Milgram og grímurnar
Kannski hefur mér verið spillt undanfarið af sjónvarpsþáttum um gott fólk sem kemur siðlega og vel fram hvert við annað því að það tók mig góða stund að sætta mig við það hversu endalaust ömurlegar annars tiltölulega geðþekkar söguhetjur bandaríska sjónvarpsþáttarins Overcompensating eru ítrekað af litlu tilefni eða aðallega vegna þess að þær eru í eitruðu umhverfi sem hvetur til skítlegrar hegðunar, endalausra svika, lyga, hræsni og sýndarmennsku sem minnir mann stöðugt á allar bandarísku tilraunirnar frá sjöunda áratugnum sem sönnuðu að röng félagsmótun breytti fólki í skrímsli. Sögusviðið er bandarískur háskóli, aðalpersónurnar eru 19 ára en andlega 15-16 þó að þær líti út fyrir að vera 28-29 ára. Aðalpersónan Benny er íþróttamannslegur og fallegur á óeftirminnilegan hátt. Hann langar mikið til að falla í hópinn og vera „valinn í liðið“ (ég var aldrei „valinn í liðið“ en var löngu búinn að sætta mig við það á þessum aldri) þó að hann sé innst inni öðruvísi og þó að hann kynnist tvíburasál sinni Carmen á fyrsta degi er hann stöðugt að svíkja hana til að sýnast. Eins verður hann fljótlega yfir sig hrifinn af hinum breska Miles en vegna sýndarmennskunnar er Benny lengi frekar fjandsamlegur og hálfpartinn ruddalegur við Tjallann af ótta við að upp komist um leynilegar þrár hans. Þá eru í þættinum allnokkrar aukapersónur sem einnig koma meira og minna ömurlega fram allan tímann en þetta er samt allt hið vænsta fólk inn við beinið.
Þegar líður á þáttinn fer maður að átta sig á að það sé líklega einmitt konseptið í þættinum: eitruð amerísk háskólamenning er ekki endilega vondu fólki að kenna heldur tiltölulega vænu fólki sem hefur ekki verið alið upp af snjöllum foreldrum og hefur einfaldlega ekki sjálfsöryggi til að vera það sjálft og leikur þess í stað hlutverk sem kalla á að það sýni hvort öðru fólsku og óheiðarleika. Fyrir utan aðalleikarann og höfundinn Benito Skinner er hinn góðlátlegi Adam DiMarco úr Hvíta lótusblóminu í mikilvægu hlutverki sem kærasti systur Benny, einn eitraðasti persónuleikinn af þeim öllum, þó ekki vegna illmennsku heldur vegna þess að hann stendur höllum fæti en þráir samt að vera leiðtogi og falla sem best að öllum samfélagsviðmiðum og virðist líta á vinsældir sem eina siðferðislögmálið. Sem betur verður þróun í þættinum og fólk fer að verða eðlilegra og skárra hvert við annað a.m.k. öðru hvoru og kannski er það punktur þáttarins að það sé hægt að þroskast frá gervimennskunni og eitruðu karlmennskunni og öllu hinu. Benny og mágurinn skána þannig talsvert, a.m.k. tímabundið, við að finna réttu manneskjuna og komast í betra samband við eigið sjálf þó að áfram sé minnimáttarkenndin dragbítur á hegðun þeirra.
Þar sem ég er gamall fretkarl er samúð mín einkum með kennurunum í þættinum sem þurfa að þola tilvistarangist þessara rígfullorðnu unglinga sem alltaf snýst um eitthvað allt annað en hinn augljósa tilgang háskóla sem ætti að vera að læra eitthvað. Aukaplott er að Benny mun vera frá Idaho og þar með sveitalubbi sem kann æði fátt fyrir sér í avanseruðum samskiptum. Þannig að í miðri þáttaröð tekur Carmen að sér að fleyta Benny inn í nýtt hlutverk í stíl myndarinnar Pretty Woman sem mér fannst fyndið þrátt fyrir allar klisjurnar og háöldruðu brandarana. Kannski vegna þess að aðalleikararnir hafa þrátt fyrir allt eitthvað karismatískt og ekta við sig. Fyrir utan að aðalpersónan ræðir reglulega við Megan Fox sem hann hefur á veggspjaldi inni hjá sér sem hluti af blekkingarleiknum og það er líka fyndið, einnig herbergisfélagi hans sem er afar skandinavískur og frjálslegur í háttum. Almennt séð eru bandarískar gamanmyndir bestar í einsatriðisaukapersónum og t.d. þótti mér fyndinn gaurinn sem er stöðugt að kynna sig með því að hann sé skyldur Amöndu Knox og eins grófi 13 ára strákurinn Terry6969 sem er stöðugt að birtast lykilpersónunum óvænt gegnum tölvuleiki.
Á einhvern hátt nær Overcompensating að vera með fingurinn á púlsinum þó að þetta sé mestmegnis alvörulaust grín. Þátturinn nær líka að vera sérkennilega einlægur undir slikju kaldhæðninnar. Kannski er þetta einmitt nútíminn: því meiri kaldhæðni, því meiri einlægni, og því meiri harka, því meiri mildi. Adam DiMarco er snillingur í þessari sérkennilegu þversögn sem viðkvæmi en samt eitraði strákagengisforinginn Peter sem er ekkert nema gervimennskan en gervið er samt svo lélegt að það er varla hægt að kalla það gervi. Og þegar snúið er aftur til þorpssamfélagsins í Idaho í næstseinasta þættinum kemur í ljós jafnvel enn grynnra og harðara eineltissamfélag þar sem Benny er tilbeðinn sem guð en þó ævinlega í dulargervi á meðan systir hans hefur verið hötuð í áraraðir fyrir að vera hún sjálf (áður en hún fer í háskóla og í gervi). Sú eineltismenning í kartöfluríkinu skýrir augljóslega hvers vegna Benny þarf að fara huldu höfði í nútímanum. Fyrst fannst mér þessi þáttur eiginlega óþarfur vegna þess að Benny hefur andað frá sér þessari fortíð allan tímann en hann reynist hafa afar margt til að bæta fyrir, einkum tengt félaga sínum Sammy (leikinn af Lukas Gage úr Hvíta lótusblóminu), sem hann og gerir rækilega.
Það er hægt að velta fyrir sér afturhaldssömum vindum í Bandaríkjunum og Evrópu um þessar mundir í ljósi þessa þáttar (einkum Idaho-útúrdúrsins) sem virðist með það á hreinu sem ég hef lengi vitað þar sem ég er eldri en tvævetur og man gleymdar skoðanir jafnaldra minna óþægilega (fyrir þá) vel að það hefur aldrei orðið neitt „bakslag“ nema í fjölmiðlum heldur urðu samfélögin einfaldlega aldrei frjálslynd í heilu lagi heldur aðeins hlutar þeirra og nú vill íhaldssami hlutinn (misstór eftir löndum) endilega hafa orðið af því að honum finnst að hinir hafi fengið að tala of mikið. Ég er svo bjartsýnn að halda að það geri raunar ekkert til því að á endanum standa íhaldsöflin ekki fyrir neitt sem eftirsjá er að og eru dæmd til að bíða ósigur að lokum.