Samfélagslæknir 19. aldar
Sigmund Freud var einn áhrifamesti fræðimaður 20. aldar og eðlilega enn umdeildur vegna langvarandi áhrifa sinna. En hvort sem hann er í tísku meðal fræðimanna eða ekki er hann orðinn menningarhetja af því tagi sem dregur ævinlega til sín sagnafjöld og því ekki óvænt að allnokkur hópur rithöfunda hafi tekið hann til handargagns sem skáldsagnapersónu og hið sama gildir um aðra frumkvöðla sálfræðinnar. Ég var á öldinni sem leið frekar handgenginn Caleb Carr (1955–2024) sem skrifaði söguna The Alienist (1994) sem nú er orðinn sjónvarpsþáttur. Þar er það sálfræðingurinn Dr. Laszlo Kreizler sem leysir málin með aðferðum sálfræðinnar og hliðstæða hans er Max Liebermann sem Frank Tallis (f. 1958) skrifar um, alls sjö skáldsögur sem birtust frá 2005 til 2018 en danska sjónvarpið DR sýndi þætti gerða eftir þeim í ársbyrjun og heita þeir Vienna Blood. Aðalhlutverkið er í höndum hins snoppufríða Matthew Beard sem er samt hæfilega skuggalegur og dularfullur.
Liebermann starfar með lögreglumanninum Rheinhardt sem í fyrstu er afar tortrygginn á hinar nútímalegu aðferðir en sálfræðingurinn vinnur hann til fylgis við sig með ályktunum sem minna svolítið á Sherlock Holmes enda er sögutíminn sá sami og þegar Holmes var og hét í Lundúnum og margir tóku Vienna Blood sem eins konar tilbrigði við þáttinn Sherlock með Benedict Cumberbatch þó að ólíkt honum sé Vienna Blood algerlega í fortíðinni og sviðsetningin raunar glæsileg. Einnig kemur kærasta Liebermanns Clara við sögu en hún er þjökuð af því að Liebermann hefur mun meiri áhuga á sakamálum en því að spjalla við hana. Lögregluforinginn er iðulega ósannfærður um hinar djörfu tilgátur unga læknisins en lætur yfirleitt segjast að lokum og stendur ekki í vegi fyrir hinu ágæta pari. Þá er Liebermann við nám hjá prófessor sem hefur ekkert álit á symbólisma Freuds en vill helst lækna sem flesta með rafmagni eins og gert var við stóra stráka á upphafsdögum Bubba.
Tallis er greinilega gegnsósa af skáldskap og þættirnir eru troðfullir af bókmenntaminnum sem gera flest atvikin stundum einum of kunnugleg; stöku gagnrýnanda finnst þáttinn minna á parodíu og sannarlega flýtur blóðið í þáttunum. Samt hefur hrifning á þáttunum verið almenn, hann nær að vera alvarlegur þrátt fyrir allan póstmódernismann. Fyrsta fórnarlambið er miðill og síðan beina Liebermann og Rheinhardt sjónum að rasískum morðum (sem koma vitaskuld við kaunin á gyðingnum) þannig að það eru heilmörg verðug umræðuefni sem fengist er við. Hið auðuga tónlistarlíf Vínarborgar kemur við sögu og vitaskuld hinar fögru hallir þessara glæstu höfuðborgar.
Ég gæti trúað að þættirnir ynnu á við kynni eins og algengt er, svipað og Morse á sínum tíma. Liebermann er ævinlega búinn að fá hugboð um morðingjann löngu áður en sönnunargagna hefur verið aflað og glæpirnir eru margir kynferðislegir sem fellur vel að auknum áhuga nútímans og vitund um að víða liggi fiskur undir steini í þeim málaflokki, Þátturinn gerist á tímum þar sem ásakanir kvenna eru iðulega hunsaðar og Liebermann verður þar fulltrúi nútímalegra viðhorfa án þess að það verki sérstaklega ótrúverðugt en atburðarásin sjálf er stundum ansi glæfraleg og annað hvort Liebermann eða Rheinhardt er bjargað frá bráðum bana oftar en talið verði áður en glæpamaðurinn fellur, oftast á hinni mannlegu þörf fyrir að segja sögu sína.