andrúmsloft í ljóði með eintómum stuttum orðum og einföldum setningum eins og í hinu dásamlega ljóði „The House was Quiet and the World was Calm“ sem kannski er hans besta. Hann á sem sagt býsna marga strengi á sinn boga og notar til skiptis af mikilli fimi, líkt og hann sé Legolas ljóðskálda Connecticut. Líkt og á við um önnur skáld sem ég hef kynnst nýlega er ekki annað hægt en að dást að frumleikanum í orðavali og nákvæmninni (oftast nær). Hver annar en Wallace gæti skellt fram setningum á borð við „inanimate in an inert savoir“ eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Við lásum aðeins tylft ljóða en þar tókst Stevens þó að nefna þrjú Bandaríki og hugsanlega eru öll 48 nefnd í ljóðum hans. Eitt af þeim er Tennessee þar sem skáldið segist hafa komið fyrir krukku einni og ríkið er ekki samt og áður, með krukkunni fremur en án. Bæði hér og víðar kemur fram að Stevens er hreinastur og beinastur skálda í að trúa á reynsluna og skynjunina og ein lykilhugsun hans er að það sé engin merking heldur eingöngu merkingar sem eru huglægar, eins og hann segir beinlínis í „Bouquet of Roses in Sunlight“ sem hefst vissulega á rósum en fer síðan að breytast í rökgreiningarheimspeki svipaða og þá sem við lásum hjá Þorsteini í MS forðum daga. Ekki veit ég hvort skógar- og fuglalykt er af öllu í Tennessee en sannarlega er þetta áhrifamikið myndmál. Stevens rímar þegar honum sýnist. Í ljóðinu „Peter Quince at the Clavier“ er hann einkum með hugann við biblíusöguna um Súsönnu í baðinu og öldungana en þar rímar hann villt á milli þess sem ljóðið er eins og eftir eitt atómskáldanna.

„The Plain Sense of Things“ er eitt af áhrifamestu ljóðum Connecticutskáldsins. Þar eru vissulega stórfengleg orð en líka tiltölulega einföld mynd af húsi í niðurníðslu. Stevens segir þar „the absence of the imagination had Itself to be imagined“ og með því á hann sennilega við að ímyndunin er altumlykjandi og hin einfalda merking er kannski ekki til. Stevens hefur kjark til að segja „a repetition in a repetitiousness“ og kemst upp með það; hann er mikill orðameistari og ég fullur aðdáunar. Hvað er þessi túrban að gera í ljóðinu? gæti einhver spurt. En myndin sem hann kallar fram stangast skemmtilega á við það sem síðan kemur: 50 ára gamall reykhálfur sem er byrjaður að bogna. Í einu af frægustu ljóðunum, „The Snow Man“ sviðsetur Wallace sig sem hlustanda í snjónum sem sér „Nothing that is not there and the nothing that is“, þversagnakennd fullyrðing sem í fyrstu fær mann til að halda að hann hafi lesið yfir sig af Heidegger og Husserl en samt dregur þversögnin fram ákveðna merkingu sem snýst um huglægnina.

Stundum er mikill gáski í Stevens, t.d. í ljóðinu hér að ofan þar. sem hann hrúgar saman orðum þegar hann ver ljóðið fyrir trúnni. „Poetry is the supreme fiction“ gæti hljómað oflátungslega en setningin sleppur þegar hann bætir „Madame“ við og síðan fáum við orð af orði, hrúgu af orðum, jafnvel „tink and tank and tunk-a-tunk-tunk“ sem ég mana ljóðgreinendur til að fá eitthvað út úr en merkingin er þó alveg skýr. Hann telur ljóð betur sett en trúna þar sem það sé „bawdiness, unpurged by epitaph“ (orð með „bawd“ í eru vinsæl hjá Wallace). Sama gáska má finna í „Thirteen Ways of Looking at a Blackbird“ þar sem hann skemmtir sér með rökleiðslum í anda Lewis Carroll á borð við „I was of three minds, /Like a tree /In which there are three blackbirds“ sem gengur röklega upp — óhjákvæmilegt er að bera svarta fugla hans saman við Ted Hughes en Hughes vantar ansi margt sem Stevens hefur, t.d. gáskann. Stevens segir líka „A man and a woman /Are one. /A man and a woman and a blackbird / Are one“ og ekki auðvelt að skýra það en mér datt í hug að hvers vegna ættu þrír ekki að geta verið einn, ef tveir geta verið það.   

Stevens velur ljóðaheitin vel, sum þeirra gætu verið heiti á rokkhljómsveit (það hlýtur að vera til ein slík sem heitir „Interior Paramour“, sbr. ljóðið að ofan). Þetta er eitt af rökleiðsluljóðum hans þar sem ljósið er þó greinilega fulltrúi einhvers sem kemur í stað fyrri reglu (kannski ímyndunaraflsins sem Stevens gælir stundum við að gera að guði sínum). Þetta er sama skáld og hóf feril sinn á að yrkja: „Wherever they went, / They went clattering, / Until they swerved, / In a swift, circular line, / To the right, / Because of the firecat.“ Þetta er einföld ljóðmynd af törfum sem fælast kött en raunar er eldköttur ekki til svo að eitthvað hlýtur hann að tákna. Mörg skáld kunna að heilla meira við fyrstu sýn, en magnaður er Stevens sannarlega þegar maður fer að hugleiða hann.

Previous
Previous

Unglingabókin á Íslandi 80 ára

Next
Next

Ekki fyrir hvíta frelsara