Brísingamen útnárans

Enn lifir hinn háaldraði Alan Garner (f. 1934) sem samdi sitt fyrsta skáldverk um tvítugt innblásinn af þjóðsögum frá Cheshire þaðan sem hann er ættaður. Líkt og heitið á skáldsögunni, The Weirdstone of Brisingamen (1960), bendir til var hann einnig undir áhrifum frá norrænni goðafræði og ég hef eðlilega lengi verið forvitinn um bækur hans en þær hefur þó aldrei rekið á fjörur mínar. Nú í sumar las ég aftur á móti grein um Garner í London Review of Books og þar sem afmæli mitt var þá framundan og aldrað fólk þarf helst að vera sjálfbært um gjafir ákvað ég að gefa sjálfum mér þrjár bækur Garners og þær bárust í tæka tíð til að skemmta mér á afmælinu.

Almennt er litið á fantasíur Garners sem barnabækur en ég hef nægt sjálfstraust til að lesa slíkar á almannafæri og auk heldur er drjúgur hluti yfirlýstra barnabóka aðeins bækur sem eru hæfilega aðgengilegar með söguþræði en engu klámi og kynlífi. Fyrsta bók Garners nær þrátt fyrir allan einfaldleika að skapa andrúmsloft sem er óhugnanlegt og óþægilegt. Í heimi Garners sem er afskekkt sveit og eins konar hliðarveröld við hið raunverulega Cheshire (með svipuðum örnefnum) eru galdrar og þjóðsögur raunveruleiki og ógn fyrir fólk sem álpast í kynni við annarsheimsverur. Garner nýtir sér tvær grundvallaraðferðir Tolkiens til að skapa þann anda: annars vegar er sjónarhornið hjá þeim valdalitlu og takmarkað af þeirra þekkingu (söguhetjurnar Colin og Susan eru þar að auki aðkomumenn) en á hinn bóginn þeytir hann í lesendur fjölda örnefna og nafna á verum iðulega án skýringa þannig að þeir finna fyrir sömu vanmáttartilfinningu og persónurnar. Flest eru þau heiti sótt í velsku og norrænu, áfram að sið Tolkiens. Enn fremur er sagan að uppistöðu háskalegur leiðangur þar sem reynir líkamlega og andlega á persónur, líkt og í báðum Miðgarðsskáldsögum Tolkiens en ferðirnar liggja þó í ýmsar áttir á meðan hjá Tolkien er ferðin í raun ein í báðum bókum.

Að öðru leyti eru þeir Tolkien og Garner andstæður fremur en hliðstæður og meginmunurinn er sá að Weirdstone einkennist af óreglu þjóðsögunnar en ekki hinni fílólógísku reglu sem þrátt fyrir allt mótar höfundarverk Tolkiens. Í því felst kannski mesta uppreisn Garners gegn lærimeistaranum og um leið varð þessi andi lykill að hylli hans meðal ýmissa gagnrýnenda (Philip Pullman er t.d. mikill aðdáandi) og lesenda; Garner er þannig vissulega undir áhrifum gömlu Oxfordmannanna en engin eftirherma. Garner sendi síðan frá sér framhaldsbókina The Moon of Gomrath (1963) en neitaði lesendum um „þríleik“, helstu klisju fantasíugreinarinnar, allt fram til ársins 2012 (þá kom út Boneland) heldur bjó til aðra furðuheima og eina af þeim bókum, The Owl Service (1967), las ég líka á afmælinu, fullur aðdáunar á Garner sem kom öllu þessu í verk yngri en ég var þegar ég samdi mína fyrstu útgáfuhæfu skáldsögu.

Garner hefur sterka tilfinningu fyrir landslaginu og náttúrunni og skrifar af miklum þrótti sem hefur hrifið Philip Pullman og fleiri. Eins tala ýmsar persónur hans skringilega mállýsku. Ég ætla auðvitað ekki að rekja söguþráð hér en söguhetjur Weirdstone og Gomrath eru systkinin (e.t.v. tvíburarnir) Colin og Susan sem eftir því sem á líður verða nánast eins og erkitýpur og sagan öll nánast goðsagnakennd eftir því sem þau komast í nánara samband við sína yfirmannlegu krafta. Krakkarnir í The Owl Service eru eldri og milli þeirra flókin fjölskyldu-, vina- og vinnutengsl sem virkar vel og gerir bókina annað og meira en sama graut í sömu skál. Þar er Garner farinn út í beinu ræðuna og allt púðrið fer í hvernig fólk talar. Eins er okkar heimur ekki yfirgefinn. Ég er ekki fyrsti gagnrýnandinn sem finnst Garner hvað bestur þegar hversdagslegur raunsæisheimur og göldróttur handanheimur renna saman í eitt eða það blæðir úr öðrum inn í hinn. Garner hefur líka bæði hugmyndaflug og stíl fram yfir marga aðra fantasíuhöfunda og nýtur sín best þegar hann nær að stilla saman hinu hátíðlega og ofurhversdagslega. Sjálfur segist Garner hafa gerst höfundur á flótta undan öðrum störfum og ég get tekið undir að það er stundum ívið meira yin en yang í bókum hans.

Previous
Previous

Æskan og miðaldurinn

Next
Next

Milgram og grímurnar