Í gildru óblíðra örlaga
Kiran Desai (f. 1971) er dóttir hins fræga rithöfundar Anitu Desai — sem mig dauðlangar núna til að lesa líka — og flutti ung til Bandaríkjanna. Hún er því sú tegund þriðjaheimsbúa sem víðsýnir vesturlandabúar eru helst tilbúnir að hlusta á, þeir sem eru beinlínis komnir hingað og inn í kerfi hinna ríku. Hún hefur aðeins samið þrjár skáldsögur og fengi því seint náð fyrir augum Samtaka skattgreiðenda; ekki fremur en Arundhati Roy sem skrifar endalaust í blöðin og semur engin skáldverk (tvö á 30 árum) en er öfugt við Desai ekki flutt frá Indlandi og er kannski heldur jákvæðari gagnvart heimalandinu. Ég las eina af þessum þremur um daginn, hina margverðlaunuðu The Inheritance of Loss. Það var mögnuð reynsla þó að bókin höfðaði ekki að öllu leyti til mín; til þess snýst þessi saga of mikið um niðurlægingu og auðmýkingu. Ég velti því á köflum fyrir mér hvað Indverjum í Indlandi finnst um brottfluttan höfund sem lýsir þeim á svona grimman hátt þó að yfirleitt sé ég ekki handgenginn hinni ævisögulegu rannsóknaraðferð.
Í The Inheritance of Loss er greint frá fjórum aðalpersónum: gömlum dómara í Gujarat, dótturdóttur hans, kokkinum á heimilinu og syni kokksins í Bandaríkjunum. Þessi fjögur verða fulltrúar fyrir stöðu Indverjans í heimi þar sem nýlendustefnan er fjarri því að vera fortíðin einber. Sagan gerist við rætur Himalayafjallanna árið 1986 og bakgrunnurinn er sjálfstæðishreyfing Gorkha eða indverskra Nepala sem fannst þeir jaðarsettir við sjálfstæði landsins árið 1947. Aðalpersónan Sai verður ástfangin af kennara sínum en hann er af Gorkhakyni og það truflar sambandið illa. Afi hennar fyrirlítur kokkinn sem er fulltrúi hinna fátækustu. Sonur hans er í Bandaríkjunum og þykist lifa ævintýrið um að slá í gegn í hinum stóra heimi en í raun er hann kúgaður og niðurbrotinn innflytjandi sem allir pönkast á. Þetta er mikil kúgunarsaga og ekki er auðvelt að finna persónu í bókinni sem er ekki fullkominn fangi aðstæðna sinna. Hér forðum var vinsælt meðal höfunda að lyfta upp persónum en afhjúpa þær smátt og smátt; persónur Desai eru aftur á móti afhjúpaðar strax og maður vonar eiginlega að þær verði reistar við en af því verður ekki. Þó að sögunni sé líst sem sögu gleði og örvæntingar varð ég ólíkt meira var við hið síðarnefnda. Eiginlega var hún svolítið yfirþyrmandi á köflum. Ég ber virðingu fyrir þessari bók en ég naut þess ekki að lesa hana.
Stíll Kiran Desai er fágaður og ekki skortir þar ljóðrænu. Þetta er afar nútímalegur stíll og minnir á ýmsa vinsæla skáldsagnahöfunda seinustu fimmtíu ára en Desai hefur sterkari tök á honum en flestir. Ég veit stundum ekki alveg hvað mér á að finnast um hann, sjálfur alinn upp við að stíll eigi helst að vera sem ósýnilegastur. Desai er mikið fyrir refhvörf og þverstæður af ýmsu tagi. Helsta ástarsamband sögunnar verður illa fyrir barðinu á þessum stíl og fjarlægðin við báða aðila of mikil til að ég gæti lifað mig inn í það þó að ég hefði í fyrstu bundið vonir við að ástin yrði ljósi punkturinn í verkinu. Ekki þyki ég rómantískur höfundur sjálfur og hef jafnvel verið skammaður fyrir af lyrískum dömum en miðað við Desai er ég Jónas. Kannski ætti aldrei að vera þægilegt að lesa bók sem fjallar um skömm, niðurlægingu og kúgun en mér fannst bókin að einhverju leyti fórnarlamb eigin miskunnarlausu sniðugheita. Samt lýkur henni á fallegri setningu um fjöllin í fjarskanum sem jafnvel mætti segja að færði lesendum von en kannski er það of seint.