Ekki fyrir hvíta frelsara

Þegar ég fékk James í afmælisgjöf í júlí hafði ég aldrei heyrt um bandaríska höfundinn Percival Everett en hann er fæddur 1956. James er 36. skáldverk hans og hlaut Pulitzerverðlaunin í ár. Ég veit ekki hvort gefandinn mundi eftir þessari grein en ekki get ég neitað áhuga mínum á Stikilsberja-Finni sem líklega reis einna hæst þegar þessi þáttur var sýndur í sjónvarpinu haustið 1982 en þar túlkuðu þýskir og kanadískir leikarar þessa frægu Missouri-búa Marks Twain. Auðvitað mundi ég vel eftir þrælnum Jim og þegar ég reyndi að lesa 19. aldar skáldsögu Twains á ensku var tal hans það sem einkum hindraði lestur vegna sérkennilegs málfars hans sem kemur sannarlega einnig við sögu í endurritun Percival Everett á þessari gamalkunnu sögu þar sem hann snýr öllu á hvolf. Söguhetjan er ekki Stikilsberja-Finnur í þetta sinn heldur þrællinn og saga hans en hann talar þrælamál í anda Twains við hvítt fólk þó að hann hafi talsvert meiri orðaforða. Í bókinni er þetta tungumál beinlínis fundið upp af þrælum til að blekkja hvíta manninn og sín á milli tala þeir venjulega ensku.

Fyrst í stað fylgir sagan nokkurn veginn því sem ég mundi eftir úr forveranum nema að sjónarhornið er annað og hvítu þrælahaldararnir eru óvinurinn, allir sem einn. Það eru engir „hvítir frelsarar“ eða „bandamenn“ í þessari sögu þó að þar séu meðvirkir og kúgaðir þrælar. Sláandi er „vinnuveitandi“ einn sem segist vilja Jim í vinnu sem frjálsan mann en það er samt eins konar vinnuþrælkun (kannski dæmi um það sem síðar gerðist í Bandaríkjunum). Jim lætur aftur á móti ekki kúga sig enda bæði læs og skrifandi og hefur lengi verið að stela bókum frá dómaranum í sögunni. Bækurnar eru greinilega tákn frelsisins í hans huga þó að hann sé virkur lesandi og tekur ekki allt gilt sem (aðallega hvítu) höfundarnir segja honum. Flótti hans er líkt og í upphaflegu sögunni eftir Twain æsispennandi en það er meira undir og í raun er það ekki Finnur sem er að bjarga Jim heldur öfugt og raunar nokkrum sinnum. Þess á milli þarf hann að bjarga sjálfum sér úr ýmsum óyndislegum aðstæðum

Þar sem ég var forvitinn um Everett eftir lesturinn sá ég að meðal annarra bóka hans eru Erasure (2001) og I am Not Sidney Poitier (2009) sem glíma við áhrif kynþáttuhyggju á einstaklinga í nútímanum. James lýkur á uppreisn enda getur endirinn ekki verið öðruvísi. Jim heldur áfram að komast undan hvítu þrælahöldurunum og öllu samfélagi þeirra og er að lokum frjáls en hann var alltaf frjáls í anda. Þetta er heimspekileg, háðsk og þrælpólitísk saga og hluti af uppreisninni er að hún er skemmtileg aflestrar þannig að það er ekki hægt að afgreiða hana sem boðandi einvörðungu (gamla lamað „vinstrimenn hafa engan húmor“ klisjan) þótt sýn hennar sé sannarlega skýr og afhjúpar fleira en Mark gamla Twain. Sjónarhornið sem deilt er á nefnilega enn ráðandi í okkar heimshluta og við sjáum það á hverjum degi í opinberri orðræðu. James er aldeilis ekki aðeins bók um 19. öldina og löngu liðið þrælastríð heldur um annað frelsisstríð sem enn stendur og sér ekki fyrir endann á.

Next
Next

Síldir Harlans