Giotto, tákn og lestur
Seint verður sagt að ég hafi brunað á hraðferð gegnum Proust í sumar; þegar júlí var á enda var ég á síðu 100 og kenndi um ferðalögum og öðrum mikilvægum gjörðum en þó voru þau eins og vant er mun færri en ég vonaðist eftir. Það var að vísu aldrei ætlunin að hraða sér gegnum stórvirkið en samt er íslenskt samfélag upptekið af dugnaði og hægagangur minn því ekki til fyrirmyndar. Raunar hef ég tekið eftir að „duglegur“ hefur niðrandi merkingu þegar það er notað um fullorðið fólk, hvað þá gamla karla eins og mig. Ef fólk kallar mig duglegan velti ég því alltaf fyrir mér hvers vegna það sé svona æst í að niðurlægja mig. Ekki var Proust duglegur! En þegar bls. 100 nálgast fer sögumaður Prousts að ræða freskur Giottos eftir að hafa verið um stund í pútnahúsi (sem ég nenni ekki að ræða því að ég er sjaldgæft dæmi um listamann sem er áhugalaus um vændi) en ólétt þénustustúlka minnir hann á fresku Giotto af Caritas. Honum fellur ekki endilega vel við þessar dyggða- og lastafreskur en finnst þær vera raunverulegar þó að þær séu líka táknrænar og viti ekki af eigin táknrænu.
Meðal annars finnst honum Öfundin (Invidia) missa allt sitt táknræna gildi vegna þess hve naðran sem kemur úr munni hennar er stór, þannig að áhorfandanum hlýtur að verða starsýnt á munn hennar með þeim afleiðingum að öfundarhugur hennar nánast gleymist. Þannig er lítil táknræna eftir í þessum myndum, sjálf myndin stendur eftir sem hún sjálf. Í kjölfarið fer sögumaðurinn að velta fyrir sér eigin lestri og hvernig sögupersónur í bókum sem hann las lifðu innan í honum lesandanum, ekki aðeins um stund heldur sumar alla ævi og þar með gátu höfundarnir vakið með honum allar hugsanlegar kenndir og að einhverju leyti stjórnað honum.
Eins ræðir sögumaðurinn landslag í bókum og hvernig það á sér sitt eigið líf óháð hinu raunverulega landslagi þar sem atburðirnir eiga að gerast. Þetta get ég vottað eftir að hafa lifað með Njálu 8 ára þannig að líf mitt varð aldrei samt en svo þegar farið var á Njáluslóðir var fátt að sjá og landslagið allt of pervisalegt miðað við hve mögnuð sagan var og aðallega vinátta Njáls og Gunnars. Sögumaðurinn er þó ekki viss um að það sé mikill munur á landslagi sem hann þekkir í bókum og raunverulegu landslagi sem hann hefur séð og heyrt og fundið en lifir núna eingöngu í minni hans. Einnig það landslag hefur færst inn í manneskjuna og lifir þar sem minning.
Þessi umræða Prousts um freskurnar sýnir aðferð hans vel. Dyggðir og lestir hafa býsna fasta og hefðbundna merkingu og umræða um þær fór lengi vel eftir vel skilgreindum brautum en í verki Prousts er allt önnur regla sem höfundur sjálfur hefur fundið upp og þar verða freskurnar um dyggðirnar og lestina að þætti í stærri umfjöllun hans um minni, lestur og sögu.