Strokufangar og skipakóngar

Hinn danski Anders Refn er þekktur fyrir að kvikmynda sögur raunsæisskáldsins kaldhæðna Gustavs Wied og fyrir að nota leikarann og fv. Evrópuþingmanninn Jens Okking (1939-2018) mikið í myndum sínum og sjónvarpsþáttum. Um jólin seinustu endursýndi danska sjónvarpið þættina Einu sinni lögga sem íslenska sjónvarpið sýndi árið 1993. Ég horfði á þá aftur ekki síst til að prófa þá kenningu mína að ég skilji dönsku núorðið jafn vel og íslensku og þurfi því ekki texta og var sú enda raunin. Flétta þáttanna er aftur á móti afar flókin enda snýst hún um glæpagengi, strokufanga, eiturlyf og spillingu í Kaupmannahöfn nútímans, raunar nokkru áður en ég kom þangað fyrst. Um leið er þar gjörnýtt efni sem varð Arnaldi síðar drjúgt um þreytta og vel miðaldra löggu sem á fullorðna dóttur sem hefur blandast inn í glæpi og eiturlyf. Kraftmikið einkennislag þáttarins í dúndrandi 9. áratugar takti hét „Sjæl í flammer“ og er flutt af Kasper Winding sem er reyndar stjúpsonur Anders Refn og hefur samið tónlistina í flestum verkum leikstjórans. Væntanlega er sálin logandi hinn miðaldra þreytti Karl Jørgensen sem er í leit að eins konar yfirbót eða jafnvel endurfæðingu.

Fyrir utan Jens Okking er Jens Arentzen (1958-2022) sem margir muna eftir í hlutverki Ulriks í Matador í aðalhlutverki þannig að andstæður milli ungu og gömlu löggunnar eru annað margnýtt minni í þættinum eftir að þeir félagar loksins hittast í þriðja þætti. Persóna Arentzens á margar hjákonur (sem biðja hann um að nauðga sér sem hefði líklega ekki þótt gott nokkrum árum síðar þótt maður viti aldrei um Dani) en er dapurlega vanhæfur fjölskyldufaðir eins og löggur almennt í þessum söguheimi. Annars er Okking hættur í löggunni í þáttunum og vinnur við vegabréfaskoðun á flugvellinum (væntanlega Kastrup en ég þekki mig ekki þar í þættinum þrátt fyrir að hafa komið þar svo tugum skipti) þegar þættirnir hefjast en dregst inn í glæpamál á ný þegar kærasti dótturinnar, smáglæpamaður einn með yfirskegg, er myrtur en þreytta löggan fyrrverandi hafði annars ætlað að halda sig alfarið frá sakamálum. Bróðir hins myrta brýst því næst út úr fangelsinu til að finna út úr því hvað gerðist en sá er leikinn af Martin Rode sem er sonur hins þekkta leikarapars Ebbe Rode og Ninu Pens (Nina var þriðja og seinasta kona Ebbe en áður átti hann hinar þekktu leikkonur Bodil Kjer sem lék í Gestaboði Babettu og Helle Virkner sem var Elisabeth í Matador og um hríð forsætisráðherrafrú í Danmörku). Martin Rode dó ungur úr krabbameini og var þegar látinn þegar ég sá þættina fyrst fyrir rúmum 30 árum. Hann er afar skuggalegur og þó er eins og maður eigi hálfpartinn að halda með persónunni og a.m.k. verður þátturinn dauflegri þegar hann skyndilega finnst hengdur í yfirgefinni skemmu einni. Einkum vegna þess að lífskrísur löggumannanna tveggja, pabbans og graðnaglans, verða þá yfirþyrmandi um sinn.

Félagi strokufangans heitir Hassan og var þetta meðal fyrstu dýru dönsku sjónvarpsþáttanna þar sem Danmörk var sýnd sem fjölmenningarsamfélag. Ég dvaldi þar fimm árum seinna og var hrifinn af því að allir innflytjendur töluðu dönsku (annað en hér þar sem íslenskukennsla innflytjenda var afar vanrækt þangað til fyrir fáeinum árum) en um leið tók ég eftir því strax 1998 að dönsku dagblöðin voru farin að mála þá mynd að allt væri í uppnámi vegna innflytjenda í Danmörku og var þetta kannski í fyrsta sinn sem ég sá hvílíkan mátt fjölmiðlar hafa til að búa til gerviveruleika ef þeim sýnist svo (sem þeim sýnist yfirleitt) og ekki hefur dregið úr því síðan (álíka u-beygja hinna íslensku er nýafstaðin). Þættirnir eru aftur á móti frekar hrifnir af fjölmiðlum eins og leikarastéttin er gjarnan en þar eru aftur á móti klisjukenndir vondir stjórnmálamenn sem eru í þjónustu vondra skipakónga (leiknir af Henrik Larsen og Torben Jensen en sá seinni sérhæfði sig í illmennum enda góður í listinni að virðast frekar krípí); þeir fyrrnefndu búa á Strandvejen norðan við Strandboulevarden þar sem ég sjálfur bjó nokkrum sinnum og þar gerist eitt eftirminnilegasta atriði þáttarins. Síður eftirminnilegt er þegar Okking er sendur til Frakklands að hlaupa um í langdregnu og leiðinlegu einvígi við glæpamennina og er kannski von að hann hafi gerst harður andstæðingur ESB eftir þá reynslu en augljóslega á þetta að vera eins konar þroskasaga hins miðaldra og misheppnaða löggupabba sem nær að sanna sig á ný áður en hann hverfur endanlega af velli.

Annars er skrýtið að sjá endursýnt efni sem þótti svona hánútímalegt þegar maður sá það fyrst en er núna talsvert ellilegt og greinilega ætlað öðruvísi sjónvarpstækjum en nú tíðkast, minnir mann auðvitað á hversu fáránlega langt líf manns er orðið og veitir kannski ekki of á stórhátíðum eins og jólunum sem snúast ekki síst um endurtekningu. Þarna sjást t.d. löngu látnir leikarar eins og Lotte Tarp (1945-2002) sem var mikið í fréttum þegar ég var barn fyrir að hafa verið rangfeðruð og dóttir þýsks hermanns. Einnig heyrist helsti hittari Dodo & the Dodos sem ég minnist frá menntaskólaárunum og hefur sennilega verið glænýr þegar þátturinn var gerður. Annars finnst mér eins og enn sé verið að gera nákvæmlega svona þætti þannig að fyrir utan hárgreiðslurnar og tónlistina er Einu sinni lögga, … kannski á undan sínum tíma. Áhugaverð eru lokaorð þáttarins þegar dóttir hins látna Jørgensens segist ekki ætla að verða „dagens offer“ í samvinnu við fjölmiðla. Það skortir aldeilis ekki slík á vorum dögum en gott er að vita að einhver kærir sig ekki um hlutverkið.

Previous
Previous

Milgram og grímurnar

Next
Next

Te, kökur og minni