Citius, altius, fortius
Ég horfi ekki mikið á sjónvarpið á sumrin þrátt fyrir allnokkra (stundum hvimleiða) hvatningu annarra en þó tókst mér að komast gegnum nokkra þætti þá dagana sem engar ferðir og útivera voru í boði og þá sá ég meðal annars Olympo, nýjan spænskan þátt sem gerður er eftir Elite-formúlunni, þ.e. hópur ótrúlegra fallegra miðjarðarhafsungmenna 25-29 ára að aldri þykist vera unglingar, í þessu tilviki afreksíþróttamenn sem vilja vera heimsmeistarar eða ólympíumeistarar. Þetta fólk er í rúgbý, sundi og fleiri íþróttum sem ég veit næsta lítið um enda áherslan ekki á íþróttirnar þannig séð heldur svik og pretti í íþróttaheiminum, eiturlyfjaneyslu, auglýsingaskrum og klikkað keppnisskap. Í aðalhlutverki eru fjögur ungmenni: Roque, Cristian, Amaia og Zoe. Þrátt fyrir að vera efnileg kann ekkert þeirra að hegða sér og þau eru stöðugt að baka vandræði, sjálfum sér og öðrum. Þó að ekki skorti myndarlega leikara í þáttinn jafnast hann ekki á við Elite í upphafi (frekar í dauðateygjunum), maður er búinn að venjast siðleysinu og óhefðbundnu ástarsamböndunum; þetta er því svolítið orðið eins og Jaws IV. Helst munar um Agustin Della Corte sem leikur folann Roque (sjá að neðan) en Della Corte mun vera raunveruleg rúgbý-stjarna frá Úrúgvæ sem hóf leikferil sinn í La sociedad de la nieve í fyrra. Hans persóna vekur áhuga en aðrar ná því eiginlega ekki þó að e.t.v. hefðu sumar aukapersónur burði til þess ef þær fengju meiri skjátíma. Eiturlyfjaplottið er ekkert ótrúverðugt en frekar leiðinlegt eins og eiturlyf eru yfirleitt í sögum og eins er með flest ástar- og vinasamböndin.
Ég horfði á Ginny og Georgíu á sínum tíma á Netflix og þátturinn reyndist óvæntari og eftirminnilegri en ég hafði átt von á. Nú er hann ekki fyrsta samblandið af melódrama, glæpasögu, unglingasápu og húmor í sjónvarpi nútímans en sannarlega frekar vel heppnuð blanda af þessu öllu, aðallega vegna þess að afstaðan til glæpa og samfélagsaðstæðna er ólík því sem maður á að venjast frá Bandaríkjunum enda aðalpersónan siðblindur glæpamaður sem maður hneigist til að halda samt með (a.m.k. ég). Persónurnar eru auk heldur óvenju vel skrifaðar, áhugaverðar og óklisjukenndar — ekki síst meingallaða en ráðagóða mamman með sinn stæka Suðurríkjahreim (sá hreimur er eiginlega stjarna þáttarins) sem virðist vera álíka gömul og dyggðuga en stundum fórnarlambsvædda dóttirin (ég held að aldursmunur leikkvennanna sé átta ár) og litli sonurinn sem er hjarta þáttarins, en þó ekki aðeins þessi þrjú. Til dæmis er heyrnarlaus maður í þættinum án þess að fallið sé í hefðbundnar fötlunarklisjur og trúverðugir tvíburar sem eru að vísu ekki nákvæmlega í samræmi við mína eigin reynslu. Helsti vandinn er að þegar tvö ár líða á milli syrpna getur reynst erfitt að muna eftir öllum unglingunum sem koma við sögu (allir leiknir af 25-29 ára leikurum) eða hver var með hverjum í fyrri syrpu. Ekki get ég leynt mínum almennu efasemdum um að halda endalaust áfram með þætti sem voru góðir fyrst; bitið fer úr öllu eftir of langan tíma en fyrstu tvær syrpur Ginny og Georgía voru það góðar að ég gat ekki auðveldlega látið þáttinn vera og það voru sprettir í þriðju syrpu líka.
Í þriðju syrpu er meginefnið réttarhöld yfir mömmunni Georgiu sem er sökuð um morð sem er sannarlega ekki eftirsóknarvert í refsiglöðum Bandaríkjunum (þó að í þessum þætti sé réttakerfið sannarlega skárra en fjölmiðlarnir sem það er sennilega oftast í raun líka enda getur ekkert verið verra en þeir), en í ljósi þess að Georgia er svo gott sem söguhetja úr píkareskri síðmiðaldaskálkasögu trúir maður aldrei öðru en hún sleppi með þetta allt. Erfiðara er kannski að standa alltaf með hinni afar hrjáðu Ginny sem í þessari syrpu eignast nýjan kærasta, Wolfe að nafni, en hann reynist (kannski ekki mjög óvænt miðað við nafnið) vera úlfur í sauðargæru (raunar óhugnanlega líkur manni sem ég þekkti einu sinni) en sem betur fer er melankólíski og drykkfelldi bóheminn Marcus alltaf nálægur, leikinn af hinum einkar fallega og sjarmerandi Felix Mallard þannig að hugsanlega er hægt að fyrirgefa Ginny að eltast við þennan augljóslega ólánlega kost (ýmsar júngískar erkitýpur koma upp í hugann). Eins og áður er ágæt stígandi í syrpunni. Atburðirnir eru æsandi og jaðra við ofurdramatík á köflum; stundum finnst mér aðeins of margt um snúninga og vendingar en það sem raunverulega liggur undir er flókið tilfinningalíf persónanna og siðferðislegar spurningar, aðallega sú hverjum fólk getur treyst til að standa með sér þegar neyðin er stærst. Eins og það getur stundum verið pirrandi að horfa á jafnvel besta fólk svíkja hvert annað og stinga í bakið er einhver lærdómur í þessu.
Saga eftirlifenda (The Survivors) er nýr sjónvarpsþáttur sem gerist í Tasmaníu og fjallar um voveiflegt mannslát fyrir sextán árum sem virðist hafa afleiðingar enn í dag. Í aðalhlutverkinu er Charlie Vickers, Sauron úr Rings of Power hárkollulaus, og eðlilega grunar maður hann um græsku en hann og aðrar persónur eiga í miklu sálarstríði vegna liðinna atburða. Þetta er þáttur um sorgarviðbrögð og flókin sambönd smábæjarfólks í anda Happy Valley og Broadchurch; kannski ekki alveg jafn góður en í áttina þó og persónurnar ágætlega skrifaðar (einkum foreldrar aðalpersónunnar) en sjálft morðmálið er minna áhugavert einkum þegar það leysist og reynist vera tilbrigði við Laxdælu (morðinginn einn af þeim þremur með sama ættarnafn sem ég taldi alltaf ljóst að væru hinir seku) en ég veit ekki hvers vegna í ósköpunum þeir sem eru um það bil að leysa svona flókin kulnuð mál taka morðingjann alltaf með sér á eyðistað til að leysa málið að honum einum viðstöddum. Er þetta ekki frekar ódýr leið til að skapa spennu og tryggja að allar persónur nema hinn seki sættist að lokum?
Ég hef bæði hitt Jussi Adler Olsen (sem nú er víst illa veikur) og lesið Konuna í búrinu þó að ég hafi ekki séð kvikmyndina frá 2013 með Nikolaj Lie Kaas og Fares Fares þannig að söguþráðurinn í Dept Q var þannig séð kunnuglegur — bókin er ekki beinlínis minnisstæð nema að mér fannst hún (einkum skáletruðu síðurnar sem engin nútímaleg norræn glæpasaga má vera án) óþægilega krípí og ógeðsleg eins og margar norrænar glæpasögur sem virðast ætlaðar lesendum svo hörðnuðum að ekkert nema mesta viðurstyggð hreyfir við þeim. Þetta hefur aldrei verið minn tebolli þó að ég efist ekkert um frásagnargáfu Jussi sem hefur komið víða við í bókmenntaheiminum. Sannarlega slógu bækur hans um Q-deildina í gegn og eru orðnar ellefu síðan 2007. Hinn nýi Netflix-þáttur nýtir kosti bókanna vel, miðlar skoska sjarmanum af mikilli hind og Matthew Goode og Alexej Manvelov eru sannfærandi í helstu hlutverkunum. Þó að mér finnist glæpurinn sem er rannsakaður óþarflega ógeðslegur er rannsóknin áhugaverð og lögreglumennirnir forvitnilegar söguhetjur, kannski ekki aðallega hinn sérvitri Mørck sem er skilgetið afkvæði Sherlock Holmes, dr. House og þeirra allra heldur fremur aðstoðarmaður hans hinn sýrlenski Akram (hét upphaflega Hafez el-Assad en greinilega er ekki hægt að nota það nafn lengur) sem strax frá þætti 2 er senuþjófur þáttanna. Einnig kemur tvífaraminnið við sögu. Ég var líka heldur forvitnari um hver skaut löggurnar þrjár í fyrsta þætti (og veslings Anderson sem í upphafi virtist vera dæmigerð aukapersóna) en um glæpinn sem er verið að rannsaka (sem reynist líka álíka einfaldur og hann er ótrúverðugur).
Kvikmyndin Árstíðirnar (e. Four Seasons) frá 1981 vakti jákvæða athygli á sínum tíma enda skrifuð og leikstýrt af sjálfum Alan Alda sem var ein helsta menningarhetja 8. áratugarins og lék auðvitað líka í myndinni ásamt Carol Burnett, Ritu Moreno, Sandy Dennis og fleiri góðu fólki. Myndin fékk meðal annars dönsku kvikmyndaverðlaunin sem besta erlenda mynd ársins sem þarf ekki að koma á óvart því að Woody Allen var ekki með mynd það ár og Danir elska fullorðinsmyndir um fólk að tala saman og kryfja samfélagið og mannleg samskipti til mergjar. Netflix er nú að sýna átta þátta sjónvarpsgerð af þessari sömu sögu sem Tina Fey hefur aðlagað og hún er raunar ágæt og vel fyndin á köflum (einkum lokaspretturinn). Ég hef enn ekki séð gömlu myndina en grunar samt að hún hafi verið aðeins betri vegna þess að efnið dregur eiginlega ekki alveg fjóra klukkutíma og óhjákvæmilegur samanburðurinn við The White Lotus er óhagstæður; þó að eitthvað sé um færslu til nútímans er þetta í eðli sínu fólk af kynslóð foreldra minna (kölluð „þögla kynslóðin“ í Bandaríkjunum) og vandamálin eru hin sígildu sem voru alltumlykjandi í bókmenntum og ekki síst leikritum og kvikmyndum milli 1965 og 1980. Mig minnir að John Updike hafi skrifað frjálslega parasögu af svipuðu tagi um 1970. Árstíðirnar eru fullar af tiltölulega notalegri kímni og kunnuglegum vandræðalegum aðstæðum fyrir miðaldra fólk (eflaust enn frekar þau giftu) og eru kjörnar til áhorfs að kvöldlagi í hóp fólks sem maður þekkir vel. Alan Alda sjálfur birtist í einum þætti. Tina Fey og Steve Carell eru eftirminnilegust í sterkum leikhóp og besta atriðið er þegar lokalínan í brandara reynist vera „Kenny Loggins“ sem fellur í grýttan jarðveg hjá þrítugu fólki sem alls ekki man eftir hetjum minnar æsku.