Gamall Sveinki í nýjum búningi
Nýlega barst mér í hendur netta ljóðabókin Gul viðvörun eftir Grímu Kamban sem er ekki eitt þeirra skálda sem mest lætur á sér kræla. En það gladdi mig að sjá þar ljóð sem vísar í flökkusögu eina sem ég kynntist fyrst í hinni kunnu Íslandssögu Jónasar frá Hriflu með myndum snillingsins Halldórs Péturssonar sem m.a. teiknaði Jón Arason biskup og Sveinka þennan eftirminnilega. Þetta nýja ljóð vekur athygli á muninum á hinum hrikalega og alvarlega viðburði þegar biskupinn lét lífið á þessum degi fyrir 475 árum og síðan tiltölulega léttvægu efni flökkusagnarinnar sem einkum snýst um þessu fleygu orð sem hafa orðið að orðtaki hér á landi þó að maður skilji ekki alveg hvers vegna.
Nú er Gríma Kamban ekki fyrsta íslenska ljóðskáldið sem vísar í hin fleygu orð biskups frá 1550 því að sjálfur Hannes Sigfússon (1922–1997) vísaði líka í flökkusögnina í Dymbilvöku sinni (1949) sem á netinu er sögð „tímamótaverk og birtir torræða og brotakennda heimsmynd“ sem er sannarlega satt en vonandi ekki það eina sem sagt er um bókina í textanum sem þar lenti á netinu. Raunar tók ég eftir því að Dymbilvaka er iðulega rangnefnd á netinu vegna líkinda við eina af heilögustu vikum ársins, jafnvel á síðu útgefanda Hannesar og í viðtölum við góðskáld. Kannski ættu þessir aðilar að huga að þessu? Mér finnst notkun Hannesar á Sveinka mögnuð og aftur er hið hversdagslega í orðtakinu í andstöðu við það sem ella er lýst í ljóðinu.
Mig minnir að sagan um biskupinn feiga og skinheilaga masarann Sveinka birtist fyrst í 17. aldar handritum og rataði í Biskupasögur Bókmenntafélagsins á 19. öld. Hún hefur því fylgt landanum lengi líkt og hinsta vísa Jóns biskups. Þessi síra Sveinn er ekki kynntur neitt rækilega og kannski varð máltækið ekki til þarna heldur sagan yngri og samin til skýringar á henni. Um það getum við væntanlega ekki vitað neitt en þó að síra Sveinn sé agent óvinarins í gömlu söguna er honum samt sennilega ágætlega lýst sem „fullkomlega random gaur“ líkt og Gríma gerir.
Sennilega kannast ekki margir lengur við Sveinka þennan en ég fæ þó ekki betur séð en að reglulega sé spurt um hann á netinu og er hann þar væntanlega í sama flokki og Matthías sá sem rataði inn í setninguna: „Er þetta hægt, Matthías?“ (en hér má finna skýringu á þeirri spurningu) sem pabbi fór stundum með þegar ég var barn.