Lestarferðir og regnfrakkar

Hugur minn var mjög í Japan í júlí og þá áskotnuðust mér (í tilefni af gangi himintunglanna) tvær af þekktustu bókum Matsumoto Seichō (1909–1992) sem vel mætti kalla Agöthu Christie eða Simenon lands hinnar rísandi sólar en hér að neðan má sjá mynd af honum á erfiðri stundu enda sagði enginn að líf rithöfundarins væri dans á rósum (næsta höfundarmynd mín verður svona). Matsumoto fór ekki að skrifa að ráði fyrr en um fertugt en varð þá afar mikilvirkur og ég sá töluna 450 bækur viðraða á netinu. Hann naut að lokum mikillar virðingar sem er verðskulduð ef þessar tvær bækur sem ég hef lesið eru standardinn. Ég las fyrst Tokyo Express (1958) og að þeim lestri loknum uppgötvaði ég að fyrri þýðing bókarinnar heitir Points and Lines og var sú til á bernskuheimili mínu forðum en það mun vera bókstaflegri þýðing á frummálsheitinu Ten to Sen. Þetta mun vera fyrsta bók Matsumoto sem sló rækilega í gegn en margar þeirra hafa verið kvikmyndaðar. Ten to Sen var þannig kvikmynduð nánast samstundis og hún kom út.

Þó að ég sjái vel líkindin við Christie og Simenon minnir Ten to Sen enn frekar á rithöfundinn Freeman Wills Crofts (1879–1957) sem samdi bækur um French lögregluforingja. Hann var feykilegur áhugamaður bæði um lestar og fjarvistarsannanir og bækur hans snerust jafnan um hvernig French gat barist í gegnum kænlegar og þaulskipulagðar fjarvistarsannanir glæpamannanna sem iðulega tengdust lestarferð. Einmitt þannig er fléttan í Ten to Sen, hinn eitursnjalli kaupsýslumaður Yasuda sviðsetur fund á lestarpalli og síðan þurfa lögreglumennirnir Torigai (gamall refur, leikinn af jaxlinum Takehsi Kitano í einni aðlöguninni) og Mihara (stórborgarlöggan) að leysa málið. Byggingin er óvenjuleg að því leyti að fyrst átta þeir félagar sig á að Yasuda er að hanna sönnunargögn ofan í þá en síðan þurfa þeir að komast að því hvert tilefnið var eða hlutverk einstakra aðila í flettunni.

Þó að ég nyti bókarinnar sem ólesinnar í annað sinn er margt í henni eftirminnilegt. Matsumoto er afar röklegur og lögreglumennirnir gera reglulega lista um lykilatriði og lesandinn fær að fylgjast með þankagangi þeirra. Sjónarhornið er enda nær alfarið hjá þeim, fyrst einkum hjá Torigai en síðan Mihara. Japanska lögreglan er samhent sem einn maður og enginn leggur stein í götu neins en hvorttveggja prinsipi hef ég oftast fylgt í mínum eigin bókum. Það gladdi mig að frétta að Matsumoto hafi verið eldheitur róttæklingur þó að hann nenni ekki að troða spilltum bankamanni eða ráðherra í hverja bók eins og gjarnan er gert í íslenskum „ádeilum“. Það er ekki síst hin röklega hugsun sem einkennir þær bækur hans sem ég hef lesið og ævinlega miðlað í beinskeyttum og fáorðum stíl; þær eru tærar ráðgátur en lífi söguhetjanna er aldrei ógnað eða gripið til annarra þaulnýttra spennubragða. Lesandinn áttar sig strax á að Yasuda er Mefistófeles sögunnar en spennan snýst um hvernig og hvers vegna. Sagan spannar Japan þvert og endilangt og hið sama á við um hina Matsumoto-söguna sem ég las í júlí.

Sú nefnist Suna no Utsuwa en enska þýðingin er kennd við söguhetjuna Imanishi lögregluforingja (sjá mynd að neðan) sem fær í hendurnar flókið mál og etur kappi við æði demónskan andstæðing sem siglir undir fölsku flaggi og drepur óþægileg vitni með hljóðbylgjum eins og Frits Gerson í hinu svakalegu útvarpsleikriti Poul-Henriks Trampe, Raddir sem drepa, sem við munum eftir úr útvarpinu sumarið 1985. Bókin var upphaflega birt sem framhaldssaga í dagblaðinu Yomiuri Shimbun og hefur síðar verið kvikmynduð undir heitinu Sandkastalinn og gerð að vinsælum sjónvarpsþáttum enda vel til þess fallin. Þó að persónur séu margar og sumar fái lítið rými, t.d. nokkrir af japönsku Birtingsmönnunum sem blandast inn í málið — en maður getur ekki annað en velt fyrir sér vinum og óvinum Matsumoto í japönsku listalífi við lestur bókarinnar —, eru þær trúverðugar og vel skapaðar. Áfram er hin röklega framvinda helsti kostur bókarinnar og hvernig Imanishi finnur stöðugt ný og ný brot í púsluspilið.

Matsumoto er ekki að semja neina landkynningu en heimsstyrjöldin, sakedrykkja og keisarafjölskyldan leika hlutverk í gátunni og auðvitað lestarferðir en aðalpersónan er kannski regnfrakki nokkur sem reynist skipta miklu máli. Avant garde list ársins 1960 svífur líka yfir vötnum eins og áður sagði. Mig grunar að lítil sem engin tengsl séu milli Matsumoto og meistarans Kurosawa en þar sem ég hef einmitt verið að mennta mig í verkum meistarans frá þessum sama tíma og er annars frekar lítt heima í Japan hlaut ég að hugsa til þeirra. Í öllu falli heldur Matsumoto manni vel við efnið, vegna hins knappa stíls, hinnar ofurröklegu framvindu og sífelldra uppgötvana er ekki hægt að leggja bækurnar frá sér og báðar voru lesnar innan 48 stunda frá því að ég fékk þær í hendur. Að sögn var Matsumoto sívinnandi og vanur að segja „Það er ekkert frí frá skáldskap“ og hann var enda í miðri bók þegar hann lést; ekki slæm örlög það.

Previous
Previous

Hadesarheimar

Next
Next

Frostrósir og fatafækkun