Útvegir og listir

Eins og venjulega eru fræðibækur Hins íslenska Bókmenntafélags meðal þess ófeigasta í þessu jólabókaflóðið. Þó að hið íslenska samfélag sé ekki stórt og tungumálið sameign fárra er enn hægt að gefa út vandaðar íslenskar fræðibækur á prenti, ekki síst þegar til eru 209 ára gömul félög að verulegu leyti rekin í sjálfboðastarfi. Núna verður seint sagt að sjávarútvegur sé vinsælasta atvinnugreinin í heimi fjölmiðlanna seinustu áratugi þó að hann hafi aftur á móti haldið lífi í þjóðinni öldum saman. Það er tímabært að fá fleiri vönduð fræðirit um þessa mikilvægu en umdeildu atvinnugrein og tveir vísindamenn hafa nú sett saman ritið Sjávarútvegur Íslendinga 1975–2025. Í þessu fyrra bindi um sögu sjávarútvegs Íslendinga síðustu 50 árin er fjallað um starfsumhverfi og stjórnsýslu sjávarútvegsins. Jafnframt er rætt um stofnanir sjávarútvegs, hafréttarmál og alþjóðlega samninga og kjara- og verðlagsmál. Þetta einstaka verk um sögu og þróun sjávarútvegsins verður sjálfsagt mikið í umræðunni næstu misserin.

Jón Trausti var líklega vinsælasti skáldsagnahöfundur Íslendinga fyrstu ár 20. aldar en þó að allir hafi lesið verk hans á sínum tíma er saga hans kannski ekki öllum vel kunn. Líkt og mörg önnur þekkt skáld á þeim tíma gekk hann undir höfundarnafni en hét í raun Guðmundur Magnússon og var prentari sem andaðist í spænsku veikinni aðeins 45 ára að aldri. Um hann skrifaði Halldór Laxness á sínum tíma: „Jón Trausti, Guðmundur Magnússon frá Hrauntanga í Öxarfjarðarheiði, stendur mér fyrir hugskotssjónum sem einn mestur undramaður að verið hafi í íslenskri sagnasmíð fyrr og síðar.  Allir vetur mínir heima eru tengdir minningunni um nafn þessa manns og verka hans.“ Í bókinni Höfundur verður til: Frá Guðmundi Magnússyni til Jóns Trausta fjalla átta fræðimenn og rithöfundar um fjölbreytt höfundarverk Guðmundar Magnússonar, ljóð, leikrit, skáldsögur og ritgerðir og varpa ljósi á uppruna hans, umhverfi og æviferil.

Jón Trausti var þekktur meðal Íslendinga á sínum tíma en sama máli gegndi ekki um myndhöggvarann Guðmund Elíasson (1925-1998) sem Bókmenntafélagið beinir nú kastljósinu að með nýrri bók eftir Aðalstein Ingólfsson. Þetta er saga einstaks myndlistarmanns sem ruddi brautir í íslenskri höggmyndalist en hvarf síðan að mestu úr sviðsljósinu. Verk hans og ljósmyndir af glötuðum verkum í bókinni varpa ljósi á óvenjulegan listamann og tímann sem hann lifði.

Meðal annarra bóka Bókmenntafélagsins er Kosningafræðarinn: Kjördæmaskipan og aðferðir við úthlutun sæta eftir Þorkel Helgason og Jón Kristinn Einarsson. Kosningafræðarinn veitir heildaryfirlit yfir aðferðir við úthlutun sæta að loknum kosningum, svo sem í sveitarstjórnum eða á þjóðþingum en einnig í persónukjöri. Jafnframt er fjallað um fyrirkomulag kjördæmaskipanar. Ritið kemur einnig út í öllu ítarlegri vefútgáfu. Eftir Sigurjón Árna Eyjólfsson er bókin Abstraktmálverkið: Helgimynd íslenskrar menningar á 20. öld og Kristján Steingrímur Jónsson sendir frá sér listaverkinu Fyrir handan liti og form. Þá endurútgefur Bókmenntafélagi rit Sigurðar Líndal um stjórnspeki Snorra Sturlusonar og nýjasta lærdómsrit Bókmenntafélagsins er Allt um ástina eftir bell hooks (1952–2021) sem þar með bætist í hóp Kant, Hegel, Nietzsche, Tolkien og Sartre og fleiri andlegra risa sem eiga verk í þessari ritröð.

Next
Next

Samfélagslæknir 19. aldar