Te, kökur og minni

Auðvitað hef ég gert nokkrar tilraunir fyrr til að lesa Proust (ég segi Proust því að allir vita að ég á við 3000 blaðsíðna Golíatinn hans en ekki þessar örfáu smásögur og ritgerðir sem Marcel gaf út þess fyrir utan) og alltaf komist upp að magðalenukökunum en nú verður haldið alla leið. Samt var ég búinn að gleyma hversu tryllt lýsing hans er á kenndinni sem bragðskynið vekur hjá honum og tengist sambandinu við fortíðina sem er auðvitað ekki síst það sem gerir okkur að mönnum. Ég þekki sjálfur hvernig lykt og bragð vekur minningar hjá manni eða einfaldar athafnir eins og að hengja upp þvott. Skyndilega man ég þá eftir útvarpsþáttum sem ég var að hlusta á einhvern tímann þegar ég var að hengja upp þvottinn eða samtölum sem ég átti við mömmu við svipuð tilefni. Eiginlega er mesta synd að ég sé farinn að nota þvottahús og hættur að hengja upp.

Bylting Prousts felst ekki í stílnum, a.m.k. ekki miðað við ensku þýðinguna sem ég les tilneyddur vegna fákænsku, heldur umfjöllunarefninu. Fyrir hans daga eru sjálfsævisöguleg verk eiginlega úrval mótað af aldagömlum hefðum um hvað teljist vera sögulegt en Proust lætur ekki binda sig við það heldur er allt þess vegna sögulegt. Hann lýsir og lýsir en á hæfilegan hátt þannig að manni finnst frásögnin alls ekki vera hlaðin heldur aðeins rækileg. Þórbergur Þórðarson er væntanlega helsti jafnoki hans hér á landi og þá ekki síst í sínum elliverkum, þ.e. eftir að hann var 55 ára eins og ég er núna. Í þessu felst talsverð uppreisn gegn hinum fornu römmum frásagnarlistarinnar en líka auðmýkt. Höfundurinn veit ekki hvað er merkilegt. Kannski er það allt lífið og aðeins með rækilegri lýsingu öðlast lesandinn líka hlutdeild í því. Þetta skil ég vel, hefur oft langað til að lýsa mínu eigin lífi svona rækilega en er undir oki kröfunnar um hvað sé merkilegt og íslenska dálætinu á hlöðnum stíl. Hér er samt lítið dæmi sem ekki jafnast auðvitað á við Proust því að snilld hans felst ekki síst í því að láta brotin ekki duga heldur halda áfram í 3000 blaðsíður. Samt er þessi texti sá sem ég vil einna helst láta lesa upp í útför minni.

Previous
Previous

Strokufangar og skipakóngar

Next
Next

Citius, altius, fortius