Til minningar um Johnny

Fyrir tveimur árum uppgötvaði ég svokölluð „viðbragðamyndbönd” á YouTube og horfi stundum á slík mér til afslöppunar, enda búinn að skilja að áhuginn tengist bæði ástríðu minni fyrir viðtökurannsóknum og fortíð minni sem gagnrýnandi. Þó að þau séu á sinn hátt einhæf finnst mér þau eiginlega samt skrefi fyrir ofan flesta gagnrýni í hinum deyjandi fjölmiðlum a.m.k. hérlendis: meiri einlægni, minni sýndarmennska, ekki alltaf sama fólkið í öllum miðlum ár eftir ár og fólkið sem bregst við leggur spilin á borðið og er óhrætt við að afhjúpa sig. Það eru líka til eiginlegir YouTube-gagnrýnendur sem eru oftast rækilegir (sumir raunar fulluppteknir af eigin stórkarlalegu fyndni) og kannski á svipuðum stað og tímaritagagnrýnendur æsku minnar. En fyrir utan viðtökuna er þetta líka skemmri leið að rifja upp eftirlætisbíómyndirnar sem maður legði kannski ekki í að sjá aftur í fullri lengd í heimi hraða og spennu og ein af þeim sem er áhugavert að sjá fólk bregðast við er hin forna gamanmynd Airplane (sem virðist hafa heitið það líka í íslenskum bíóhúsum en samt þykist ég muna að við kölluðum hana Flying High eins og hún hét í Evrópu).

Fjórar helstu ástæður fyrir velgengni Airplane eru hraðinn á bröndurunum sem var meiri en þá tíðkaðist, skondinn bókstafsskilningur í anda Lewis Carroll á öllu sem sagt er, bernskur aulahúmorinn sem allir geta skilið en er blandaður með einstaka yfirgengilega fullorðins atriðum tengdum kynlífi, gálgahúmor og eiturlyfjanotkun og ekki síst sú á þeim tíma glænýja en feiknarsnjalla hugmynd höfundanna Zucker, Abrahams og Zucker að nota þekkta spennumyndaleikara fortíðar á borð við Robert Stack, Peter Graves, Lloyd Bridges og Leslie Nielsen og láta þá fara með allar línur sínar eins og þeir væru staddir í slíkri mynd en ekki gamanmynd. Allir reyndust þeir afar færir í þessu en sérstaklega þó Nielsen í hlutverki Dr. Rumack sem var ekki stjarna myndarinnar en varð það samt og átti í kjölfarið langan feril sem gamanleikari í misgóðum paródíumyndum. Einn leikari hins vegar er með leikstíl sem er á skjön við alla hina og það er Stephen Stucker eða flugumferðarstjórinn Johnny sem margir sem bregðast við myndinni núorðið eiga erfitt með að botna í enda fer hann með hlutverkið eins og hann sé staddur í eigin gamanmynd sem er allt öðruvísi.

Nú hefur hver sinn smekk en ég elska útúrkúleikstíl Stephens Stucker sem þeir félagar höfðu víst notað áður alloft á sviði í senuþjófsaukahlutverk og leikur í einu myndinni sem þeir höfðu gert áður. Þessi leikari virðist afar miðaldra (sjá að ofan til vinstri) en var aðeins rúmlega þrítugur þegar Airplane var gerð. Illu heilli lést hann úr eyðni aðeins 38 ára. Johnny í flugturninum er afar flamboyant og flippaður og það virkar á skjön vegna þess að allir aðrir helstu leikarar stunda karlmannlegan hasarmyndaleik þótt margt sem þeir segi sé algerlega fáránlegt í samhenginu. Johnny er hins vegar trylltur allan tímann eins og misheppnaður bekkjartrúður sem aldrei hættir að reyna að hirða sviðið, sama hve undirtektir eru litlar. Fyrir utan að það er beinlínis hægt að hafa gaman af látum hans finnst mér heillandi að einn leikari sé einfaldlega staddur í eigin leikriti þar sem hann er fabjúlös og fer sínu fram fullkomlega í trássi við umhverfið.

Next
Next

Skólaritgerðir Sallýar