Menningarskrásetning Ásdísar

Síðastliðin 20 ár hefur Ásdís Thoroddsen kvikmyndagerðarmaður verið að skrásetja íslenska þjóðmenningu á fallegan, ófyrirsegjanlegan og iðulega hnyttinn hátt og ný kvikmynd hennar Frá ómi til hljóms er afar áhugaverð og skemmtileg viðbót við þetta mikilvæga höfundarverk hennar. Þessar myndir hafa ekki endilega slegið í gegn, sennilega vegna þess að Ásdís hugsar sjálfstætt og mætir ekki með snyrtilegar innpakkaðar klisjur eins og sumir kollegar hennar. En mig grunar að þær muni verða langlífar og ekki síst sem heild, tilbrigði við íslenska þjóðmenningu og menningararf eins og fólk nálgaðist hann í upphafi 21. aldar.

Myndir Ásdísar fjalla aldrei eingöngu um menningararfinn heldur ekki síður um nútímamenn sem sinna honum af ástríðu: fræðimenn, hugsjónamenn, áhugamenn og stundum einfaldlega fólk með blæti. Allmargir slíkir birtast í Frá ómi til hljóms og það eru ekki síst þessir nútímamenn sem lifa og hrærast í menningararfinum sem mér finnst hafa alla burði til að vekja áhuga erlendis. Þetta er ákveðið úrtak af Íslendingum sem eru ekki endilega þeir dæmigerðustu eða mest áberandi en efnið er allt svo skemmtilega og fallega íslenskt.

Frá ómi til hljóms hnitast um hin miklu umskipti í íslenskri tónlistarsögu sem urðu milli 1840 og 1900 og kjarni hennar er Sveinn Þórarinsson amtsskrifari (1821–1868) sem ég hafði áður kynnst fyrst og fremst sem hinum látna föður Nonna en Sveinn lét eftir sig dagbækur með allnokkrum skrifum um tónlistarflutning og þau nýtir Ásdís fjarska vel í myndinni með aðstoð myndlistarmanns. Það er margt snjallt við myndina og útfærslan iðulega launfyndin en einkennist þó af mikilli virðingu fyrir efninu, bæði sjálfum arfinum og iðkendum hans í nútímanum.

Mér líkar vel við allar myndir Ásdísar en alveg sérstaklega vel við Frá ómi til hljóms vegna þess hversu mikilvægt efnið er og kannski líka vegna þess að sjónum er beint að 19. öldinni sem var bæði besta og versta öldin í Íslandssögunni og hefur enda alltaf vakið mikinn áhuga minn. Hún var líka umbrotaskeið í tónlistarsögunni. Hið fræga gullaldartónskáld Dana C.E.F. Weyse komst til Íslands meðal annars með Pétri Guðjohnsen organista Dómkirkjunnar og gamall söngur vék svo rækilega fyrir nýjum að við höfum þurft að uppgötva þann forna arf síðan. Laumuleg aðalpersóna í sögunni er síðan Þingeyingurinn menningarríki, manngerð sem átti einmitt sitt blómaskeið á síðari hluta 19. aldar þegar flautandi smalar voru skoppandi um þingeyska árbakka.

Previous
Previous

Gamanvísnaþáttur

Next
Next

Gamall Sveinki í nýjum búningi