Gamanvísnaþáttur
Kennari minn í Háskóla kenndi okkur eitt sinn vísuna að neðan í minningu Einars Ólafs Sveinssonar, þess merka fræðimanns. Eins og auli hef ég þó átt erfitt með að muna annað úr henni en rímorðin og því gladdist ég við að finna hana prentaða á tímaritavef Landsbókasafnsins, besta vef Íslands. Í vísunni er fyrst og fremst einn fimmaurabandari sem snýst um að Einar Ólafur notaði ekki „anakrónískt“ heldur „anakrónt“ þegar hann ræddi tímaskekkjur með grískum tökuorðum. Allir kækir, taktar og sérkenni foreldra, kennara og annarra yfirburðamanna verða smám saman heittelskaðir af þeim sem fylgja í fótspor þeirra. Þess vegna er vísan fyndin fyrir alla sem þekktu EInar Ólaf en líka okkur sem aldrei kynntumst honum nema gegnum texta hans (sem ég sjálfur hef raunar lesið oftar og betur en flestir) en skiljum samt fyrirbærið fyndinn kennari — hvort sem kennarinn er óvartyndinn eða ekki; sennilega fer það kennurum enn betur að vera óvartfyndnir en viljandi.
Ég lærði ósköpin öll af textum í íslenskunáminu, m.a. með aðstoð Tummu kukku, söngbókar íslenskunema, þetta var áður en ég varð gamall og gleyminn [eða „búinn að brjóta og týna“ eins og við íslenskumenn segjum, eða hugsanlega „Nú kem ég eigi lengur fyrir mig því kvæði“; jafnvel þegar maður fer að gleyma öllu er betra að vera íslenskumenntaður en ekki). Annar kennari fór með vísuna um Sigurð Skúlason magister sem hafði ruglað saman tjöru (teer) og te (tee) í gamalli þýskri heimild og þótti þetta svo fyndið að Jón Helgason orti um það vísu sem líka finnst á tímaritavefnum. Vísan auðvitað kallar á þekkingu á guðspjöllunum en á mínum skólaárum kunnu þau allir enn. Það var beinlínis til skólafagið biblíusögur þegar ég var í barnaskóla (ég fékk alltaf 10) og enginn talar um glataða syni eða að leyfa börnunum að koma til manns án þess að ég viti hvaðan það kemur; kom meiraðsegja kollega mínum úr jafnvægi einu sinni með því að benda honum á að það er ekki bara Jesú sjálfur heldur líka postularnir sem eru kallaðir „ljós heimsins“ í hinni helgu bók.
Þessar tvær vísur ættu alveg að vera nóg fyrir einn netpistil en Páll heitinn Skúlason rektor nefndi alltaf þrennt í sínum forspjallsvísindatímum sem ég sótti hjá honum vorið 1991 og því fann ég eina til á sama vef. Hún var stundum endurtekin á Skólavörðustígnum þar sem ég var tíður gestur í bernskunni og snerist um ofnotkun Péturs Jónssonar ráðherra (1858–1922) á orðinu „princip“ sem svipar til orðsins sem Einar Ólafur notaði. Aldrei kom þá fram að hún væri eftir Andrés Björnsson sem bjó árum saman hjá langafa mínum og langömmu.
Ég skelli með fjórðu vísunni af því að aldrei eru of margar vísur birtar á vefsíðu sem snýst um bókmenntir. Pabbi heitinn lék eitt sinn á hagmæltan kunningja sinn sem síðar varð forseti alþingis en sá varpaði þessari vísu fram og lét svo um mælt að enginn gæti numið hana í einum grænum en pabbi kunni hana reyndar fyrir. Pabbi þóttist hins vegar ekki kunna og bað hann að endurtaka þriðju línu og fór svo með alla vísuna eins og hann hefði lært hana á staðnum og féll vinurinn fyrir þessari blekkingu. Pabbi sagði okkur síðan þessa sögu sem skýrt dæmi um snjalla blekkingarlist í besta Hávamálaanda og þá lærðum við (að lokum) vísuna. Vísan er auðvitað aðallega gott dæmi um hversu uppteknir Íslendingar voru af innrími og stuðlum fyrir einni öld eða svo.