Unglingabókin á Íslandi 80 ára
Elsta dæmið sem ég hef rekist á um orðið „unglingasaga“ í titli bókar er frá árinu 1941 og ekki er útilokað að höfundurinn Stefán Jónsson hafi fyrstur notað þetta (Vinir vorsins). Elsta íslenska dæmið sem ég fann um orðið „unglingabók“ í bókartitli er hins vegar bókin Adda trúlofast, gefin út árið 1952 en höfundarnir voru Jenna og Hreiðar Stefánsson. Þau ráku á þeim tíma smábarnaskóla á Akureyri og Adda trúlofast var sjöunda og seinasta bókin í vinsælum bókaflokki um ættleiddu læknisdótturina Öddu (Agnes Þorsteinsdóttir heitir hún fullu nafni). Öddubækurnar sjö (1946–1952) voru ekki unglingabækur upphaflega heldur barnabækur en þróuðust í átt að unglingabókum með því að fylgja söguhetjunni til unglingsára og hið sama átti við um Toddubækur Margrétar Jónsdóttur sem eru nokkru yngri (1951–1955). Þær voru alls fjórar og báru undirtitilinn: Saga fyrir börn og unglinga (áður og síðar notaði Ragnheiður Jónsdóttir svipaða undirtitli fyrir bækur sínar um Dóru og Völu og síðar um Kötlu; sú fyrsta heitir raunar fullu nafni Dóra: saga fyrir unglinga og kom út árið 1945). Hvorugur bókaflokkurinn er kyngreindur sérstaklega en söguhetjurnar voru stúlkur og líklegt er að stúlkur hafi verið uppistaða lesendahópsins: að minnsta kosti bendir óformleg könnun mín til þess að konur fæddar frá 1935 til 1950 séu fúsar að játa á sig lestur Öddu- og Toddubókanna en karlmenn af sömu kynslóð gera það aðeins treglega. Eitthvað sannar þetta en nákvæmlega hvað læt ég liggja milli hluta. Ég játa hér og nú að ég las Öddubækurnar þegar ég var strákur og meira að segja oft enda var ég í Langholtsskóla þar sem Jenna og Hreiðar kenndu og því hægt að réttlæta lestur slíkra stelpubóka með heilbrigðu afbrigði af þjóðerniskennd, svokallaðri hverfiskennd.
Þessi upptalning hér að framan hefur væntanlega þegar minnt rækilega á þá kunnu staðreynd að árin 1941–1960 voru tíðindamikil í sögu íslenskra unglingabókmennta (eins og fræðast má af bók Silju Aðalsteinsdóttur, Íslenskar barnabækur 1780–1979). Ég ætla hins vegar að velja bókina Adda trúlofast sem dæmi um íslenskar unglingabókmenntir þessara tíma, vegna þessa forvitnilega undirtitils sem ég held að hún beri fyrst bóka, „unglingabók“. Það er vitaskuld áhugavert að þessi fyrsta unglingabók er ekki beinlínis sprottin af þörf höfundanna til að skrifa unglingabækur, þvert á móðir er hún eðlilegt framhald af fyrri bókum þeirra um Öddu sem voru barnabækur. Það var eiginlega sjálfgert að Adda yxi úr grasi og lesendur fyrstu bókanna þriggja hafa eflaust átt talsverðan þátt í að Jenna og Hreiðar ákváðu að fylgja sögu hennar eftir, þau skrifuðu líka aðrar bækur á þessum tíma (Sumar í sveit og Bræðurna frá Brekku). Þau höfðu sent Öddu til Ameríku eftir að hún lærði að synda, kannski í von um að losna alfarið við hana, en svo kemur hún heim aftur og fer í kaupavinnu og síðan í menntaskóla.
Sagan Adda í menntaskóla er ekki kölluð unglingabók á titilsíðu en það er hún vitaskuld. Adda er orðin sextán ára og í þessari bók verður hún ástfangin af framtíðareiginmanni sínum (eða það vonum við að minnsta kosti, Adda giftist hefur enn ekki birst á prenti). Þrátt fyrir að Adda sé heilsteypt og nánast ónæm fyrir skuggahliðum unglingsáranna er hún ekki alveg laus við unglingaveikina, eins og fram kemur í einni setningu í bókinni: „Mamma hennar ávítaði hana fyrir, hve löngum tíma hún eyddi fyrir framan spegilinn, er hún greiddi hár sitt“ (Adda í menntaskóla, Rvík 1951, bls. 76). Meira gerir Adda ekki af sér í þessari bók, hún er sannkallaður fyrirmyndareinstaklingur þegar hér er komið sögu (öllu meira ber á glímu hennar við sjálfa sig í fyrri bókunum). Átökin í bókinni snúast fremur um þann heim sem hún býr í, í Reykjavík verður hún til að mynda vör við allmikla stéttaskiptingu sem snertir hana djúpt. Raunar verður hún líka að horfast í augu við eigin fordóma gagnvart auðmannsdótturinni Ernu en henni ofbýður íburðurinn á heimili hennar þegar hún kemur þangað fyrst. Þó reynist Erna traust og sönn vinkona og óspillt af dekrinu heima.
Mikilvægasta persóna bókarinnar fyrir utan Öddu sjálfa er hinn hávaxni og dökkjarphærði Páll læknanemi sem Adda kynnist þegar hann tekur að sér afleysingakennslu í menntaskólanum. Eins og allir sem hafa lesið Öddubækurnar muna einkennast þær af taumlausri dýrkun á læknastéttinni og störfum hennar sem ef til vill endurspeglar hug Öddu sjálfrar, hún hafði verið yfirgefin í bernsku og síðan ættleidd af lækni og hjúkrunarkonu sem hún nánast tilbiður síðan. Fyrstu kynni Öddu og Páls eru raunar mjög óheppileg. Óknyttadrengir í bekk Öddu hafa látið lím á stól afleysingakennarans (líf afleysingakennara hefur sem kunnugt er aldrei verið einfalt) og Adda hyggst þurrka það af stólnum þegar kennarinn kemur inn. Hann grunar hana um verknaðinn og lætur hana setjast í límið. Í stuttu máli er hér komin upp efni í íslenskt eftirstríðsáratilbrigði af Hroka og hleypidómunum en Páll er raunar fljótur að þvo af sér Darcy-áruna sem hann kann að hafa í þessu fyrsta atriði, strax í sama kafla biður hann Öddu afsökunar. Síðan birtist hann nokkrum sinnum í bókinni og er þar mjög yfirþyrmandi, þrátt fyrir að hann sé í bakgrunni. Það er þó fyrst í næstu bók sem Adda gerir sér grein fyrir eigin tilfinningum til hans. Þar er því lýst hvernig Páll hertekur líf hennar. Hún fjarlægist vini sína og jafnvel foreldra og að lokum játast hún Páli strax eftir stúdentspróf og hyggst halda með honum erlendis í nám. Lýsingin er raunsæisleg og jarðbundin, eins og Adda yfirleitt. Mig minnir að ég hafi ekkert kunnað neitt sérstaklega vel að meta þessa bók þegar ég var strákur en þegar hún er lesin á ný verður því ekki neitað að þetta er falleg ástarsaga og Jenna og Hreiðar ná vel utan um hversu vandræðalegt hinni annars kjarkmiklu Öddu finnst allt sem tengist Páli. Það skapar svo skemmtilega tvöfeldni að Adda er ekki aðeins hugfangin af Páli heldur einnig af læknastarfinu. Aldrei höfðar Páll meira til hennar en þegar hann býr til fatla á hana eða þegar hún aðstoðar hann við að gera við alvarlega skaddaðan fót á sjómanni. Eins og segir í sögunni: „hún varð að viðurkenna fyrir sjálfri sér, að þessi tilfinning til Páls hafði síður en svo rénað, eftir því sem hún kynntist honum betur og sá hversu heill og óskiptur hann var í hinu ábyrgðarmikla læknisstarfi“ (Adda trúlofast, Rvík 1952, bls. 62). Gæti Adda elskað mann sem ekki er læknir? Óneitanlega virðist það ekki spilla fyrir.
Öddubækurnar stóðu föstum rótum í íslenskum raunveruleika. Líf Öddu var á sinn hátt spennandi (eins og störf lækna gátu verið á þessum tíma, áður en mammon hertók stéttina) og jafnvel ævintýralegt en ekki framandi. Sögurnar um Öddu eru raunsæjar en hafa jafnframt ýmis einkenni afþreyingabókmennta, til dæmis það að hetjan er heldur betur gerð en venjulegt fólk, hún er manneskja sem hægt er að líta upp til og sem vinnur vel úr öllum þeim erfiðleikum sem að henni steðja. Jenna og Hreiðar skrifuðu ýmsar fleiri bækur þar sem hetjunum farnaðist ekki alveg svona vel en Öddubækurnar urðu sennilega vinsælastar vegna þess að þær höfðu eitthvað af eðli hetjusagna í sér, þó að raunsæjar væru.
Ýktari var flokkur ungstúlknabóka um bandarísku stúlkuna Beverly Gray (þetta heiti finnst á baksíðu einnar þeirra, Beverly Gray í gullleit). Tólf bækur um Beverly komu út á íslensku frá 1944 til 1951, á vegum bókaútgáfunnar Norðra – þetta er sama tímabil og Öddubækurnar komu fyrst út. Það er ástæða til að nefna að þetta er á sama tíma og bandarísk áhrif eru að ryðja sér til rúms hér á landi og lesa má Beverly sem hluta af þeirri bylgju þó að rétt sé að geta þess að bækurnar eru á vandaðri íslensku og þýðandi flestra þeirra raunar skagfirskur sósíalisti, Kristmundur Bjarnason (sem einnig þýddi flestar Fimmbækur Enid Blyton). Beverly Gray er ólíkt ævintýralegri en Adda en þó ekki ósvipuð undir niðri. Hérna er henni lýst: „Bráðlyndið var eini gallinn á lundarfari hennar, en hversdagslega var hún góð og gæf. Hún hafði tekið í arf frá móður sinni þýtt og töfrandi viðmót og næma réttlætistilfinningu, og frá föður sínum óbilandi kjark og glaða glettni. En undir niðri var hún ófyrirleitin og brellin, og þessi galli á skapgerð hennar náði stundum tökunum og leiddi til þess, að hún gerði eitt eða annað í bráðræði, sem hana iðraði jafnskjótt sárlega“ (Clarie Blank, Beverly Gray nýliði, Akureyri 1944, bls. 13). Hinn dularfulli höfundur Beverly Gray bókanna er oftast kölluð Clarie Blank á bókarkápunum en ég fæ þó ekki betur séð en að hún hafi heitið Clair Blank (1915–1965). Höfundur er ófeiminn við að túlka Beverly Gray rækilega ofan í lesendur og hér má strax sjá skýran mun á Beverly og Öddu; þó að Jenna og Hreiðar séu ekki haldin neinni lýsingarorðafælni er hér hlaðið meiru í eina efnisgrein en tíðkast hjá þeim. Samt eru þær Adda ekki ósvipaðar persónur þegar stíllinn er skafinn af.
Ólíkt Öddu er Beverly nítján ára þegar hún hefur nám í Vernonskólanum og sögurnar um hana gagngert skrifaðar sem „ungstúlknabækur“, þær eru ekki saga af barni sem síðan fullorðnast og verður unglingur – unglingabækur fyrir stúlkur eru sumsé komnar til Íslands áður en Jenna og Hreiðar nota orðið „unglingabók“ á seinustu Öddubókina. Sögurnar um Beverly Gray eru líka raunsæjar á yfirborðinu, á þann hátt að þær gerast í okkar tíma og okkar heimi. Þær eru á hinn bóginn mun fjarlægari hversdagslegri reynslu lesendahópsins en Öddubækurnar. Adda er að vísu fyrirmynd en Beverly er ofurkona og það sést strax í fyrstu bókinni. Í fyrstu köflunum virðist hér á ferð dæmigerð skólasaga (og sá er rammi bókarinnar sem lýkur á að Beverly Gray er hyllt af forstöðukonu skólans fyrir öll afrek sín, svipað og stundum gerist í bókunum um Harry Potter og þetta heyrir til skólasagnabókmenntagreininni yfirleitt). Um miðbik sögunnar hefjast hins vegar æsileg ævintýri (það segir sína sögu að heilir tveir kaflar í bókinni heita „björgun“). Fyrst er Beverly rænt af einsetukonu og síðan bjargar hún sjálf herbergisfélaga sínum Shirley Parker úr voveiflegum eldsvoða. Hún og vinkonur hennar bjarga Shirley raunar líka frá óæskilegum elskhuga sem mun vera á höttunum eftir auð hennar – því að Beverly og vinkonur hennar eru yfirstétt Nýja-Englands. Þar með er ekki allt talið upp, ég fann lista á netinu um helstu ævintýri Beverly. Hún týnist í óveðri (oft), er ógnað með byssum (oft), verður á vegi soltins bjarndýrs, læsist inni á háalofti, lendir í flugslysi, er rænt af sígaunum, fellur í vök á ísilagðri tjörn, er ranglega handtekin, lendir í bílslysi, lendir í skipsskaða (það er enginn öruggur samgöngumáti þegar Beverly er annars vegar), verður á vegi soltins ljóns, sogast í hringiðu, lendir í fellibyl, verður á vegi soltins hákarls, verður á vegi soltins tígrisdýrs, er rænt af sjóræningjum, lendir í jarðskjálfta, er skotin, er sprengd í loft upp, er rænt af mannætum — ég er aðeins búinn að telja upp það sem kemur fyrir Beverly í fyrstu tíu bókunum (alls urðu þær 25 á frummálinu) en læt staðar numið. Þetta er allt ólíkt stærra í sniðum en í Öddubókunum en þó má ekki gleyma að Adda lendir líka í ýmsum ævintýrum sem eru þó trúverðugri og nær íslenskum veruleika.
Adda þroskast talsvert í bókaflokk sínum en lítið ber á því hjá Beverly Gray. Svo virðist líka sem draumar Beverly um að gerast rithöfundur séu fremur til skrauts en þungamiðja sagnanna. Í Beverly Gray fréttaritara (Kristmundur Bjarnason þýddi, Akureyri 1947) situr Beverly þannig með ferðaritvélina sína og skrifar „en gekk illa og tætti sundur blöðin og fleygði, eins langt og hún dró“ um leið og hún kvartar við móður sína að hafa enga lífsreynslu: „Hvernig má ég læra af reynslunni ... Hér gerist aldrei neitt“ (bls. 6), en það verður raunar að teljast úrdráttur miðað við upptalninguna hér að framan. En eins og hendi sé veifað skjóta upp kollinum tvær vinkonur og síðan er haldið til New York í leit að ævintýrum. Raunverulegur áhugi Beverly á ritstörfum er ekki meiri en þetta heldur er árangur á þessu sviði mikilvægur fyrir þá framakonu sem Beverly er, eins og allar vinkonur hennar úr Alfadeltafélaginu. Bókin nær hámarki þegar Beverly fangar bíræfinn þjóf sem hefur dulbúið sig eins og frægur vísindamaður, að vísu hefur hann trassað að hylja ör á kinninni sem Beverly af skarpskyggni sinni hafði tekið eftir að vísindamaðurinn var laus við. Í lokin nær Beverly að síma blaði sínu frásögn af þessum þjóf og mannræningja, það gerist hálftíma eftir að hún hefur bjargað hinum raunverulega vísindamanni úr klóm þjófsins og úr þessu má lesa ágæta kenningu um ritstörf: þau ganga furðu greiðlega ef frá nógu er að segja, og eftir þessu lifir höfundur Beverly Gray bókanna raunar sjálf. Ég held þó að Öddubækurnar hafi verið sannferðugra veganesti fyrir lækna framtíðarinnar en bækurnar um Beverly Gray fyrir upprennandi rithöfunda og fréttaritara. Þegar betur er að gáð reynist lítið raunsæi í bókunum um Beverly, þær eru hreinræktuð ævintýri þó að þær gerist í heimi sem líkist okkar heimi. Sjálfsagt hafa þær þó notið þess að Bandaríkin voru framandi land fyrir mörgum Íslendingnum fyrir sextíu árum. Raunar er enn talsvert auðveldara að trúa því að þar séu raðmorðingjar á hverju strái en á tilvist sambærilegra kóna hér á Íslandi.
Enginn vafi er á því að lesendahópur Öddu og Beverly Gray var nánast sá sami og það hafa lesendur beggja raunar staðfest við mig. Þessir lesendur gátu í senn farið í menntaskóla með Öddu og í gullleit með Beverly. Munurinn er þó allnokkur á þeim gildum sem boðuð eru og auðvitað í jarðnándinni. Adda er jarðbundin hetja sem stefnir ekkert hærra en að verða nýtur samfélagsþegn og mestu hetjurnar í Öddubókunum eru læknar sem þjóna samfélaginu og fórna eigin frítíma og leggja sig í hættu til að rækja það hógværa hlutverk. Þar eru einnig ótal hversdagshetjur sem ekkert meira hafa afrekað en að vera gott og heiðarlegt fólk. Beverly Gray er aftur á móti yfirlýst ævintýrakona sem langar raunar til að gerast rithöfundur en smám saman (einkum þegar á líður bókaflokkinn) ná ævintýrin yfirhöndinni yfir skriftirnar, þeim virðist mega rubba af á hálftíma eftir að Beverly hefur handsamað þjófa og mannræningja. Á hinn bóginn verður það ekki tekið af Beverly Gray bókunum að þær færðu íslenskum unglingsstúlkum kvenhetju. Beverly og vinkonur hennar láta sér ekki nægja að vera góðar eiginkonur eða fórnfúsar mæður heldur stefna á frama á eigin forsendum og það voru sterk og nýstárleg skilaboð árið 1944.
Segja má að Öddubókunum sé einum þræði stefnt gegn bókunum um Beverly Gray, með því að vera spennandi og aðgengilegar en samt í skýrari tengslum við hlutskipti lesendahópsins. Þó að flestir bernskir lesendur hafi séð í gegnum þá fantasíu sem Beverly Gray bækurnar eru auðvitað þegar betur er að gáð þá má samt reikna með að íslenskum höfundum (eins og Jennu og Hreiðari, og eins Margréti Jónsdóttur, höfundi Toddubókanna) hafi þótt full þörf á að segja sögur sem væru spennandi og átakamiklar (dramatískar) en stæðu samt nær íslenskum veruleika en Beverly og að það sé ein hvötin á bak við sögurnar. Unglingabækur eru sem sagt ekki nýtt fyrirbæri. Ég hef hér rifjað það upp að ritun þeirra stóð í blóma fyrir 80 árum og ekki síst bóka fyrir ungar stúlkur. Illu heilli er lítið um sambærilegar bækur nú á dögum þannig að táningsstúlkurnar verða að gera sér Lindsay Lohan og High School Musical að góðu. Ekki er þetta í sjálfu sér neitt verra efni en bækurnar um Beverly Gray. Ef lestur er mikilvægur og gagnlegur er hins vegar nauðsynlegt að unglingar lesi og mikilvægt að góðir rithöfundar reyni að keppa svolítið við erlendu afþreyinguna en á sínum eigin forsendum, eins og segja má að Jenna og Hreiðar hafi gert.
(Erindi, upphaflega, haldið í Gerðubergi vorið 2008)