Gamall aufúsugestur
Ég var svo lánsamur að þýðandi Hobbitans færði mér bókina fyrir skemmstu en hún var vitaskuld efst á jólaóskalistanum mínum fram að því. Þetta er þriðja þýðing verksins og ein var þegar prentuð snemma árs 1982 þegar pabbi minn heittelskaður las söguna upp fyrir okkur systkinin og þýddi úr ensku á staðnum eins og hann gat en þýddi margt öðruvísi en allir hinir íslensku þýðendurnir. Mig minnir að fyrstu þýðendur (Karl Ágúst Úlfsson og Úlfur Ragnarsson) hafi kallað Bilbó hobba fremur en hobbita (eins og Færeyingar gera enn) en síðar kom þýðing Þorsteins Thorarensens sem var í meira samræmi við þýðingu hans á Hringadróttinssögu sem áður hafði komið út. Þessi nýja þýðing er eftir Sólveigu Sif Hreiðarsdóttur en Bragi Valdimar Skúlason þýddi ljóðin. Hún er í grundvallaratriðum trú anda frumtextans sem er fjörlegur og gáskafullur og óhátíðlegur. Að sjálfsögðu glatast eitthvað úr öllum þýðingum og ég er ekki yfir mig hrifinn af öllum dverganöfnunum sem nú er komin hefð fyrir á íslensku en eru ekki ættuð úr dvergatali Völuspár (t.d. Fjalar og Kjalar og Vambi en það síðastnefnda finnst mér sérlega óþarft því að upphaflega nafnið felur ekki í sér neina sérstaka tilvísun til vaxtarlags dvergsins) en í heildina tekið finnst mér þýðingin vel heppnuð og mér fannst gaman að lesa bókina í þessari þýðingu.
Þó að þessi bók sé sennilega ein sú mest lesna í heiminum og íslenska skólakerfið (með Terry Gunnell í MH í fararbroddi) hafi sannarlega ekki legið á liði sínu þar kynnast örugglega margir sögunni í hinum þunglamalegu kvikmyndum þar sem troðið er inn alls konar klisjum og staðalmyndum á kostnað hins upphaflega gáskafulla anda sögunnar sem er með hæfilega ágengan sögumann sem ræðir reglulega við yngri lesendur án þess að tala niður til þeirra og hughreystir þá stundum þegar horfur virðast ekki góðar. Eins og í fyrri myndum Peters Jackson voru helstu viðbætur nánast endalausar bardagasenur sem viðurkennast má að muni draga marga tölvuleikjaaðdáendur að. Öllu verri er hversu kómíkin hverfur mikið (raunar svo að gamansemin verður stundum vandræðaleg vegna þess að hún er ekki alltumlykandi eins og í bókinni) og mín persónulega skoðun er sú að viðbæturnar séu mun síðri en það litla sem nýtt er úr sögunni sjálfri. Það á t.d. við um notkun hringsins sem Bilbó er stöðugt að taka af sér fyrir framan hvers konar óvættir til að ögra þeim. Það gerir hann vitaskuld aldrei í bókinni enda nógu ótrúlegt samt hversu margt Bilbó afrekar með hjálp hringsins, þannig að ýmsum hefur þótt hann vera hálfgerð Mary Sue í þessari sögu og vissulega hvarflaði það að mér við þennan endurlestur.
Annað sem gerist í kvikmyndinni er að hin tvíbenta skapgerð dverga sem er útlistuð rækilega í sögunni er felld á hvimleiðan hátt inn í ferðalag hetjunnar frá Joseph Campbell að vinna með Jung en sú ágæta kenning tröllríður enn enskumælandi afþreyingarmyndum eins og vofa kommúnismans. Hin upphaflega ævintýrasaga Tolkiens fylgir alls ekki þessari formúlu og er í raun miklu líkari hinni frábæru Gvendi bónda á Svínafelli á köflum en hinni alvarlegri Hringadróttinssögu þar sem Silmerill Tolkiens kemur miklu sterkar inn. Auðvitað eru ákveðnir byggingargallar á bókinni; kannski sá helstur að minni eru kynnt til sögu rétt áður en þeirra er þörf en ekki í upphafi. Helsta ástæða þess er að sagan var saman í bútum og lokahlutinn einn eftir að Tolkien stefndi á útgáfu með aðstoð þeirra Elaine Griffiths og Susan Dagnall sem léku lykilhlutverk í að færa heiminum Tolkien og allir aðdáendur hans ættu að muna þær tvær líka. Er sá þáttur með allt öðrum blæ en upphaf verksins eins og ég skrifaði um hér.
Síðan hérna að ofan er ágætt dæmi um lipurð nýju þýðingarinnar og stíl Tolkiens sem ávarpar þarna lesandann og færir honum almennan fróðleik um dreka. Hin nýja þýðing er auk heldur fagur og eigulegur gripur enda nóg til af eldri útgáfum Hobbitans að lesa og því brýn nauðsyn fyrir útgefandann að sú nýja sé ómótstæðileg fyrir aðdáendur verksins. Sú var raunin með þann aðdáanda sem þetta ritar og lagði hina nýju þýðingu frá sér glaður í bragði.