Françoise og hermennirnir
Þegar ég er hálfnaður með fyrri hluta fyrsta bindis Í leit að glötuðum tíma er þjónustan Françoise farin að vekja æ meiri athygli mína og þó að ég sé enn rétt kominn fram yfir bls. 100 af ríflega 3000 er ég búinn að setja fram þá kenningu að hún sé Benson — hann var sem kunnugt er þjónninn í Löðri sem þótti fyndnasta persónan; síðar fékk hann sinn eigin þátt sem raunar varð langlífari en Löður (enda ekki jafn djarfur) og þar kom fram að Benson væri fornafn persónunnar en ekki eftirnafn en eins og allir vita er lítill munur á þessu í Bandaríkjunum og næstum öll nöfn geta verið bæði fornöfn og eftirnöfn. Françoise er ekki jafn ósvífin og Benson en nær að setja mikinn svip á söguna, t.d. með þvi að hafa skoðanir á öllu eins og fram kemur í textanum að neðan þar sem hún veltir fyrir sér stöðu hersins í nútímasamfélagi.
Augljóslega er Françoise að einhverju leyti rödd hinnar ómenntuðu alþýðu en fjarri því að vera staðalmynd heldur sterkur og einstakur karakter, kannski sá sterkasti á fyrstu 100 blaðsíðum Í leit að glötuðum tíma, kannski vegna þess að Françoise býr yfir eigin visku sem hún er óhrædd við að tjá og kannski hressileg undantekning í lífi sögumanns sem elst upp meðal borgarastéttar sem er stöðugt að sýnast. Kannski er það þess vegna sem ég er farinn að hlakka til að kynnast Françoise betur og vona að hún leiki allverulegt hlutverk í sögunni.