Sveitin er sambandsapp
Ali Novak er bandarískur metsöluhöfundur sem sló í gegn aðeins 15 ára á samfélagsmiðlum (skrifsíðunni Wattpad) með skáldsögunni My Life With the Walter Boys (2014) um táningsstúlkuna Jackie sem missir foreldra sína og þarf að flytja frá New York til bestu vinkonu móður sinnar sem býr í sveitinni í Colorado á heimili með einni stúlku og níu strákum. Augljóslega eru þetta allt of margar persónur (einkum of margir strákar) sem Novak hefði aldrei komist upp með nema vegna þess að sagan sló í gegn á eigin forsendum áður en útgefendur komust í málið. Þetta er ekki einu unglingaþættirnir þar sem söguhetjan missir foreldra sína voveiflega eins og í 19. aldar skáldsögu en svo fjallar sagan einkum um erfitt makaval milli tveggja góðra kosta. Maður getur kannski þakkað fyrir að hvorugur elskhuginn fær lífshættulegan sjúkdóm eins og hinar seinheppnu söguhetjur John Green, a.m.k. ekki í fyrstu syrpunum tveimur.
Í sveitum Colorado er mikið um dýr og kúrekahatta og heimilið eðlilega eins og járnbrautastöð. Þar ríkir frjálslyndur andi alveg þvert á allar klisjur um rauðu ríkin (enda hefur Colorado orðið blátt seinustu árin). Af öllum þessum strákaskara eru hinn hægi og viðkvæmi bók- og hestelski Alex (dökkhærður) og íþróttafolinn Cole (ljóshærður) mest áberandi og Jackie fljótlega ástfangin í báðum. Þegar ég fór að horfa á aðra syrpu mundi ég ekki vel eftir þeirri fyrri nema brúðkaupi þar sem allir voru hvítklæddir og Alex varð mjög drukkinn (annars er það Cole sem á við áfengisvandamál að stríða) og sagðist elska Jackie sem varð fátt um svör (aldrei góðs viti í rómantískum myndum). Eftir vanda sinn að velja milli bræðranna flýði Jessie Colorado en snýr svo aftur í annarri syrpu og margt er breytt en sagan endurtekur sig samt. Sem er eiginlega helsti vandinn við syrpuna; henni lýkur á nokkurn veginn sama stað og þeirri fyrri.
Alex prófar sig raunar áfram sem kvennamaður og ródeóstjarna (fötin fara honum a.m.k. ágætlega) og Cole fær að þjálfa íþróttalið og takast á við eigin misheppnaðan feril en annars er þetta margendurtekið efni. Meiri þróun er hjá aukapersónunum, einkum leiklistarbróðurnum Danny sem tekur saman við fyrrverandi kærustu Cole og svo hinum viðkvæma og flogaveika Nathan sem náði saman við vin Jackie, Skylar, í síðustu syrpu en í þessari er sambandi þeirra ógnað af hinum bíræfna Zach sem eltist opinskátt við Nathan en reynist svo vera fyrrum kærasti Skylar og ef til vill ekki kominn yfir það. Persónulega fannst mér Zach (að neðan til vinstri) vera langmest spennandi aðili þríhyrningsins en hinn réttsýni Skylar frekar þreytandi. Það eru líka átök í fótboltaliðinu sem fönguðu áhuga minn takmarkað og helsti foli þess uppgötvar þannig fv. vinkonu Alex.
Að einhverju leyti minna svona þættir mig á spíttmæðgurnar forðum daga nema þær auðvitað voru með stöðug hnyttiyrði á vörum, flutt á þreföldum hraða eðlilegs talmáls. En þátturinn snerist í grundvallaratriðum um sæmilega eðlilegt líf venjulegs fólks á skondnum og sérstökum stað (smábæ í Connecticut eða búgarði í Colorado). Drjúgur hluti þáttanna um Walterbræðurna snýst þannig um viðskipti með búgarða og skúra og eitthvað þvíumlíkt sem er vel þekkt efni úr sjónvarpssápum. Þar eru faðirinn og elsti bróðirinn aðalpersónur en greinilega hefur leikkonunni sem túlkar eiginkonu hins síðarnefnda fundist hún hafa fremur lítið að starfa þannig að hún er send burt í fyrsta þætti og truflar atburðarásina ekkert frekar. Pabbinn er Marc Blucas úr þáttunum um Buffy draugabana orðinn miðaldra eins og ég. Mamman er hin mjúkmála Sarah Rafferty sem mun hafa verið í Suits en ég sá aldrei þá þætti.
Frekar lítið er fyrir yngri börnin að gera í þáttunum, t.d. tvo fóstursyni fjölskyldunnar af suðuramerískum ættum sem gaman væri að heyra meira um (svona ef Ali Novak kynni að vera að lesa) og yngsti bróðirinn Jordan (að neðan) er forvitnileg persóna þó að þeirri forvitni sé engan veginn svalað. Það er einfaldlega ekkert pláss fyrir að gera öllum skil í ellefu manna fjölskyldu en mig minnir að sama vandamál hafi verið uppi á teningnum í bók Kjeld Iversens (1918–2010), Familien med de 100 børn, sem var til á mínu bernskuheimili. Þó að ég muni þá bók (eða bækur, þær voru a.m.k. tvær) reyndar ekki nákvæmlega rámar mig í að sum barnanna 100 hafi fengið tiltölulega lítið frásagnarrými.
Hvað um það grunar mig að Walterbræðurnir verði ekki jafn langlífir í sjónvarpi og Gilmoremæðgurnar. Þær reiddu sig aldrei alfarið á smáþorpasjarma Connecticut heldur hékk fleira á spýtunni og voru allfyndnar á köflum, sem og starfsfólk þeirra. Walterbræðurnir krefjast aftur á móti talsverðs áhuga á búgörðum og hestum eða þá leikaranum Ashby Gentry í þröngum gallabuxum og með kúrekahatt. Hvað um það horfði ég á alla tíu þættina í fyrri syrpu og einnig þeirri seinni en var líklega aðeins meira í símanum í seinna skiptið.