Ágústínus kirkjufaðir og Jón Indíafari
Leiðir okkar Reynis Finndal Grétarssonar hafa aldrei legið saman þó að við höfum alist upp á sama landi á sama tíma og að minnsta kosti hann verið viðriðinn margt sögulegt. Ekki einu sinni þó að hann sé alinn upp á Blönduósi þar sem Mæsa frænka mín bjó og sendi okkur jólagjafir ár hvert, og þó hann sé þekktastur fyrir fyrirtækið CreditInfo sem ég hef lúmskan grun um að faðir minn heitinn sem hafði það að ævistarfi að sinna bankaábyrgðum hefði getað skýrt vel út fyrir mér á sinn rökrétta og ofurþolinmóða stærðfræðikennarahátt ef hann hefði ekki andast árið 1996 (eins og er skil ég ekkert enda fetaði ég ekki í fótspor pabba en skilst þó að Creditinfo sé vel heppnað og enn til). Ég var sem sagt alveg áhugalaus og las sjálfsævisögu Reynis Fjórar árstíðir eingöngu vegna þess að vinkona mín sjálfstæð í skoðunum og metur allt algerlega á eigin forsendum mælti með henni.
Þegar ég drakk í mig Hugtök og heiti í bókmenntafræði á fyrsta ári í íslensku lærði ég að skipta má ævisögum meðal annars í sjálfsævisögur og endurminningar og er fókusinn í þeim síðarnefndu á mannlíf, samfélag og eftirminnilegar persónur en í þeim fyrrnefndu snýst sagan ekki síst um innra líf og þroska sögumanns og var Ágústínus kirkjufaðir þar helsta dæmið. Þó að Reynir Finndal sé ekki beinlínis eins og hinn forni dýrlingur er saga hans þó greinilega af þeirri ætt. Líkt og Ágústínus telur Reynir að í hvunndagseðli heimsins leynist eitthvað „transcendental“ sem hann er alls ekki langorður um en miðlar þeirri trú samt vel í sínum texta. Almennt gefur hann geðþekka mynd af sjálfum sér, alls ekki af því að hann rembist við það heldur kann hann þvert á móti að halda haganlega á penna og minnir saga hans því mun betur á flotta heimildarmynd Andrew Ridgeley um Wham en misheppnaða pr-áróðursmynd Harry og Meghan. Í báðum tilvikum held ég að sögumanni takist að vera geðþekkur aðallega vegna þess að hann sé það en þó er vert að hafa í huga að einlægur og látlaus stíll er yfirleitt afleiðing þrotlausrar vinnu.
Það er í stuttu máli skoðun mín eftir lestur að vinkona mín hafi haft rétt fyrir sér og Fjórar árstíðir sé ein af þeim ævisögum sem vert er að lesa, minnti mig jafnvel stundum á Lífsjátningu Ingólfs Margeirssonar þó að stíllinn sé öllu nær talmáli og formið orðið talsvert stuttaralegra. Það sem er sameiginlegt með þessum góðu bókum er að Reyni hefur tekist að „taka sér vald höfundarins“ eins og ein ágæt vinkona mín orðaði það eitt sinn svo vel. Hann hefur fulla stjórn á eigin bók og er að því leyti langtum fremri en hinir fjölmörgu fýsibelgir sem eru vinsælir í fjölmiðlum og halda því að áhugi á þeim sé botnlaus og telja sig líka getað skrifað bækur án þess að ráða við verkefnið. Það gerir Reynir Finndal hins vegar; bókin er vel stíluð á sinn nútímalega og ögn talmálslega hátt og vel byggð upp með stuttum köflum sem endurspegla vel hið fjölbreytta efni.
Reynir er víðförull maður sem hefur ferðast um allan heiminn í viðskiptaerindum. Mín kynslóð erfði heim glóbalismans upp úr 1990 þar sem kapítalistar fóru um allt til að gera hagkerfið sem einsleitast og innlima fátæku löndin í það. Slíkir menn eru algengar staðalímyndir í afþreyingarmenningunni og í sjálfsævisögum sínum fyrir um 15 árum gerðu ýmsir íslenskir útrásarvíkingar fátt til að hreyfa við þeirri staðalmynd. Reynir kemur lesendum þó ekki þannig fyrir sjónir. Fremur minnir hann mig á hinn forvitna og fordómalausa Jón Indíafara, upphafsmann íslensku ferðasögunnar. Sama hversu víða hann ferðast og hittir marga er í honum sami kjarni frá Blönduósi og björt yfirvegun stafar af öllum stílnum. Hann lýsir líka ýmsum glímum sínum í einkalífinu á rammíslenskan hátt sem kenna má við æðruleysi. Allt stórt og smátt er nefnt eins og það sé sjálfsagt. Hans erfiðleikar eru ekki endilega verri eða betri en það sem við hin höfum átt við en sýna skýrt að hann lítur fyrst og fremst á sig sem venjulegan mann með kostum og göllum sem ekki endilega lætur glepjast af glysi ríkidæmisins. Með þessari aðferð nær hann að veita sjálfsævisögunni góða viðspyrnu á tímum þar sem hún á í vök að verjast.