Skólaritgerðir Sallýar
Ef þið spyrðuð mig hver sé besta persónan í Peanuts (Smáfólkinu) og hvers vegna það er Sally Brown, þá værum við að tala saman. Raunar minnist ég þess þegar fjölskyldan fór saman á Smáfólksmyndina í Háskólabíói árið 1978 að mamma heitin hélt líka mest upp á Sally. Ég sæki margt til hennar.
Um Sally eins og allar aðrar lykilpersónur eru margar flóknari og lengri sögur í teiknimyndaflokknum heimspekilega en í sérstöku dálæti hjá mér voru skólaritgerðir hennar eins og þær að ofan þar sem ein heimsálfan verður heldur heimilisleg og rómverskar tölur koma við sögu.
Aðrar snilldarörsögur eru þegar Sally hugleiðir að skrá sig í „controversial French“ (sem minnir á það þegar frændi minn hélt að Jaws væri bönnuð börnum vegna skjátextans vegna þess að hann sá eðlilega engan mun á „suitable” og „subtitle”) eða þegar hún heldur því fram í skólaritgerð að árið 43 hafi „Roman Numerals“ ráðist inn í Bretland.
Sally er líka hrein og bein eins og fram kemur í ritgerð hennar um jólin sem kemur upp í huga minn á hverri jólaföstu við innkaupin og í ritgerð hennar um sumarafköstin.
Sally er eins og margir aðrir í hinu langa verki Schultz hversdagsheimspekingur og finnur sína persónulegu heimspeki sem er „Hverjum er ekki sama — Hvað veit ég —-Ekki kenna mér um“.
Sally veit enda að hún ræður litlu í heiminum og neitar að taka ábyrgð á nokkru því sem hún hefur ekkert vald yfir. Mér líður oft eins og minni á orð Jóns Grunnvíkings: Hinir góðu menn eru miklu færri og fá engu ráðið.
Sally telur að dagur Kólumbusar sé kenndur við mann sem hét Columbus Day (enda það ættarnafn vissulega til Í Bandaríkjunum), minnir að ein risaeðlutegund heiti bronkítis og hefur sína eigin kenningu um hvers vegna fjölskyldulíf Egypta var einfaldara en nútímamannsins.
Þó að Charlie Brown sé helsta söguhetja Peanuts og iðulega sá sem lendir í vandræðum og er misskilinn og vanmetinn er hann í hlutverki streitarans (Abbot fremur en Costello) þegar kemur að skólaraunum Sallýar sem eru líka stórkostlegar og á sinn hátt tragíkomískar. Sally er nefnilega skemmtilega brothætt þó að hún sé líka bíræfin og áköf, einkum þegar kemur að skólanámi.